Fara í efni
Menning

Ásta og Kata upp úr skúffunni

Hildur Loftsdóttir, blaðamaður og rithöfundur frá Akureyri.

Hildur Loftsdóttir gaf á dögunum út barnabókina Hellirinn - blóð, vopn og fussumfei og er hún sjálfstætt framhald bókarinnar Eyðieyjan – urr, öskur fótur og fit sem kom út í fyrra. Þetta eru fyrstu barnabækur hennar. Í bókunum, sem ætlaðar eru börnum á aldrinum 8 til 13 ára, segir frá systrunum Ástu og Kötu sem lenda í ógnvænlegum ævintýrum í íslenskum sagnaheimum að undirlagi Jökuls afa síns.

Það er gaman að segja frá því að fyrirmynd afans í bókunum er byggð á föður Hildar, sem margir Akureyringar þekkja, en Hildur er dóttir Lofts Magnússonar augnlæknis og Hlínar Gunnarsdóttur. „Pabbi er mikill bókmenntaáhugamaður, en auk þess byggir fyrri bókin að miklu leyti á hluta lífs hans þegar hann bjó sem drengur við mikla fátækt í Hrappsey á Breiðafirði á seinnistríðsárunum.“

Svitasprey í hárið...

Hildur notfærir sér fleira úr fjölskyldunni í bækurnar. „Þegar ég var lítil fannst mér ótrúlega fyndið þegar foreldrar mínir voru á leið á leiksýningu í Samkomuhúsinu og mamma setti óvart svitasprey í hárið og hársprey undir hendurnar, svo þessi skemmtilega minning fékk sitt pláss í nýju bókinni. Aðalpersónurnar tvær, Ásta og Kata, heita síðan eftir tvíburadætrum Magnúsar Steins bróður míns, þótt karakterlega séð byggi þær eiginlega meira á mínum eigin dætrum, Oonu og Eyju.“

Hildur ólst upp í Hamragerðinu, og má segja að hún hafi hafið „ritferilinn“ í Lundarskóla. „Það sem ég man helst eftir var þegar við fengum að skrifa sögur í skólanum. Svo átti ég líka nokkrar stílabækur með frumsömdum ljóðum. Mikið væri nú gaman að finna þær aftur,” segir Hildur og hlær við tilhugsunina.

Í Gagganum hvatti Helgi Már Barðason íslenskukennari Hildi einatt til dáða á ritvellinum, en það var ekki fyrr en við handritakúrs í kvikmyndafræðinámi í Suður-Frakklandi að hún gerði sér fyrst grein fyrir hversu gefandi skrifin eru. „Þar gerðist ég skúffuskáld par excellence. Skrifaði hjá mér hugmyndir í gríð og erg, byrjaði á bók, byrjaði á handriti, en allt lenti óðum aftur í skúffunni.“

Frábær skóli á Mogganum

Hildur hóf störf við Morgunblaðið árið 1997 og starfaði þar til 2008, þegar hún fluttist til Bandaríkjanna með þáverandi eiginmanni sínum og dætrunum tveimur. „Það, að hafa fengið vinnu á Mogganum, finnst mér vera ein mesta gæfa mín í lífinu. Þar starfar alveg ótrúlega gott fólk að mínu mati, fagmenn fram í fingurgóma og vinnustaðamenningin bæði falleg og einkennist af virðingu. Ég var þar á mjög góðum tíma, þegar Mogginn var í lítilli samkeppni við aðra miðla og lítið um niðurskurð. Það var ómetanleg lífsreynsla að fá að starfa undir ritstjórn Styrmis Gunnarssonar og Matthíasar Johannessen. Ljóðskáldið Matthías var nú ekkert sérlega hrifinn af mínum skrifum, fannst ég heldur óstýrilát og galgopaleg!“ segir Hildur og hlær, „en það að fá að vinna við skriftir öll þessi ár við öguð vinnubrögð og þar sem vönduð íslenska var í hávegum höfð var algerlega frábær skóli.“

Heim til Akureyrar

Samhliða Morgunblaðsstarfinu fór Hildur í nám við HÍ í bókmenntafræði og ritlist. „Þar tók ég nokkra áfanga í þjóðfræði, þar sem ég lærði um sagnamennsku og íslensk ævintýri. Ég var alveg heilluð upp úr skónum, og það var þá sem uppköst af sögunum um Ástu og Kötu fóru að hrúgast upp í skúffunni góðu þar sem þau máttu dúsa í nokkur ár.“

Árið 2014 kom Hildur heim frá Bandaríkjunum í hálft ár og dvaldi þann tíma með dætrunum á Akureyri. „Mér fannst að Oona mín og Eyja þyrftu að ná betri tökum á íslenskunni, svo þær voru sendar í Lundarskóla og í Barnakór Akureyrarkirkju. Sjálf fór ég í Kórinn þar sem á þeim tíma var undir stjórn snillingsins Eyþórs Inga, og ég tók þátt í mögnuðum tónleikum. Allt starf í Akureyrarkirkju fannst mér algerlega til fyrirmyndar – ekki síst miðað við það sem ég hafði kynnst í kaþólsku kirkjunni í Bandaríkjunum – og það var virkilega gaman að taka þátt í því.“

Langaði að leggja mitt af mörkum

Hildur notaði einnig tækifærið og skráði sig í menntunarfræði við Háskólann á Akureyri. „Þar fór ég m.a. á námskeið í íslenskukennslu og barnabókmenntum hjá Brynhildi Þórarinsdóttur, en einnig á námskeið um læsi og mikilvægi þess hjá Guðmundi Engilbertssyni. Það var þá sem ég ákvað að Kata og Ásta fengju ekki að búa lengur í skúffunni. Mig langaði að leggja mitt af mörkum til að auka áhuga barna á lestri og úrval íslenskra barnabóka. Bóka sem hægt væri að spegla sig í; íslensk börn í íslensku samfélagi og menningarheimi. Við fjölluðum um að börn kjósa að lesa bækur sem eru húmorískar og spennandi og þar sem auðvelt er að tengja við aðalsöguhetjurnar. Ég einsetti mér að fylgja þeirri forskrift, en mér var einnig umhugað um að hafa bækurnar á einföldu máli, svo þeim sem eiga erfiðar með lestur, eða eiga jafnvel foreldra af erlendum uppruna, fallist ekki hendur og gefist upp í fyrsta kafla. Það skiptir gríðarlega miklu máli að öll börn geti fundið lesefni við sitt hæfi.”

Geggjuð sala á Akureyri!

Í fyrra gekk sala Eyðieyjunnar mjög vel og Hildur vill ekki síst þakka það Akureyringum. „Ég kom norður í lok nóvember. Við héldum útgáfuboð í Eymundsson, ég las upp í nokkrum grunnskólum og var einnig með á jólamarkaðinum í Sigluvík, hjá menntaskólasystur minni Kristínu S. Bjarnadóttur, þeirri mætu konu. Það seldist svo mikið á markaðnum að við þurfum að fá fleiri bækur sendar að sunnan, auk þess að fá lánaðan allan lagerinn í Eymundsson! Það var geggjað.“

Hildur er hvergi nærri hætt. „Já, það kemur alla vega ein bók í viðbót út um Ástu, Kötu og afa Jökul, ef ekki fleiri,“ svarar hún aðspurð. „Næsta ævintýri þessara hressu systra er byrjað að malla í kollinum á mér, en ég nenni ekki að líta á það fyrr en eftir jól. Nú á bara að njóta.“