Fara í efni
Menning

Daníel staðartónskáld WindWorks í Norðri

Daníel Þorsteinsson á æfingu með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofi fyrr á þessu ári. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tónlistarhátíðin WindWorks í Norðri, sem helguð er blásturshljóðfærum, verður haldin 2. til 12. ágúst næstkomandi og fara tónleikarnir fram á söfnum víðsvegar um Norðurland.

Hátíðin, sem fyrst var haldin í fyrra, er sú eina hérlendis þar sem blásturshljóðfæri eru í forgrunni, að því er segir í tilkynningu.

Meðal markmiða hátíðarinnar er að stuðla að nýsköpun í tónlist með því að panta og frumflytja verk íslenskra tónskálda og fyrsta staðartónskáld WindWorks í Norðri er Daníel Þorsteinsson. „Hann hefur skipað sér sess og verið kraftmikið afl í íslensku tónlistarlífi síðustu áratugi. Ný verk Daníels flétta hátíðina í ár saman þar sem ýmsir flytjendur munu spreyta sig á tónlist hans,“ segir í tilkynningu.

Staðartónskáld hefur ekki áður verið ráðið að tónlistarhátíð úti á landi, nema við Sumartónleika í Skálholti, „og þykir okkur tími til kominn að hvetja norðlensk tónskáld til dáða.“

Tónleikar hátíðarinnar verða á eftirtöldum stöðum:

  • Pálshús á Ólafsfirði
  • Safnahúsið á Húsavík
  • Flugsafn Íslands á Akureyri
  • Listasafnið á Akureyri
  • Menningarhúsið Berg á Dalvík
  • Sauðaneshúsið á Langanesi
  • Safnasafnið á Svalbarðsströnd

Fyrstu tónleikarnir verða í Pálshúsi á Ólafsfirði miðvikudaginn 2. ágúst. Þar frumflytja Petrea Óskarsdóttir flautuleikari og Ella Vala Ármannsdóttir hornleikari verk eftir Daníel Þorsteinsson.

Nánar verður fjallað um tónlistarhátíðina síðar á Akureyri.net