Fara í efni
Menning

Barnabókahátíð haldin í Hofi í vikunni

Barnabókahátíð  verður haldin í menningarhúsinu Hofi á morgun, miðvikudag, og á fimmtudaginn, 18. og 19. maí.

Dagskráin er sem hér segir, samkvæmt tilkynningu:

Miðvikudagur 18. maí

  • Rithöfundurinn Bjarni Fritzson verður með ritlistarsmiðju klukkan 17.00 þar sem hann kennir þátttakendum galdurinn á bak við að skrifa fyndna, spennandi og skemmtilega metsölubók. Bjarni mun fara skref fyrir skref yfir ritferlið sem hann fer í gegnum þegar hann skrifar Orra óstöðvandi bækurnar sínar en hann hefur hlotið Bókaverðlaun barnanna síðastliðin tvö ár. Ritlistarsmiðjan er fyrir alla krakka á aldrinum 10-12 ára. Skráning fer fram hér á mak.is
  • Sama dag klukkan 18.00 er komið að ritlistarsmiðju Gunnars Helgasonar. Gunni ætlar að segja frá leyndarmálunum sínum og kenna krökkum að búa til sín eigin meistarverk. Áherslan er á Mömmu klikk! Draumaþjófinn og nokkrar Pixar- og Disneymyndir. Ritlistarsmiðjan er fyrir alla krakka á aldrinum 10-16 ára. Skráning fer fram hér á mak.is   

Fimmtudagur 19. maí

  • Á fimmtudeginum verður sannkallaður höfundahasar þegar barnabókahöfundarnir Bjarni Fritzson, Brynhildur Þórarinsdóttir og Gunnar Helgason lesa úr eigin verkum. Rán Flygenring, barnabókahöfundur og myndskreytir, snarteiknar á staðnum eins og henni einni er lagið. Áhugasamir geta prófað í lok viðburðar að snarteikna með hjálp Ránar. Vinningshafi Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri, Snjóki M. Gunnarsson frá Oddeyrarskóla, kemur einnig fram. Viðburðurinn hefst klukkan 16.30 og fer fram í Hömrum. Öll velkomin.

Hátíðin er samastarfsverkefni Menningarhússins Hofs, Barnabókaseturs Íslands, Giljaskóla og Naustaskóla og er styrkt af Upbyggingarsjóði SSNE og Akureyrarbæ.