Fara í efni
Menning

Ballöður og rokk á Hauststillu 2021

L_OST og Ivan Mendez.

Hauststilla 2021 var á Græna hattinum á fimmtudaginn var, litla tónlistarhátíðin þar sem ungt og skapandi tónlistarfólk fær tækifæri til að sýna hvað í því býr. Þetta var í fjórða sinn sem Hauststilla er haldin og hún er komin til að vera, samið hefur verið við Akureyrarbæ um að styrkja hátíðina næstu þrjú árin.

Hauststilla er sprottin úr huga og hjarta tónlistarmannsins Ivans Mendez, sem bjó til þennan vettvang til þess að gefa öðrum ungum tónlistarmönnum færi á að koma fram. Mjög margir af þeim eiga rætur í skapandi deild Tónlistarskólans á Akureyri, og það er skemmtilegt að sjá hversu góða og fjölhæfa tónlistarmenn hann sendir frá sér. Hauststilla byrjaði smátt en hefur vaxið hægt og bítandi og á fimmtudaginn fóru 9 atriði á svið, sumir höfðu komið fram áður en aðrir bættust í hópinn og margir frá fyrri árum eru farnir til frekara náms og starfa í öðrum sóknum.

Húsvíkingurinn Einar Óli, sem kallar sig iLo, steig fyrstur á svið, en hann hefur víða komið fram hér um slóðir, flutti lag af væntanlegri plötu sinni og annað splunkunýtt, íðilfagrar og hófstilltar ballöður eins og honum er best lagið. Í kjölfarið kom Villi, Vilhjálmur B. Bragason og flutti tvö lög af talsvert annarri gráðu en flestir hafa heyrt til hans á sviði eða í Vandræðaskáldum, eitthvað aðeins út í mýkra. Þá var komið að því að færa út kvíar Hauststillu og leita til Siglufjarðar, en tvíburarnir Þorvaldssynir komu og fluttu tvö frábær lög sín og léku með á gítar og píanó. Bræðurnir eru kjölfestan í hljómsveitinni Ástarpungum sem hefur spilað á Siglufirði og reyndar líka á N4 fyrir skemmstu. Hljómsveit þeirra var reyndar nafnlaus þegar þeir unnu Söngkeppni framhaldssólanna í vor. Lag sitt Aleinn á nýársdag gáfu þeir út fyrr á árinu og kölluðu sig þá MTHJ. Til að ljúka fyrri hluta Hauststillu að þessu sinni kom á sviðið Akureyringurinn frá Þingeyri, Anton Líni, og það má með sanni segja að ekki hafi verið stífla í tilfinningaæðinni þegar hann og gítarinn hans hljómuðu saman. Í heildina má segja að þessi fyrri hluti hafi verið hljómþýður og hrífandi og undirtektir gesta í nánast fullum sal prýðisgóðar.

Að loknu hléi kynnti Ivan Mendez til leiks skólabróður sinn og samverkamann, en báðir eru þeir við nám í Berlín. Aki heitir drengurinn og kallar sig L_OST, og hann söng þrjú ákaflega hrífandi og dramatísk lög og lék með á gítar. Hann lék líka á kontrabassa þegar Ivan Mendez greip sjálfur til flautunnar og gígjunnar og flutti lög af væntanlegri plötu, sem hann hefur unnið í Þýskalandi. Reyndar einnig íslenskan texta sinn við brasílískt lag og í eigin tónsmíðum hans er eimur af suður-amerískum rótum og hlýjum tilfinningum. Þá má segja að eftir þetta hafi verið skrúfað talsvert upp í tempóinu og rómantíkin sett svolítið til hliðar. Þar er rétt fyrst að geta um Drinna and the Dangerous Thoughts, merkilega hljómsveit sem ber með sér dálítinn keim af Tom Waits og óhefðbundnum einkennum. Þetta var nýr litur í akureyrsku tónlistarflóruna. Hin lettneska Diana Sus hefur verið fastagestur á Hauststillu og kom fram með mögnuðu bandi og hristi undir lokin hressilega upp í rokkhjörtunum. Lokahnykkurinn var svo rokkarinn ungi, Ari Orrason, kominn með splunkunýja hljómsveit, enda fyrri félagar farnir til náms suður. Þetta var kraftmikill og hressilegur endir á tónlistarhátíð unga fólksins.

Hauststilla var nú sem áður mjög fjölbreytileg blanda af tónlist, eins og sjá má af ofanrituðu, og frábært að fylgjast með gróskunni í tónlistarlífi ungmennanna. Atvikin hafa hagað því svo að strákar eru og hafa verið meira áberandi í þessari senu en stelpur, en Hauststilla stefnir að því að vinna til liðs við sig á næstu samkomum fleiri stelpur sem semja, spila og syngja, því það gera þær svo vel þegar þær vilja. Og nú er farið að hlakka til Hauststillu 2022.

Þess má geta að Hauststilla 2020, sem sagt frá fyrra ári, er í heild sinni komin á YouTube. Eins og nú var hljóðmeistari Sigfús Jónsson í Hljómbræðrum og Bjarki Freyr Brynjólfsson gerði myndbandið. Sjá hér 

Þorvaldssynir, tvíburabræðurnir Tryggvi og Júlíus.