Fara í efni
Menning

Aldarfjórðungsafmæli SÍMEY fagnað í vor

SÍMEY hefur lengi átt í góðu samstarfi við VMA, bæði hvað varðar námskeið í málmsuðu og FabLab stafrænni smiðju. Hér leiðbeinir Kristján Kristinsson, málmiðnkennari í VMA, einum af nemendum á námskeiði í málmsuðu.

Á þessu ári fagnar Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) 25 ára afmæli sínu. Tímamótanna verður minnst í tengslum við ársfund miðstöðvarinnar 22. maí nk.

Að SÍMEY standa stéttarfélög, menntastofnanir, sveitarfélög og atvinnurekendur á Eyjafjarðarsvæðinu og eru starfsmenn nú 10 í 8 stöðugildum. SÍMEY er til húsa að Þórsstíg 4 á Akureyri þar sem eru skrifstofur, kennslustofur, afgreiðsla, eldhús og kaffitorg. SÍMEY er einnig með starfsstöð á Dalvík. Þá hefur SÍMEY lengi verið í samstarfi við Verkmenntaskólann á Akureyri um leigu á aðstöðu er snýr að kennslu í málmsuðu og Fab-Lab stafrænni smiðju.

Mikilvægur þáttur í starfi SÍMEY er íslensku- og samfélagskennsla fyrir fólk af erlendum uppruna. Hér eru nokkrir nemendur á einu af nokkrum íslenskunámskeiðum sem nú eru í gangi í SÍMEY.

Stendur styrkum fótum

„Mér finnst SÍMEY standa á styrkum fótum á 25 ára afmælisári. Það er ekkert launungarmál að Covid-faraldurinn hjó töluvert í okkar starfsemi, hann reyndi á okkur öll sem hér störfum og starfsemina alla. En mér finnst núna, þegar um fimm ár eru liðin frá því að faraldurinn skall á hér á landi, að við séum að ná vopnum okkar og fyrri styrk. En það er eðli framhaldsfræðslunnar að hún tekur stöðugum breytingum í takt við þjóðfélagsbreytingarnar á hverjum tíma,“ segir Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY síðan 2016. 

„Eftir fimm ár hafa örugglega orðið miklar breytingar á mörgum sviðum samfélagsins og starfsemi okkar mun taka mið af þeim. Við þurfum á hverjum tíma að velta fyrir okkur þeirri spurningu inn í hvaða framtíð við erum að fara og fyrir hvað við eigum að standa og leggja áherslu á. Helst þurfum við alltaf að vera á undan breytingunum, að vera tilbúin til þess að takast á við breytingarnar þegar þær síðan skella á,“ segir Valgeir.

Áður höfðu þrjár konur verið framkvæmdastjórar SÍMEY, fyrst Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, þá Soffía Gísladóttir og loks Erla Björg Guðmundsdóttir.

Frá stofnun SÍMEY fyrir aldarfjórðungi hefur miðstöðin haft að leiðarljósi að efla framhaldsfræðslu í Eyjafirði og auka samstarf atvinnulífs og skóla til að styðja sem best við samkeppnishæfni atvinnulífsins á svæðinu.

Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY.

Í stjórn SÍMEY frá stofnun

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar – stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, tók á sínum tíma þátt í stofnun SÍMEY og hefur setið í stjórn frá upphafi, þar af sem stjórnarformaður frá 2003. Fyrsti stjórnarformaðurinn var Baldur Dýrfjörð.

Fyrsta símenntunarmiðstöð landsins var Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, stofnuð í desember 1997. Reynslan af þessari fyrstu símenntunarmiðstöð var það jákvæð að í kjölfarið var farið að huga að stofnun sambærilegra fræðslumiðstöðva um allt land, þar á meðal í Eyjafirði, þar sem lögð yrði áhersla á fullorðinsfræðslu og markmiðið yrði að símenntun væri hugtak yfir ævimenntun fólks, formlega sem óformlega.

Fyrstu tvö árin bjó SÍMEY við nokkuð þröngan húsnæðiskost í Glerárgötu 36 á Akureyri. Einn af þeim kostum sem voru skoðaðir til þess að bæta úr húsnæðismálunum var að koma SÍMEY fyrir í Amtsbókasafninu á Akureyri, enda gætu verið í því fólgin töluverð samlegðaráhrif. Þessar hugrenningar komu upp í tengslum við stækkun Amtsbókasafnsins en fyrsta skóflustungan að viðbyggingunni var tekin 1. júní 2001 og hún var síðan tekin í notkun 5. mars 2004. En þessar bollaleggingar um framtíðarhúsnæðislausn fyrir SÍMEY leiddu ekki til niðurstöðu og því hélt húsnæðisleitin áfram. Úr varð að SÍMEY flutti starfsemi sína árið 2003 á efri hæð Þórsstígs 4, þar sem Rafveita Akureyrar var áður til húsa. Af þessu tilefni var DV með viðtal við Katrínu Dóru framkvæmdastjóra SÍMEY 21. ágúst 2003:

„Þetta húsnæði gefur okkur marga skemmtilega möguleika," segir Katrín Dóra Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri. Kunnasta námskeiðahald miðstöðarinnar er hinn svokallaði ÚA-skóli, sem nú heitir Lífsins skóli, en það nám er fyrir starfsmenn útgerðarsamsteypunnar Brims. Að sögn Katrínar reynir SÍMEY að standa að námskeiðahaldi þannig að það sé ekki í samkeppni við aðra. „Við reynum að bæta inn í þar sem á vantar," segir Katrín. Námskeið á vegum miðstöðvarinnar eru allt frá 10 klst. upp í 300 klst. Í bígerð hjá okkur er að setja upp skóla hjá Norðurmjólk, sem og að vinna meira að því sem kallað er fjölvirkjanám, en það er starfsnám fyrir sérhæfða en ófaglærða starfsmenn. „Þetta verkefni gafst mjög vel og ég vænti mikils af því í framtíðinni," segir Katrín.

Starfsemi SÍMEY jókst ár frá ári sem kallaði á aukið rými. Höldur hafði fest kaup á húsnæðinu og niðurstaðan var sú í samstarfi SÍMEY og Hölds að byggja við húsið í austur og þar með var búið að tryggja hentugt rými fyrir starfsemina, sem hefur síðan dugað SÍMEY vel.

Arna Jakobína Björnsdóttir hefur verið stjórnarformaður SÍMEY síðan 2003.

Menntasmiðja kvenna

Þegar SÍMEY var sett á stofn hafði Akureyrarbær rekið Menntasmiðju kvenna á Akureyri í sex ár. Hún var í upphafi hugsuð sem þróunarverkefni til þriggja ára með það að markmiði að skapa atvinnulausum konum nýjan grunn til að byggja á í lífi og starfi. Nám í Menntasmiðju kvenna var dagnám, kennt samkvæmt stundaskrá alla virka daga í 14-16 vikur og var lögð áhersla á bóknám, verknám og sjálfsstyrkingu. Verknám var að miklu leyti í samstarfi við tómstundamiðstöðina Punktinn.

Árið 1999 var nafni Menntasmiðju kvenna breytt í Menntasmiðjan á Akureyri, í samræmi við útvíkkun starfseminnar. Þá var farið að bjóða upp á námskeið í atvinnuleit, nýliðanámskeið fyrir starfsfólk Akureyrarbæjar, starfslokanámskeið, dagmæðranámskeið og fleira. Árið 2002 byrjaði Menntasmiðjan með Menntasmiðju unga fólksins en það var nám í svipuðum stíl og Menntasmiðja kvenna, ætlað atvinnulausu fólki á aldrinum 17-25 ára. Árið 2008 tók Starfsendurhæfing Norðurlands yfir rekstur Menntasmiðjunnar með starfssamningi við Akureyrarbæ.

Myndlistarkennararnir Guðmundur Ármann Sigurjónsson og Billa – Bryndís Arnardóttir kenndu saman til fjölda ára í SÍMEY myndlist á námsbraut sem heitir Fræðsla í formi og lit. Billa lést árið 2022. Hér eru Guðmundur Ármann og Billa með nemendum sínum við brautskráningu vorið 2021.

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hafði breiðari grunn en Menntasmiðjan, því að stofnun hennar komu aðilar vinnumarkaðarins og Akureyrarbær. Smám saman færðust ýmis verkefni sem Menntasmiðjan hafði á sinni könnu yfir til SÍMEY.

Breytingar í takt við breytt samfélag

Valgeir B. Magnússon kom til starfa hjá SÍMEY árið 2006 sem náms- og starfsráðgjafi. Hann rifjar upp að á þessum tíma hafi Fræðslumiðstöð atvinnulífsins verið sett á stofn og það hafi breytt starfsemi símenntunargeirans í landinu umtalsvert. Starfið hafi á allan hátt orðið markvissara og bólgnað út, ekki síst þegar var farið að bjóða upp á vottaðar námsleiðir. Meðal þess sem Valgeir kom að var verkefnið Námshvatning á vinnustað og að bjóða upp á náms- og starfsráðgjöf um allt land í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og símenntunarmiðstöðvarnar.

„SÍMEY hefur alltaf lagt mikla áherslu á sterk tengsl við atvinnulífið hér á starfssvæðinu og það hefur verið okkur afar mikilvægt. Ég held að til starfs okkar í SÍMEY sé litið mjög jákvæðum augum en þó er oft erfitt að átta sig á hvort fólk viti fyrir hvað símenntunarstöðvarnar í landinu standa, hvað framhaldsfræðslan nákvæmlega er. Að einhverju leyti má líklega tengja það því að lagaramminn í kringum framhaldsfræðsluna þarf að vera töluvert skýrari. Núverandi lagarammi er frá 2010 og því löngu tímabært að uppfæra hann í takt við þær breytingar sem hafa orðið í samfélaginu,“ segir Valgeir.

Starfsemin í SÍMEY er afar fjölbreytt. Hér eru ungmenni í vinnuskóla Akureyrarbæjar að fá fræðslu í grunnatriðunum í skyndihjálp.

„Að breytingum á lagaumgjörðinni var unnið fyrir um tveimur árum en með breyttri skipan ráðuneyta og ráðherraskiptum náðist ekki að ljúka þeirri vinnu, sem var mjög miður. Staðreyndin er sú að markhóparnir sem við erum að vinna með í SÍMEY og öðrum símenntunarmiðstöðvum hafa breyst töluvert á síðustu árum en við reynum að sinna þeim eins vel og okkur er unnt. Hins vegar tel ég að við gætum gert enn betur ef við hefðum styrkari grunnfjármögnun í okkar starfsemi og lagasetningin væri skýrari. Og oft hefur mér fundist að símenntunargeirinn þyrfti aðeins meiri meðbyr stjórnvalda. Tilfinningin er sú að við gleymumst svolítið,“ sagði Valgeir og bætti við að á síðustu misserum hafi einn af þeim þáttum sem SÍMEY leggur mikla áherslu á verið fjölmenningin.

Hann heldur áfram: „Símenntunarmiðstöðvarnar – SÍMEY þar með talin – eru að mínu mati að sinna fólki af erlendum uppruna mjög vel með fjölþættri íslenskukennslu og samfélagsfræðslu miðað við þær fjárveitingar sem eru í boði en við reynum eins og kostur er að sveigja verkefnin að þessum hópi eins og hægt er.“

Valgeir telur að í gegnum tíðina hafi styrkur SÍMEY ekki síst legið í því að hröðum breytingum í samfélaginu hafi verið mætt mjög vel. „Í kjölfar efnahagshrunsins, þegar atvinnuleysi jókst skyndilega hratt í samfélaginu, brugðumst við fljótt við með ýmsum hætti, m.a. í samstarfi við Vinnumálastofnun, og í heimsfaraldri Covid 19 þurftum við líka að hafa hraðar hendur til þess að bregðast við breyttum aðstæðum. Við höfum því verið fljót að laga okkur að breyttum aðstæðum og það tel ég einn af okkar styrkleikum,“ segir Valgeir og bætir við að lykilatriði hafi verið öflugur og lausnamiðaður starfsmannahópur. Einn af mikilvægum þáttum í góðu og farsælu starfi SÍMEY í gegnum tíðina hafi einmitt verið mikill mannauður, bæði fastráðnir starfsmenn og verktakar.“

Við brautskráningu í SÍMEY vorið 2022.

Ein af stærstu símenntunarmiðstöðvunum

Innan Símenntar – samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva eru ellefu símenntunarmiðstöðvar og er SÍMEY ein af þeim stærstu. Það segir sína sögu um hversu víðfeðm starfsemin er að á árinu 2004 fóru sem næst þrjú þúsund manns í gegnum nám af ýmsum toga í SÍMEY. Til viðbótar sækja fjölmargir náms- og starfsráðgjöf til SÍMEY og á ári hverju fara þar nokkrir tugir í gegnum raunfærnimat.

Sem fyrr segir eru nú 10 fastráðnir starfsmenn í SÍMEY en auk þeirra eru um 140 verktakar, flestir í kennslu á námskeiðum og lengri vottuðum námsleiðum. Það segir sína sögu að á síðasta ári hélt SÍMEY 39 námskeið í íslensku sem öðru tungumáli á Akureyri, Dalvík og í Fjallabyggð. Auk þess voru haldin 15 fjarnámskeið í íslensku sem öðru máli. Þetta er til marks um víðtæka þjónustu miðstöðvarinnar, þó ekki bara íslenskukennslu, við fólk af erlendum uppruna.

Raunfærnimat er mikilvægur liður í starfsemi SÍMEY. Hér eru nokkrir starfsmenn íþróttamannvirkja og á Eyjafjarðarsvæðinu sem fóru í gegnum raunfærnimat árið 2022 – og með þeim starfsmenn SÍMEY.

Hefur mikilvægu hlutverki að gegna

„Stóra breytingin í starfsemi SÍMEY á þessum 25 árum er án efa lög um framhaldsfræðslu og tilkoma Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Fræðslusjóðs. Þar með var unnt að útvíkka starfsemina verulega. Einn af fjölmörgum mikilvægum þáttum í starfseminni er raunfærnimatið sem veitir fullorðnu fólki sem hefur mikla starfsreynslu möguleika á því að fá hana metna á móti formlegu námi eða kröfum atvinnulífsins. Þetta finnst mér skipta gríðarlega miklu máli og þessum möguleika fólks er aldrei haldið nógu ríkulega á lofti,“ segir Arna Jakobína Björnsdóttir, stjórnarformaður SÍMEY.

„Eftir sem áður gegnir SÍMEY mikilvægu hlutverki í fullorðinsfræðslu á starfssvæðinu en ekki síður hefur miðstöðin í auknum mæli komið til móts við óskir yngra fólks um fræðslu. Staðreyndin er sú að sumir af yngri kynslóðinni ná ekki fótfestu í námi í framhaldsskólunum en kennslufyrirkomulag, þjónusta og umhverfið í SÍMEY hentar þeim betur. SÍMEY og aðrar símenntunarmiðstöðvarnar hafa mikilvægu hlutverki að gegna hér eftir sem hingað til fyrir þennan hóp,“ sagði Arna Jakobína.

„Þá má ekki gleyma hlut SÍMEY í fræðslu fyrir nýbúa, hvort sem eru íslenskunámskeið eða samfélagsfræðsla af ýmsum toga, sem hefur skilað mjög góðum árangri. Og ekki má gleyma því að SÍMEY hefur þeirri ríku skyldu að gegna að styrkja fólk á vinnumarkaði sem tekur sífelldum breytingum og því þarf það stöðugt að uppfæra þekkingu sína til þess að halda starfi og styrkja sig á vinnumarkaðnum. SÍMEY hefur ávallt haft að leiðarljósi að vera í góðu samstarfi við atvinnulífið á svæðinu og staðið fyrir margháttaðri fræðslu.“

Fræðsla á tímum gervigreindar

Samfélagið er á fleygiferð. Tækni gærdagsins er úrelt á morgun. Valgeir framkvæmdastjóri SÍMEY segir að þar á bæ sé gervigreindin farin að banka á dyrnar, eins og almennt í samfélaginu. En eftir sem áður haldi staðbundinn námsvettvangur velli enda komi gervigreindin aldrei í stað þess að fólk komi saman, eigi hina persónulegu samveru og miðli upplýsingum sín á milli. Hin klassíska leið til fræðslu og samræðu kennara og nemenda sé og verði hér eftir sem hingað til mikilvægur þáttur í að vinna gegn upplýsingaóreiðu og hjálpa fólki að greina á milli réttra upplýsinga og rangra.