Bjarni Frímann: „Eins og að fljúga listflugvél“

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands býður til tónlistarveislu á morgun, skírdag, kl 16.00 í Hamraborg, Hofi. Þá flytur hljómsveitin Jóhannesarpassíuna, eftir J.S. Bach, ásamt einsöngvurum, Kammerkór Norðurlands og Kirkjukór Akureyrarkirkju. Bjarni Frímann Bjarnason er hljómsveitarstjóri, en blaðamaður Akureyri.net náði á honum í gær, rétt fyrir hljómsveitaræfingu.
Ég er í rauninni að sturlast úr spenningi!
„Verkefnið leggst ótrúlega vel í mig og til að byrja með þá langar mig að koma því á framfæri hvað ég er ótrúlega ánægður með kórana,“ segir Bjarni Frímann. „Ég kom í bæinn frekar þreyttur á mánudaginn, eftir ferðalag frá Svíþjóð, fór beint á langa kóræfingu og gleymdi öllu um þreytu strax! Það var svo gaman og svo gat ég varla sofið fyrir spenningi eftir æfinguna.“
„Það er rosalega flottur standard á kórunum og sönglífinu hérna fyrir norðan, fólk er greinilega búið að liggja yfir þessu og gerir sitt allra besta og gott betur. Nú er ég á leiðinni á hljómsveitaræfinguna og er mjög spenntur. Ég er í rauninni að sturlast úr spenningi!“
Bjarni Frímann á 30 ára afmælistónleikum hljómsveitarinnar. „Mér finnst verkefnið mjög skemmtilegt, sem stjórnandi hefur maður svolítið frjálsari hendur en oft með nýrri verk,“ segir hann um Jóhannesarpassíuna sem flutt verður í Hofi á morgun. Mynd: Hilmar Friðjónsson
Píslarsagan færð í söng
Jóhannesarpassían fjallar um síðustu stundir píslarsögu Krists eins og hún er sögð í guðspjalli Jóhannesar. Í lýsingu á heimasíðu Menningarfélagsins um tónleikana segir að það sé sögumaður sem syngur frásögnina en kórar og einsöngvarar eru í hlutverki persónanna. Reglulega er atburðarásin skreytt með aríum og kóratriðum þar sem efni guðspjallsins er skoðað og tilfinningar um það eru tjáðar. Einsöngvarar á tónleikunum eru Hildigunnur Einarsdóttir, Harpa Ósk Björnsdóttir, Oddur Arnþór Jónsson og Þorbjörn Rúnarsson.
Eins og að fljúga listflugvél
„Ég hef ekki stjórnað þessu verki áður, en ég spilaði í þessu þegar ég var gutti,“ segir Bjarni Frímann. „Mér finnst verkefnið mjög skemmtilegt, sem stjórnandi hefur maður svolítið frjálsari hendur en oft með nýrri verk. Með svona gamla tónlist er ekki allt skrifað svo nákvæmlega niður sem gefur rými fyrir svolítið skapandi vinnu. Mörgu tónlistarfólki þykir ofboðslega vænt um þetta verk og hefur allskonar skoðanir á þessu, sem er ákveðin áskorun. Þetta er svolítið eins og að fljúga listflugvél, í staðinn fyrir að fljúga risa flutningavél sem er bara á ákveðinni leið á sjálfstýringu.“
Hér má sjá meira um tónleikana og finna miða.