Fara í efni
Menning

Aldrei of snemmt að komast í jólaskap

Fólk er farið að tryggja sér miða á aðventutónleika í Hofi þó enn sé langt í jólin. Friðrik Ómar, Jógvan Hansen og Eyþór Ingi mynda Vitringana þrjá en sala á tónleikana þeirra fór af stað með látum fyrir helgi.

Fyrstu jólatónleikarnir í Hofi fóru í sölu fyrir helgi og ruku miðarnir út. Margir Norðlendingar eru nú þegar farnir að hugsa til aðventunnar, skipuleggja sig snemma og láta sig hlakka til góðrar skemmtunnar í desember, að sögn Önnu Hebu Hreiðarsdóttur, miðasölustjóra Menningarfélags Akureyrar.

Vitringarnir 3 í staðinn fyrir Heima um jólin

Mörgum aðdáendum norðlenska söngvarans Friðriks Ómars brá í brún þegar hann sagðist vera hættur með sína árlegu og geysivinsælu jólatónleika Heima um jólin sem haldnir hafa verið í Hofi undanfarin 8 ár á aðventunni. Ný jólasýning með söngvaranum, Vitringarnir 3, hefur hins vegar fengið góðar móttökur og seldust miðar strax upp á fyrstu sýningarnar í Hofi. Í sýningunni sameina Friðrik Ómar, Jógvan Hansen og Eyþór Ingi krafta sína og lofa gríni, grúvi og gæsahúð. Þeim til halds og traust eru einnig þrjár meyjar þær Salka Sól, Regína Ósk og Selma Björnsdóttir.

Tryggja sér miða snemma

Að sögn Önnu Hebu Hreiðarsdóttur, miðasölustjóra MAK, er greinilegt að Friðrik Ómar á sér afar tryggan aðdáendahóp fyrir norðan. Þegar almenn miðasala hófst á fimmtudagsmorgunn var hópur fólks mættur niður í Hof til þess að tryggja sér miða. Fyrsta daginn sem tónleikarnir voru í sölu var strax bætt við tveimur sýningum svo samtals verða Vitringarnir 3 með sex tónleika í Hofi. „Miðasalan fór af stað með látum, og með enn meiri látum í forsölu sem þeir eru með á sínum miðlum. Forsalan byrjaði viku fyrr núna og hún stækkar líka ár frá ári, þannig að fólk er að tryggja sér miða í tíma í forsölu.“

Desember er stærsti tónleikamánuður ársins á Íslandi og markaðurinn hefur verið að breytast í meiri skemmtun fyrir fólk en að sitja einungis undir röð af jólalögum í flutningi fjölda söngvara.

Gleði og gaman á nýjum tónleikum

„Frá árinu 2015 hef ég byggt upp Heima um jólin jafnt og þétt með fjölda gesta. Verkefnið þróaðist síðan eiginlega í hálfgerðan sjónvarpsþátt. Gestirnir mínir tylltu sér í sófann hjá mér og það var mjög skemmtilegt form að vinna með. Gestir í sal fengu því að kynnast okkur og margir höfðu á orði að það væri í raun einkenni viðburðarins og af því leiti skárum við okkur úr. Síðan eins og með alla viðburði þá hafa þeir sinn tíma. Við búum á litlu landi og ég gaf mér það að nú væri lag að koma með eitthvað nýtt, búa til nýtt verkefni með nýjum áherslum,“ segir Friðrik Ómar spurður að því hvers vegna hann ákvað að skipta um gír og hætta með Heima um jólin.

„Desember er stærsti tónleikamánuður ársins á Íslandi og markaðurinn hefur verið að breytast í meiri skemmtun fyrir fólk en að sitja einungis undir röð af jólalögum í flutningi fjölda söngvara. Við erum búin að sjá það í 15-20 ár og það er alveg hægt að færa rök fyrir því að það sé orðið þreytt. Vitringarnir er guðdómleg blanda af þessu öllu en fyrst og fremst eru það við Eyþór og Jógvan sem höfum gaman af að skapa eitthvað saman og skemmta fólki. Þetta er ekki flókið. Engin tilgerð. Við erum að þessu því við höfum gaman að þessu og ég held að fólk sjái það. Ég vona það allavega,“ segir Friðrik Ómar.

Það verður annars af nógu að taka um aðventuna í Hofi. Bubbi verður þar með sína árlegu Þorláksmessutónleika, Ari Eldjárn kemur með áramótaskopið sitt og Jónína Björt er þriðja árið með Jólaljós og lopasokka. „Svo var verið að endurvekja Frostrósarþemað og Margrét Eir og Hera Björk koma til okkar fyrir jólin, en þær voru í Hörpu í fyrra.  Þeir tónleikar fara í sölu í næstu viku. Desember er því orðinn nokkuð þéttur hjá okkur en mögulega bætist fleira við,“ segir Anna Heba hjá MAK.