Arctic ópera heiðrar norðlensk tónskáld
Michael Jón Clarke og hans fólk í Arctic óperu halda afar áhugaverða tónleika í Hofi á sunnudaginn, þar sem flutt verða sönglög norðlenskra tónskálda.
Mörg tónskáldanna eru vel kunn en eina konan í þeirra hópi vekur án efa athygli; hún var mjög þekkt listakona á sinni tíð en einkum á allt öðru sviði en tónlist: Elísabet heitin Geirmundsdóttir, jafnan kölluð Listakonan í Fjörunni, var þekktust fyrir höggmyndalist, auk þess sem hún málaði og teiknaði. Eins og nú kemur berlega í ljós – en var ekki á allra vitorði – var hún líka tónskáld.
Helstu perlurnar
„Arctic ópera er hópur listamanna sem samanstendur af klassískt menntuðu fólki í óperusöng og hljóðfæraleik. Hópurinn mun taka fyrir allar helstu perlur Eyjafjarðar og nágrennis sem hafa glatt okkur í gegnum árin og fyllt okkur stolti að vera partur af sögu Eyjafjarðar,“ segir í kynningu á tónleikunum.
Áskell Snorrason - Elísabet Geirmundsdóttir - Jóhann Ó. Haraldsson
Tónleikarnir – Tónar norðursins – verða í Hömrum í Hofi sunnudaginn 10. nóvember og hefjast kl. 17.00.
Eftirtalin tónskáld sömdu lögin sem flutt verða á tónleikunum:
- Áskell Snorrason
- Elísabet Geirmundsdóttir
- Jóhann Ó. Haraldsson
- Stefán Ágúst Kristjánsson
- Áskell Jónsson
- Björgvin Guðmundsson
- Birgir Helgason
- Jón Hlöðver Askelsson
- Eiríkur Bóasson
- Daníel Þorsteinsson
- Michael Jón Clarke
Michael Jón Clarke
Risto Laur leikur á píanó á tónleikunum en söngvararnir eru þessir:
- Gísli Rúnar Víðisson
- Guðrún Ösp Sævarsdóttir
- Margrét Árnadóttir
- Michael Jón Clarke
- Reynir Gunnarsson
- Rósa María Stefánsdóttir
- Tiiu Laur
Áskell Jónsson - Björgvin Guðmundsson - Stefán Ágúst Kristjánsson
Kynnir tónskáldin
Áskell Snorrason er elstur tónskáldanna, fæddur 1888. Hann var einn stofnenda Karlakórs Akureyrar árið 1929 og fyrsti stjórnandi hans.
Sum tónskáldin gáfu út óhemju mikið af sönglögum en önnur lítið eða ekkert. Þau eru misjafnlega vel þekkt og mun Michael Clarke kynna þau öll á tónleikunum.
Mikið er til af gullfallegum lögum af ýmsu tagi eftir umrædd tónskáld, segir Michael, og mjög fallegar útsetningar. Sum þeirra hafi skrifað mjög góðan píanóundirleik og nefnir hann sérstaklega Áskel Snorrason og Birgi Helgason. „Þeir skrifuðu báðir af mikilli leikni. Það er miklu erfiðara að skrifa fyrir píanó en önnur hljóðfæri en þeir bjuggu yfir ótrúlegri tækni,“ segir Michael Jón Clarke við Akureyri.net.
Daníel Þorsteinsson - Eiríkur Bóasson - Birgir Helgason - Jón Hlöðver Áskelsson
Gaman er að heyra Michael segja frá glímunni við lög Elísabetar, Listakonunnar í Fjörunni. Lög hennar hafa verið flutt áður en hafa ekki verið gefin út á nótum. Þá var einungis til ein útsetning á lagi eftir hana, segir Michael; útsetning fyrir kór sem Áskell Snorrason gerði.
„Elísabet kunni ekki að skrifa nótur en hún kunni lögin og fékk Birgi Helgason til þess að skrifa þau niður,“ segir hann.
„Það er eins og Elísabet hafi verið í heimsókn hjá mér; ég hef verið hálf andsetinn af þessum lögum, sérstaklega laginu Hafdjúp,“ segir Michael Jón Clarke. „Beta lét mig ekki í friði hvorki vakandi né sofandi fyrir en ég hafði gert epískan undirleik við það lag og tvö önnur!“
- Meira um Elísabetu Geirmundsdóttur og Michael Clarke seinna í dag.