Brák Jónsdóttir sýnir í Einkasafninu
Brák Jónsdóttir opnar sýningu sína Nestled in í Einkasafninu í Eyjafjarðarsveit á Laugardaginn.
Brák Jónsdóttir er fyrsti Sumarlistamaður Einkasafnsins 2024. „Hún bætist þar með í glæsilegan hóp listamanna sem unnið hafa í Einkasafninu á sumrin, síðan 2020 og sýnt þar afrakstur vinnu sinnar,“ segir í tilkynningu frá safninu.
Brák Jónsdóttir (f. 1996) lauk B.A. námi í myndlist við Listaháskóla Íslands árið 2021 og hefur hlotið styrki, listamannalaun og átt frumkvæði að ýmsum myndlistarverkefnum. „Verk Brákar eru rík af forsögulegum þemum, sem eru þó skoðuð í framtíðarlegu samhengi komandi tíma. Með skúlptúrinnsetningum skapar hún eigin atburðarás sem oft blæs lífi í útdauð dýr og verur af öðrum heimi,“ segir í tilkynningunni. „Spennan milli hins tilbúna og náttúrulega er ráðandi í verkunum sem vekja oft óhug við fyrstu sýn, en búa þó yfir blíðu, næmni og húmor. Innsetningarnar sem vistkerfi velta upp spurningum um tilvistina og bjóða áhorfendum að endurskoða tengsl sín við umhverfið. Brák hlaut Hvatningarverðlaunin á Íslensku Myndlistarverðlaunahátíðinni 2024.“
Áður hafa þau: Aðalheiður Eysteinsdóttir, Aðalsteinn Þórsson, Arna G. Valsdóttir, Dagrún Matthíasdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Joris Rademaker, Kristín Reynisdottir og Pétur Magnússon verið Sumarlistamenn, unnið og sýnt í Einkasafninu.
- Einkasafnið stendur stutt ofan við syðri afleggjara Kristnesvegar, þjóðvegar 822. Það er staðsett í gróðursælum lundi þar sem fjallalækur skoppar um gildrag og listamenn gera sýningar sínar í landinu og í 15 fermetra safnhúsinu.
- Einkasafnið er merkt á Google Maps og einnig eru merkingar á staðnum. u.þ.b. 10 km sunnann Akureyrar. Einkasafnið heldur utan um söfnun Aðalsteins Þórssonar myndlistarmanns á afgöngum lífs hans. Sýningin opnar kl. 15 á laugardaginn 29. júní og er auk þess opin 30. júní og 5. - 7. júlí frá 14. - 17. Aðgangur er ókeypis og er öllum opið. Upp að sýningarsvæðinu er stuttur náttúrustígur en nokkuð brattur.