Fara í efni
Menning

Baraflokkurinn á Eyrarrokki í haust – Magni syngur

Frá tónleikum Baraflokksins í menningarhúsinu Hofi í september árið 2010, þegar 30 ár voru frá því hljómsveitin kom fyrst fram. Ásgeir Jónsson söngvari fremstur á sviðinu og gamalli mynd af honum varpað á tjald að baki sveitarinnar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Baraflokkurinn, hin goðsagnakennda akureyrska hljómsveit, kemur saman í haust og leikur á Eyrarrokki, tónlistarhátíð sem fer fram á Verkstæðinu við Strandgötu á Akureyri í október ár hvert.

Það eru Hvanndalsbræðurnir, Sumarliði Helgason og Rögnvaldir Bragi Rögnvaldsson, og Helgi Gunnlaugsson, veitingamaður á Verkstæðinu,sem standa að hátíðinni sem fyrst fór fram árið 2021.

Rögnvaldur greinir frá tíðindinum á Facebook. Ásgeir Jónsson, söngvari Baraflokksins, lést fyrir nokkrum árum langt um aldur fram en rokkarinn kunni, Magni Ásgeirsson, syngur með hljómsveitinni á Eyrarrokki.

Rögnvaldur Bragi segir í raun glórulaust að halda árlega tónlistarhátíð í bænum án þess að Baraflokkurinn komi fram. „Við höfum stundum sagt að strákarnir í Baraflokknum hafi handmokað grunnin fyrir þeirri tónleikaflóru sem boðið er uppá á Akureyri í dag,“ skrifar Rögnvaldur. Baraflokkurinn var starfandi frá 1980 til 1985. Hljómsveitin hefur komið saman einstaka sinnum síðan þá.

Baraflokkurinn á tónleikunum í Hofi haustið 2010, þegar 30 ára voru síðan sveitin kom fyrst fram - og 25 ár síðan hún lék síðast í heimabænum. Frá vinstri: Ásgeir Jónsson, Þór Freysson, Baldvin H. Sigurðsson, Sigfús Örn Óttarsson og Jón Arnar Freysson. Mynd: Skapti Hallgrímsson

„Þeir héldu tónleika á hinum ýmsu stöðum í bænum og mætingin sjaldnast upp á marga fiska. En fyrir þá sem mættu var þetta mikil upplifun, eitthvað alveg nýtt, fram að þessu höfðu akureyrskar hljómsveitir eingöngu leikið á dansleikjum og þá aðallega lög eftir aðra. Þetta var eitthvað annað, þeir voru ungir þeir voru töff og metnaðurinn gríðarlega mikill,“ segir Rögnvaldur Bragi.

Í minningu Ásgeirs

„Á þessum tíma var allt byrjað að krauma í tónlistarlífinu á höfuðborgarsvæðinu, Baraflokkurinn gaf ungu fólki á Akureyri von um að hér gætu sprottið upp lífvænlegar popp og jafnvel rokk jurtir og út frá þessum vonar neistum fylltust skúrar bæjarins af ungum tónlistarkrökkum með eld í hjarta.“

Rögnvaldur segir þá Eyrarrokksmenn hafa verið í sambandi við Ásgeir frá fyrstu Eyrarrokkshátíðinni „í þeirri veiku von að hann væri að hlaupa fjandans krabbann af sér. Stundum var Geiri bjartsýnn en oft bar hann sig ekki nógu vel. Það var svo í maí byrjun 2022 sem fréttir bárust þess efnis að krabbinn hefði haft Ásgeir undir. Um áramótin síðustu höfðum við svo samband við félaga Ásgeirs í Baraflokknum og stungum upp á því hvort ekki væri ráð að heiðra minningu Ásgeirs með því að telja í nokkur lög á Eyrarrokkshátíðinni í október. Þeir tóku einstaklega vel í þessa bón okkar og innan nokkurra daga var komið grænt ljós á hugmyndina.“

Síðan segir Rögnvaldur: „Það verður okkar eini sanni Magni Ásgeirsson sem ætlar að halda um míkrafóninn og þenja raddböndin við þetta tækifæri og við efumst ekki um að Geiri verður með honum og strákunum og bara okkur öllum í anda. Takk fyrir ykkar framlag til tónlistarlífsins á Akureyri strákar og blessuð sé minning Ásgeirs Jónssonar. Við erum bæði þakklát og stolt af því að geta boðið okkar gestum upp á þessa frábæru hljómsveit sem bærinn á svo mikið að þakka.“

Eyrarrokk á tix.is