Fara í efni
Menning

Börn tilnefndu Helga til bókaverðlauna

Helgi Jónsson, til hægri, og Jeff Kinney, höfundur hinna geysivinsælu bóka um Kidda klaufa. Ljósmynd: Einar Falur.

Helgi Jónsson, rithöfundur, þýðandi og útgefandi á Akureyri, hefur verið tilnefndur til Bókaverðlauna barnanna fyrir þýðingu á bókinni Dagbók Kidda klaufa – snjóstríðið.

Verðlaunin verða nú afhent í 20. skipti, í tveimur flokkum; annars vegar fyrir frumsamda bók, hins vegar þýðingu. Fimm eru tilnefndar í hvorum flokki. Það eru börn í skólum og bókasöfnum um allt land sem tilnefna bækur sem þeim þykja skemmtilegastar, áhugaverðastar eða bestar. Valið stóð á milli 126 bóka að þessu sinni og um 5.000 krakkar kusu.

Bókin, Kiddi klaufi – Snjóstríðið, er sú nýjasta í flokknum um Kidda klaufa eftir Jeff Kinney, sem Helgi segir hafa verið gríðarlega vinsælan síðustu tíu ár, ekki síður hérlendis en á heimsvísu. Helgi hefur þýtt þær allar.

„Það er alltaf gaman þegar lesendur kunna að meta það sem maður er að skrifa eða þýða, en Kiddi er líklega barnið í okkur öllum. Þess vegna höfðar hann til svona margra,“ segir Helgi við Akureyri.net af þessu tilefni. „Og það besta er að alltaf koma nýir og nýir lesendur þegar hinir stækka og þróast í aðra átt. Kiddi er vinsælastur í aldurshópnum 8 til 14 ára.“

Þess má geta að á síðasta ári komu út tvær bækur um Kidda; fyrst Flóttin í sólina í sumarbyrjun, og Snjóstríðið fyrir jólin.

Þá er byrjaður bókaflokkur sem er afsprengi Kiddabókanna; Randver, besti vinur Kidda, vildi fá svolitla athygli sjálfur, eins og Helgi orðar það, og skrifaði bók sem heitir Randver kjaftar frá. „Þar kveður við annan tón og Kiddi fær á baukinn fá besta vini sínum!“

Listinn yfir tilnefningar ársins er þessi:

Íslenskar barnabækur

  • Hetja - Björk Jakobsdóttir
  • Lára lærir að lesa - Birgitta Haukdal
  • Orri óstöðvandi. Bókin hennar Möggu Messi - Bjarni Fritzson
  • Þín eigin undirdjúp - Ævar Þór Benediktsson
  • Öflugir strákar - Bjarni Fritzson

Þýddar barnabækur

  • Alls ekki opna þessa bók (Andy Lee) - Þýðing Huginn Þór Grétarsson
  • Dagbók Kidda klaufa. Snjóstríðið (Jeff Kinney) - Þýðing Helgi Jónsson
  • Handbók fyrir ofurhetjur. Horfinn - (Elias og Agnes Vahlund) - Þýðing Ingunn Snædal
  • Hundmann. Taumlaus (Dav Pilkey) - Þýðing Bjarki Karlsson
  • Verstu kennarar í heimi (David Walliams) - Þýðing Guðni Kolbeinsson