Chicago og Samkomuhúsið henta hvort öðru
Leikfélag Akureyrar frumsýnir söngleikinn Chicago í Samkomuhúsinu á Akureyri, í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, annað kvöld, föstudagskvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi vinsæli og margverðlaunaði söngleikur er sýndur í atvinnuleikhúsi á Akureyri. Marta Nordal leikhússtjóri LA segir að ef eitthvað hús henti til að setja upp Chicago sé það einmitt Samkomuhúsið á Akureyri.
Hér er um að ræða gríðarlega vinsælan söngleik eftir þá John Kander, Fred Ebb og Bob Fosse, en Fosse er sá sem setti söngleikinn upp í fyrsta skipti á Broadway 1975. Chicago sló strax í gegn, en uppsetning frá 1996 gengur enn fyrir fullu húsi og er ein sú langlífasta á Broadway frá upphafi. Samnefnd kvikmynd var svo frumsýnd 2002 og vann hún til fjölda Óskarsverðlauna.
Marta, sem leikstýrir sýningunni, segir aðspurð að hana hafi lengi langað til að setja upp þennan söngleik. Hér sé um mjög spennandi verk að ræða sem eigi sannarlega erindi við okkur í dag, með beittri ádeilu á yfirborðsmennsku og spillingu. Til að mynda, þegar það var sett upp fyrst af Bob Fosse, sem er einn af höfundum verksins, hafi hann í raun verið að gagnrýna eigin bransa, tónlistarbransann.
Æfing á Chicago í Samkomuhúsinu í vikunni. Ljósmynd: Auðunn Níelsson
Meinfyndin og skemmtileg ádeila
Umfjöllunarefnið er hin spillta Chicago-borg á þriðja áratug liðinnar aldar þar sem svik og prettir eru daglegt brauð. Marta segir persónurnar í verkinu vera í raun siðleysingja, sem nái þó tengslum við áhorfandann sem hvetur og klappar persónunum lof í lófa þegar upp er staðið. Í kynningu á verkinu segir enda að Chicago sé meinfyndin og skemmtileg ádeila á spillingu og yfirborðsmennsku fjölmiðla og réttarkerfisins sem iði af fjöri, hispursleysi og húmor ásamt ógleymanlegri tónlist og dansatriðum sem kitla öll skynfæri.
Aðalpersónurnar eru glæpakvendin Velma Kelly, leikin af Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur, og Roxy Hart sem Þórdís Björk Þorfinnsdóttir leikur. Þær berjast um athygli fjölmiðla í von um frægð og frama – minna þannig óneitanlega á marga af hinum svokölluðu áhrifavöldum 21. aldarinnar. Marta tekur undir þá staðhæfingu í spjalli við tíðindamann Akureyri.net og nefnir dæmi um þekkt dómsmál þar sem sannleikanum er snúið á hvolf og allt gert fyrir athygli og frama. Það á einmitt við um þær Velmu og Roxy, sem svífast einskis til að slá í gegn þrátt fyrir að vera báðar á bakvið lás og slá.
Samkomuhúsið hentar einstaklega vel
Aðspurð um það af hverju verkinu er fundinn staður í Samkomuhúsinu en ekki Hofi segir Marta að ef eitthvað hús henti fyrir uppsetningu á Chicago sé það einmitt Samkomuhúsið á Akureyri. Verkið sé þess eðlis að það eigi miklu fremur heima í svona gömlu leikhúsi í stað þess að fara inn í nýtískulegan, stóran sal. Sambandið á milli leikara og áhorfenda verður þannig mun nánara í leikhúsi eins og Samkomuhúsinu á Akureyri þar sem allt húsið er nýtt og verkið og umhverfið bæti í raun hvort annað upp.
Hér er um að ræða stórt verk í litlu húsi. Mikið um dans og söng, en hvernig hefur gengið að halda utan um verkið og búa til góða sýningu?
„Það hefur gengið mjög vel í samstarfi við gott fólk,” segir Marta. Leikarahópurinn er reyndar ekki stór, alls 12 manns. Sýningin er sett upp í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, en tíu hljóðfæraleikarar frá hljómsveitinni taka þátt í sýningunni. Chicago var fyrst sýnd í Þjóðleikhúsinu 1985 í þýðingu Flosa Ólafssonar og svo aftur í Borgarleikhúsinu árið 2005. Í þessari uppsetningu er það þýðing Gísla Rúnars Jónssonar sem er notuð.
- Leikstjóri: Marta Nordal
- Tónlistarstjóri: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
- Danshöfundur: Lee Proud
- Leikmynd: Eva Signý Berger
- Búningar: Björg Marta Gunnarsdóttir
- Leikgervi: Harpa Birgisdóttir
- Ljósahönnuður: Ólafur Ágúst Stefánsson
- Hljóðhönnuður: Sigurvald Ívar Helgason
- Þýðing: Gísli Rúnar Jónsson
LEIKARAR
- Jóhanna Guðrún: Velma
- Þórdís Björk Þorfinnsdóttir: Roxý
- Margrét Eir: Mama Morton
- Björgvin Franz Gíslason: Billy Flynn
- Arnþór Þórsteinsson: Amos
- Bjartmar Þórðarson: Marta Smarta
- Með önnur hlutverk fara: Jónína Björt Gunnarsdóttir, Ahd Tamimi, Elma Rún Kristinsdóttir, Kata Vignisdóttir, Anita Þorsteinsdóttir og Molly Carol Birna Mitchell.