Bækur – Ég skal flauta fyrir yður á meðan
Bækur! Litlar og stórar, þykkar, þunnar, þungar, léttar og laufléttar, skemmtilegar og ef til vill leiðinlegar – að einhverra mati, því smekkur manna er misjafn.
Bækur af öllu tagi er að finna á árlegum markaði Félags íslenskra bókaútgefenda sem opnaður var á Akureyri í morgun.
Á markaðnum verður hugsanlega spurt: Er þetta góð bók? Skemmtileg? Hver og einn verður að svara því en eitt er víst að gæði eru ekki mæld í stærð bókar, þyngd eða fjölda orða. Sama bók getur verið yndisleg og leiðinleg, það veltur einfaldlega á því hver svarar.
Sá sem þetta skrifar er dálítið veikur fyrir bókum – allt of veikur að sumra mati, en það er önnur saga – og óumflýjanlegt var að líta við á bókamarkaðnum við Óseyri, grípa nokkrar af handahófi, klappa þeim og fletta.
Í dag og næstu daga verður gluggað í nokkrar bækur af markaðnum til gamans og meira að segja brugðið á leik með því að vigta hverja og eina. Það segir þó ekkert um bækurnar eins og áður var nefnt, nema kannski hvort skynsamlegt sé að fara með þær í rúmið og lesa smávegis fyrir svefninn! Og óhætt er að lýsa því yfir strax að fyrsta bókin hentar prýðilega þegar lagst er á koddann.
_ _ _
Jagúar skáldsins
Óskar Magnússon
JPV 2022
212 grömm
Þessi er létt, bæði að hinu fasta efni og innihaldi; bráðskemmtileg bók þar sem Óskar Magnússon segir skemmtisögur af Nóbelsskáldinu Halldóri Laxness og Jagúarnum hans.
Óskar rifjar m.a. upp sögu sem hann fullyrðir að sé jafnsönn Biblíunni því „Halldór sagði hana sjálfur og var jafnvel dálítið upp með sér af framgöngu sinni. Ekki er sögusviðið ljóst af neinni nákvæmi, frekar en sitthvað annað, en þó vitað að það var á fjölförnum gatnamótum með umferðarljósum.“
Sem sagt: „Bar svo illa við að sjálft skáldið þurfti að upplifa verstu martröð allra ökumanna: Bíll drepur á sér á ljósum. Þetta var vel þekkt, einkum hjá stúdentum og þeim efnaminni, sem áttu gamla og vanstillta bíla, og svo auðvitað hjá bifvélavirkjum sem aldrei gera við eigin bíla. Nóbelsskáldum mun það hafa verið framandi. Nú á dögum útblásturs- og lofslagsvitundar þykir þetta hverri bifreið prúður kostur.“
Óskar segir þann hátt „að leggjast á flautuna“ ekki algengan í kaldari löndum „en nú fékk skáldið að kenna á slíkum flautuleik. Kona í næsta bíl fyrir aftan þeytti nú hljóðhorn sitt svo undir tók í byggð, sérbýli jafnt sem blokkum. Ekki fór Jagúarbifreiðin í gang við þau óhljóð, jafnvel þótt langvarandi væru. Loks steig skáldið virðulega út úr bíl sínum, gekk hægum skrefum aftur fyrir hann og hneigði sig djúpt og lyfti hendi að hattbarðinu. Frúin á flautunni sá nú hver þar fór og renndi niður rúðunni með skelfingarsvip og greip fyrir munninn. Skáldið brosti og mælti:
„Ef þér vilduð vera svo vænar að setja bílinn minn í gang skal ég gjarnan flauta fyrir yður á meðan.“