Fara í efni
Menning

Allt að verða klárt fyrir Eina með öllu

Frá Einni með öllu í fyrra. Ljósmynd: Hilmar Friðjónsson

Undirbúningur undir hátíðina Eina með öllu á Akureyri er nú í lokametrunum. Hátíðin, sem stendur yfir dagana 1.-4. ágúst, verður með hefðbundnu sniði eins og undanfarin ár, en þó eru smávægilegar breytingar.

Mömmur og möffins á Ráðhústorgi

Að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar, eins af vinum Akureyrar sem halda utan um dagskrána, er hátíðin aldrei alveg eins á milli ára. Hver einasta verslunarmannahelgi er ólík og alltaf einhverjar nýjungar þó fastir liðir haldi sér. Að hans sögn er helsta breytingin í ár sú að á laugardeginum flyst hinn geysivinsæli viðburður Mömmur og möffins úr Lystigarðinum og niður á Ráðhústorg. Þetta er vegna þessa að Mömmur og möffins hafa stækkað mikið og svo er líka gaman að fá meira líf á Ráðhústorgið.

Davíð Rúnar segir dagskrána í miðbænum á laugardeginum alla verða meiri að umfangi en í fyrra. „Það verður mikið líf á laugardeginum í kringum Ráðhústorgið. Fyrir utan Vamos verður skrokkur heilgrillaður. Steps dansstúdíó mætir með dansatriði og Húlladúllan verður á svæðinu, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Davíð en við þetta má t.d. bæta markaðsstemmingu, krakkaballi og þá koma hlauparar úr Súlur Vertical í mark í miðbænum frá hádegi.

Veðurspáin ágæt

En það er ekki bara laugardagurinn sem er stækka því að sögn Davíðs er Skógardagur Skógræktarfélags Eyfirðinga á sunnudeginum með enn veglegri dagskrá en áður.

Sparitónleikarnir á sunnudagskvöldinu eru svo á sínum stað en þar stíga á svið bæði stórstjörnur og norðlenskt tónlistarfólk: Herra Hnetusmjör, Prettyboitjokko, Kristmundur Axel, Stjórnin, Páll Óskar, Saint Pete, Drottningar, Hljómsveitin 7.9.13 og Birna Karen. „Dagskráin er klár og nú er bara að biðja til Guðs um gott veður,“ segir Davíð sem hefur aðeins verið að rýna í norsku spána. „Akkúrat núna er spáð 17-20 gráðum á laugardag og sunnudag, jafnvel sól á sunnudag, en þetta getur allt breyst.“ Hann ítrekar að hvernig sem veðrið verður þá verður hátíðin haldin eins og fyrri ár og dagskráin er bæði mikil og fjölbreytt eins og sjá má inn á heimasíðunni einmeðollu.is.

  • Akureyri.net mun segja nánar frá dagskrá hvers dags á meðan á hátíðinni stendur.