Bergur Þór ráðinn leikhússtjóri LA
Bergur Þór Ingólfsson hefur verið ráðinn leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. Bergur Þór tekur við af Mörtu Nordal sem hefur gengt starfinu síðustu í sex árin.
Bergur Þór útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1995. Hann hefur verið fastráðinn við Borgarleikhúsið frá árinu 2000 og hefur leikið þar fjölmörg hlutverk. Í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyri segir að Bergur Þór hafi getið sér gott orð sem leikstjóri en á meðal stórsýninga sem hann hefur leikstýrt eru Mary Poppins, Deleríum búbónis, Billy Elliot og Matthildur. Hann hefur einnig starfað í kvikmyndum og sjónvarpi og hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín.
„Það er mikill heiður og viðurkenning að vera treyst fyrir svo merkri og mikilvægri menningarstofnun sem LA er. Ég tek við leikhúsi í toppstandi eftir Mörtu Nordal, hef átt í frábærum samskiptum við verðandi samstarfsfólk mitt hjá MAK og finn til mikillar eftirvæntingar fyrir því sem framundan er. Akureyri er yndislegur, fallegur og spennandi bær. Ég hlakka til að flytja norður og setja upp skemmtilegar, áríðandi og lifandi leiksýningar. Nú verður gaman,“ segir Bergur Þórí tilkynningunni.
Eva Hrund Einarsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar segir mikinn feng fyrir Menningarfélagið að fá Berg til starfa. „Hann kemur með mikla þekkingu og reynslu af starfi leikhúsa og hefur verið afar farsæll í sínum störfum. Ég hlakka mikið til samstarfsins og að sjá Berg í nýju hlutverki hér fyrir norðan,“ segir Eva Hrund.