Blak og fótbolti á dagskrá í dymbilviku

Dymbilvikan einkennist annars vegar af úrslitaeinvígjum í blaki og inngangi að fótboltasumrinu. Bæði lið KA í blakinu eru búin að ná forystu með sigrum í fyrsta leik á heimavelli. Knattspyrnuliðin þrjú eiga líka öll leiki í vikunni þegar keppni í Bestu deild kvenna hefst og bæði karlaliðin spila í 32ja liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
MIÐVIKUDAGUR - fótbolti og blak
Þór/KA hefur leik í Bestu deildinni á morgun, miðvikudag, þegar liðið sækir Víkinga heim á Víkingsvöllinn í fyrstu umferðinni. Þór/KA fór í úrslitaleik Lengjubikarsins í lok mars og endaði í 2. sæti í Kjarnafæðimótinu eftir slæmt tap fyrir FHL í lokaleik mótsins síðastliðinn föstudag.
Leikmannahópurinn er lítið breyttur frá því í fyrra, en þó aðeins. Þrír erlendir leikmenn sem voru hjá Þór/KA í fyrra, Shelby Money, Lara Ivanusa og Lidija Kulis, eru allar farnar annað og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir gekk til liðs við Víking í vetur. Inn í hópinn eru komnar Eva Rut Ásþórsdóttir frá Fylki og markvörðurinn Jessica Berlin, auk þess sem inn í hópinn koma ungar heimaaldar stelpur.
- Besta deild kvenna í knattspyrnu
Víkingsvöllur kl. 18
Víkingur - Þór/KA
Þór/KA og Víkingur mættust í lokaumferðinni í efri hluta Bestu deildarinnar í fyrrahaust. Víkingur vann leikinn og skaust upp í 3. sætið, upp fyrir Þór/KA sem endaði í 4. sætinu. Leikir liðsins í deildinni í fyrra sumar unnust báðir á útivelli. Þór/KA vann 2-1 á Víkingsvellinum, en Víkingar unnu 2-0 á Akureyri, auk sigursins í lokaleiknum.
- - -
Nágrannar berjast um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna. Deildarmeistarar KA á í höggi við Völsung sem endaði í 2. sæti deildarinnar. KA vann öruggan 3-0 sigur á Völsungi í fyrsta leik einvígis liðanna um Íslandsmeistaratitilinn og komið að öðrum leik á Húsavík á miðvikudagskvöldið.
- Úrslitaeinvígi Unbroken-deildar kvenna í blaki
PCC-höllin á Húsavík kl. 19:30
Völsungur - KA
Vinna þarf þrjá leiki til að hampa Íslandsmeistarabikarnum. Þriðji leikur liðanna fer fram í KA-heimilinu þriðjudaginn 22. apríl.
FIMMTUDAGUR - blak
Karlalið KA í blaki fór vel af stað í úrslitaeinvíginu, eins og konurnar. Það er að vísu ekki nágrannaslagur því mótherjarnir eru Þróttarar úr Reykjavík. KA vann fyrstu viðureign einvígisins 3-0 í KA-heimilinu á sunnudag og sækir nú Þróttara heim í Laugardalshöllina á fimmtudaginn.
- Úrslitaeinvígi Unbroken-deildar karla í blaki
Laugardalshöll kl. 14
Þróttur R. - KA
Þriðji leikur liðanna fer fram í KA-heimilinu miðvikudaginn 23. apríl, síðasta vetrardag.
FÖSTUDAGUR - fótbolti
Liðin í Bestu deild karla eru að hefja þátttöku í Mjólkurbikarkeppninni, koma inn í 32ja liða úrslitin. KA fékk heimaleik og fær heimsókn að austan á föstudaginn langa þegar lið KFA kemur í heimsókn á Greifavöllinn. KFA leikur í 2. deild og vann Spyrni 3-0 í 2. umferð keppninnar.
- Mjólkurbikar karla í knattspyrnu, 32ja liða úrslit
Greifavöllurinn kl. 17:30
KA - KFA
LAUGARDAGUR - fótbolti
Þórsarar hófu leik í 2. umferð Mjólkurbikarkeppninnar þegar þeir tóku á móti Magna í Boganum og unnu öruggan 7-0 sigur. Þórsarar fengu heimaleik eins og nágrannarnir og fá lið ÍR í heimsókn í Bogann á laugardag. ÍR leikur í Lengjudeildinni eins og Þór.
- Mjólkurbikar karla í knattspyrnu, 32ja liða úrslit
Boginn kl. 15:00
Þór - ÍR