Barnamenningarhátíð: „Öll börn eru listamenn“
Listsköpun barnanna hefur verið í brennidepli í aprílmánuði síðustu árin, en núna er árleg Barnamenningarhátíð Akureyrarbæjar formlega hafin í sjöunda sinn. Hátíðin stendur út apríl og fjölmargt í boði fyrir yngri kynslóðirnar með hækkandi sól. Hólmfríður Karlsdóttir er verkefnastjóri Barnamenningarhátíðar og hún segist horfa björtum augum á hátíðina í ár.
„Söfnin okkar verða eins konar heimahafnir hátíðarinnar,“ segir Hólmfríður. „Þar verða smiðjurnar og allskyns sýningar. Að sjálfsögðu er enginn aðgangseyrir fyrir yngri en 18 ára. Listasafnið, Amtsbókasafnið og Minjasafnið verða iðandi af lífi og sköpun unga listafólksins.“
Listasmiðjurnar eru fjölbreyttar, en þær er hugsaðar fyrir börn frá 6 mánaða aldri og upp í 18 ára. Að sjálfsögðu verða foreldrarnir líka með. „Þarna skapast ótal tækifæri fyrir góða samveru. Sýningar á afrakstri vetrarins í leikskólum bæjarins eiga líka án efa eftir að vekja athygli,“ segir Hólmfríður.
Hápunktur hátíðarinnar er alltaf Sumardagurinn fyrsti. „Þá verður gaman að rölta um og kíkja inn á mismunandi staði,“ segir Hólmfríður. „Braggaparkið, Samlagið í Deiglunni, Listasafnið, Minjasafnið, svo eitthvað sé nefnt, og svo klárum við daginn á flottri dagskrá í Hofi fyrir tónleikana kl. 17 með Emmsjé Gauta sem hljómsveitin Skandall sem hitar upp fyrir.“
„Pablo Picasso sagði að öll börn væru listamenn en vandinn væri að rækta sköpunargáfuna í lífsins ólgusjó og ég held að það sé algjörlega rétt. Húrra fyrir sköpunarkrafti bernskunnar!“ Segir Hólmfríður að lokum.