Fara í efni
Menning

Blásið til tónleika í tilefni stórafmæla

Lúðrasveitin Hekla um 1910. Aftast frá vinstri: Jónas Þ. Þór, Magnús Lyngdal, Magnús Einarsson stjórnandi, Ólafur Tryggvi Ólafsson og Hallgrímur Kristjánsson. Standandi fyrir framan, frá vinstri: Jón Þ. Þór, Hjalti Espólín, H. Bebensee og Þorsteinn Thorlacius. Sitjandi: Friðbjörn Aðalsteinsson, vinstra megin, og Þórhallur Gunnlaugsson. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri/Hallgrímur Einarsson

Lúðrasveit Akureyrar heldur tónleika í Hofi á Akureyri á mánudaginn, á öðrum degi páska, í tilefni þess að 80 ár eru síðan Lúðrasveit Akureyrar lék fyrst opinberlega og að 130 ár eru síðan fyrst var stofnaður hornaflokkur á Akureyri.

Kjartan Ólafsson félagsfræðingur og hornleikari í Lúðrasveit Akureyrar skrifar grein sem birtist á Akureyri.net í dag þar sem hann segir frá tilurð sveitarinnar og forverum hennar, Hornaflokki Akureyrar og Lúðrasveitinni Heklu. Langafi Kjartans, Ólafur Tryggvi Ólafsson, var hornleikari í Heklu, sem stofnuð var 1907, og síðan einn helsti hvatamaður að stofnun Lúðrasveitar Akureyrar árið 1942 en hún lék í fyrsta skipti opinberlega á páskadag 1943, 25. apríl, sunnan undir Akureyrarkirkju. Flutti þá sálmalög og sönglög.

Ólafur Tryggvi Ólafsson (1874 – 1961), verslunarmaður og hornleikari. Kjartan Ólafsson (f. 1974), félagsfræðingur og hornleikari.

Gerðum alvöru úr hugmynd

„Það var Gísli Magnússon, sem spilar gjarnan á baritonhorn í lúðrasveitinni, sem minnti mig á það fyrir sennilega tveimur árum að lúðrasveitin ætti bráðum 80 ára afmæli og hvort ekki þyrfti nú að gera eitthvað af því tilefni. Það varð mér og Sóley Björk Einarsdóttur, sem hefur stjórnað lúðrasveitinni undanfarin ár, tilefni til að gera alvöru úr hugmynd sem við höfðum frá því fyrir Covid að halda tónleika með lúðrasveitinni en láta ekki nægja að spila utandyra á hátíðisdögum eins og þá hafði verið í nokkur ár,“ segir Kjartan Ólafsson við Akureyri.net í tilefni tónleikanna.

„Við skipulögðum þessvegna tónleika í júní á síðasta ári sem mæltust mjög vel fyrir bæði hjá félögum í lúðrasveitinni og áheyrendum. Við áttum auðvitað engan pening til að gera neitt en fengum að vera í Fljótinu í Hofi og gátum æft á bókasafninu í Tónlistarskólanum þar sem skólárinu var lokið,“ segir Kjartan. „Það eru nefnilega mörg ár síðan lúðrasveitin hætti að vera með vikulegar æfingar eins og var áðurfyrr. Núna er bara komið saman þegar þarf að spila og þegar um er að ræða fólk sem hefur margra ára tónlistarnám að baki þá þarf ekki margar æfingar til að spila internationalinn í kröfugöngu 1. maí svo dæmi sé tekið.“

Krefjandi lög – afbragðshópur

„Að þessu sinni sóttum við svo um og fengum styrk frá Menningarsjóði Akureyrar og getum því að þessu sinni leigt okkur sal svo tónleikarnir verða í Hömrum í Hofi. En við ætlum samt að hafa opið fram í Fljótið og reyna að skapa svolítið skemmtilega og ekkert alltof formlega stemmingu. Og það eru lög á efnisskránni sem er alveg dálítið krefjandi þannig að við höfum fjórar æfingar til að undirbúa okkur. En þetta er líka afbragðshópur sem kemur þarna saman og ættu að verða fínustu tónleikar,“ segir Kjartan og bætir við: „Og ef þetta fellur í góðan jarðveg þá reynum við kannski að gera þetta kannski tvisvar eða þrisvar á ári að bjóða fólki á Akureyri uppá dálitla lúðrasveitartónleika.“

Tónleikarnir í Hofi á mánudaginn hefjast kl. 14.00. 

Smellið hér til að lesa grein Kjartans Ólafssonar