Börn á Tröllaborgum sýna á Glerártorgi
Barnamenningarhátíð á Akureyri hófst í vikunni og fjölmargt verður á döfinni allan þennan mánuð. Í morgun var til dæmis opnuð á Glerártorgi skemmtileg listsýning barna á leikskólanum Tröllaborgum.
Til sýnis eru verk sem börnin unnu út frá túlkun sinni á Lubba stafrófinu, sem svo er kallað. Lubbi finnur málbeinið er bók eftir Eyrúnu Ísfold Gísladóttur og Þóru Másdóttur. Lubbi er íslenskur fjárhundur sem kennir börnum á aldrinum tveggja til sex ára málhljóðin og málörvun. Flest allir leikskólar á Akureyri vinna með Lubba og þekkja því flestir þennan skemmtilega hund.
Börnin vinna með endurvinnanlegan efnivið og túlka og fræðast um bókstafinn sem tengjast ýmsum dýrum, uppruna þeirra og heimkynnum. Læra þau að nota ýmsan efnivið úr umhverfinu og endurvinna hann með virðingu fyrir náttúrunni, eins og segir um sýninguna á síðu Barnamenningarhátíðar.
Anna Jóna Guðmundsdóttir leikskólastjóri á Tröllaborgum við eitt verkanna á sýningunni. Þar er unnið með eldgosið á Reykjanesi.
Allir öruggir heim! Nokkur barnanna virða sér sýninguna í morgun.
Eldgos á Reykjanesi - en sólin skín sem betur fer líka einhvers staðar alla daga ...