Fara í efni
Menning

Arngrímur einleikari á Morse-tæki með SN!

Arngrimur Jóhannsson, Jón Hlöðver Áskelsson og Bjarni Frímann Bjarnason.

Áhugavert tónverk verður frumflutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Hofi 13. febrúar næstkomandi; SOS sinfónía sem Jón Hlöðver Áskelsson hefur samið. Alltaf er ánægjulegt þegar nýtt verk akureyrsks tónskálds er frumflutt en ekki vekur síður athygli sú staðreynd að í þessu verki Jóns stígur Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri, á svið og leikur einleik með sinfóníuhljómsveitinni – á Morse-tæki!

Morse skildi oft að líf og dauða

„Haustið 2017 varð ég fyrir sterkum áhrifum á Norðurslóðasetrinu á Akureyri, er Arngrímur Jóhannsson, loftskeytamaður, flugmaður, forstöðumaður og eigandi safnsins, „morsaði“ á gamalt morstæki úr síðutogaranum Harðbak frá 1959, fyrir mig setninguna „ljósið skín í myrkrinu“ og SOS. Morstónfallið vakti upp hugmyndir og hugrenningatengsl. Morshljóð sem oft skildu að ljós og myrkur, líf og dauða, tengjast bæði sorg og gleði,“ segir Jón Hlöðver Áskelsson og bætir við: „Svo er mér sýndur sérstakur heiður með því að mitt stóra hljómsveitarverk skuli frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands undir stjórn hins frábæra unga hljómsveitastjóra Bjarna Frímann.“

Morse-ið í öndvegi

„Heitið vísar á táknin í Morsinu, alþjóðlegt kall um björgun. Sinfónían á bæði að vísa áheyrendum sínum veginn úr myrkri í ljós, eða björgun úr lífsháska í öruggt líf. Morse-tungumálið hefur bjargað þúsundum, jafnvel milljónum manna, úr lífsháska, Morsið verður þarna haft í öndvegi,“ segir tónskáldið, Jón Hlöðver, á Facebook síðu sinni þar sem hann fagnar því að plakatið, sem sjá má hér að neðan, var komið úr prentun og  endanleg dagsetning því ákveðin. Til stóð að frumflytja verkið í fyrra, þegar Jón varð 75 ára og Arngrímur áttræður en nú verður loks af því.

SOS og Örlagasinfónían

„SOS sinfónían er lof um sögu tungumáls þessa, sem hefur nú næstum alveg vikið fyrir annarri tækni. Enn gefst okkur samt kostur á að kynnast stórkostlegum flutningi snillinga í að tala tungumálið í stuttum og lengri táknum af ótrúlegum hraða og öryggi,“ segir Jón Hlöðver. „Að þessu sinni er það Arngrímur Jóhannsson, loftskeytamaður og flugstjóri sem „morsar“ textann sem sinfónían byggir á og verður textanum varpað upp á skjá eða tjald, þar sem Arngrímur leikur listilega og af ótrúlegri færni á morstæki sitt.“

Sinfónía Jóns Hlöðvers tekur um 40 mínútur í flutningi en eftir hlé að honum loknum leikur sinfóníuhljómsveitin 5. sinfóníu Ludwigs van Beethoven, Örlagasinfóníuna. Á síðasta ári voru að auki 250 ár frá fæðingu Beethovens.

Bjarni Frímann Bjarnason verður stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á tónleikunum.

  • UPPFÆRT - vegna Covid heimsfaraldursins var tónleikunum frestað til 22. maí.