Barokk-Jazz, stefnumót forms og spuna
Stefnumót forms og spuna er þema tónleika sem verða í Akureyrarkirkju 29. ágúst klukkan 17 og á ný í Fríkirkjunni í Reykjavík 2. september klukkan 12, á Jazzhátíð Reykjavíkur. Þarna koma fram söngkonurnar Kristjana Stefánsdóttir og Þórhildur Örvarsdóttir og í fylgdarliði þeirra verða Eyþór Ingi Jónsson organisti, Kjartan Valdemarsson djasspíanisti, Pétur Grétarsson trommu- og slagverksleikari og Þorgrímur Jónsson, bassaleikari.
Tilefni þessara stefnumóta er að sögn Þórhildar langþráður draumur þeirra söngkvennanna, en þær Kristjana hafi lengi dreymt um að vinna saman og ekki síst að stefna saman ólíkum tónlistarstefnum og stílum. Báðar hafi þær fjölbreyttan bakgrunn í söng og vangaveltur þeirra hafi endað í því að tefla saman barokktónlist og nútúímalegri spunatónlist í áttina að djassi. Þess vegna hafi þær fengið Eyþór Inga organista í lið með sér, enda sé hann þekktur fyrir framúrskarandi barokkspuna. Þeir Kjartan, Pétur og Þorgrímur komi svo inn í dæmið sem djassspunamenn.
Listin er ekki ein og samsláttur stefna og stíla getur verið ótrúlega spennandi og forvitnilegur. Á þessum tónleikum verða nokkrar af perlum söngtónlistar barokktímabilsins eftir meistara á borð við Bach, Händel og Purcell færðar í ferskan djassættaðan búning. Það er ekki að efa að áheyrendur munu fá að njóta þessara snilldarverka og janfvel verða hissa á að heyra þau í nýjum og óvæntum fötum. Það er svo sem ekki nýtt að tónlist frá Barokktímanum hafi verið sett á dagskrá vönduðustu djasstónlistarmanna og þar má nefna Frakkann Jaques Loussier og hinn bandaríska Modern Jazz Quartet. Að sögn Þórhildar verða þessir tónleikar ekki þannig að barokkið verði sett í djassgír heldur mun spuninn verða leiðarljósið í söng og leik.
Tónleikarnir í Akureyrarkirkju, eru styrktir af Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Fá sæti eru í boði vegna samkomutakmarkana. Miðasala er á tix.is
Tónleikarnir í Fríkirkjunni eru á vegum Jazzhátíðar Reykjavíkur. Miðasala er á tix.is.