Fara í efni
Menning

Akureyri „hefir jafnan verið syngjandi bær“

Karlakórinn Geysir á Alþingishátíðinni 1930 á Þingvöllum. Þar sungu Geysismenn sem hluti Landskórsins, 150 manna karlakórs sem skipaður var söngmönnum úr hinu nýstofnaða Sambandi íslenskra karlakóra; úr Karlakór Reykja víkur, Karlakór Ísafjarðar, Söngfélagi stúdenta, Karlakór KFUM og Karlakórnum Vísi frá Siglufirði. Jón Halldórsson, þáverandi ríkisféhirðir, stjórnaði. Geysir var annar tveggja kóra sem einnig söng einn og sér og Ingimundur Árnason stjórnaði þeim söng. Hinn var Karlakór Ísafjarðar. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri

Karlakór Akureyrar – Geysir fagnar 100 ára samfelldu karlakórastarfi á Akureyri með tónleikum í menningarhúsinu Hofi í dag, laugardag, klukkan 16.00.

KAG býður upp á fjölbreytt efnisval á afmælistónleikunum, sem um leið spannar lengra tímabil í karlakórasöng þótt ekki sé alveg einfalt að túlka 100 ára tímabil í hefðbundinni dagskrá, segir í tilkynningu. Einsöngvarar á tónleikunum eru tenórarnir Þorkell Pálsson og Magnús Hilmar Felixson. Stjórnandi kórsins er Valmar Väljaots.

Syngjandi bær ...

Akureyri varð snemma mikill kórabær og það sem skipti sköpum í upphafi var starf Magnúsar Einarssonar, Magnúsar organista, eins og hann var alltaf kallaður. Hann stofnaði fyrsta félagskórinn á Akureyri, einnig fyrstu lúðrasveitina og stjórnaði báðum. Kunnastur sönghópa Magnúar er karlakórinn Hekla, sem hann stofnaði og stjórnaði, og fyrstur íslenskra kóra fór utan í söngför, til Noregs árið 1905. Snorri Sigfússon, einn Heklunga (eins og söngmenn Heklu voru kallaðir), sagði í þriðja bindi æviminninga sinna 1972 að Akureyri „hefir jafnan verið syngjandi bær, og verður vonandi áfram.“

Sú von Snorra rættist svo sannarlega. Um miðja öldina nefndu gárungarnir Akureyri stundum Gaulverjabæ, vegna þess hve söngur var útbreiddur og kórastarf öflugt. Snorri var ráðinn kennari við Barnaskóla Akureyrar árið 1929 og skólastjóri ári síðar.

Geysismenn skemmta Akureyringum með söng á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1923, árið eftir stofnun kórsins. Söngvararnir eru 16 talsins og stjórnandinn Ingimundur Árnason. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri 

„Þegar ég hugsa til þessara ára við Akureyrarskólann, þykir mér sem hann hafi verið syngjandi skóli. Á hverjum morgni hljómaði söngur úr hverri kennslustofu. Þá var sungið morgunvers, og síðan stundum í kennslustund, þegar svo bar undir, og eiginlega hvenær sem tækifæri gafst. Þá var engin skólasöngbók til handa börnunum, svo að við létum fjölrita 77 vers og ljóð, sem skólinn notaði og börnin lærðu að mestu og sungu,“ segir Snorri, sem stjórnaði Barnaskóla Akureyrar allt til ársins 1947, í æviminningum sínum.

Blómlegt starf í áratugi

Karlakórinn Geysir var stofnaður 1922 og Karlakór Akureyrar nokkrum árum síðar. Báðir störfuðu kórarnir með miklum myndarbrag í áratugi, settu svip á bæjarlífið og sungu víða um land, en snemma á níunda áratug síðustu aldar var farið að ræða um sameiningu kóranna og af henni varð eftir nokkurra ára umhugsun og umræður; Karlakór Akureyrar – Geysir, KAG, varð til haustið 1990.

Fyrsti stjórnandi hins sameinaða kórs var Roar Kvam en núverandi stjórnandi er Valmar Väljaots.

Óperusöngvarinn Kristján Jóhannsson syngur með Karlakór Akureyrar – Geysi á 90 ára afmælistónleikum kórsins í Hofi árið 2012. Stjórnandi er Hjörleifur Örn Jónsson, Risto Laur við hljóðfærið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson 

Það var 20. október 1922 að nokkrir söngmenn á Akureyri komu saman í þeim tilgangi að stofna söngfélag. Þorsteinn Þorsteinsson byggingameistari frá Skipalóni í Glæsibæjarhreppi – jafnan kallaður Þorsteinn frá Lóni – er talinn aðalhvatamaður að stofnun kórsins og var gjaldkeri fyrstu stjórnar. Með honum í stjórninni voru Einar J. Reynis, formaður, og Þorsteinn Thorlacius, ritari. Tillögu að nafninu átti hins vegar Magnús organisti. Á meðal stofnenda Geysis voru fyrrverandi félagar úr Heklu og var hugmynd einhverra í fyrstu að notast við gamla nafnið, en Magnús mun hafa lagst gegn því. Karlakór hafði ekki verið starfandi síðan Hekla lagði upp laupana nokkrum árum eftir söngför til Noregs 1905.

_ _ _

FYRSTA SÖNGSKRÁIN
Söngskrá fyrstu tónleika Karlakórsins Geysis. Hún er að vísu dagsett 17. desember 1922, en tónleikarnir voru kvöldið áður. Þarna má sjá lögin 12 sem kórinn söng. Fyrstu tvö á þessum fyrstu tónleikum voru eftir danska tónskáldið Christoph Ernst Friedrich Weyse. Upphafslagið, skv. söngskránni, var Nu ringer alle klokker, því næst söng kórinn Gud ske Tak og Lov og þriðja lagið og hið fyrsta íslenska var Hvar eru fuglar eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson (sem oftar virðist nefnt Vetur í seinni tíð), þá Jeg lít í anda eftir Sigvalda Kaldalóns og I Sachiernes Land eftir Weyse.

_ _ _

Eindregnir vinstri sinnar

Forgöngumaður að stofnun Karlakórs Akureyrar sumarið 1929 var Áskell Snorrason frá Þverá í Laxárdal í Suður Þingeyjarsýslu, sem lengi starfaði sem kennari á Akureyri. „Ekki er fjarri lagi að ætla, að einhver stéttarígur og bæjarmálapólitík hafi leitt til stofnunar kórsins. Í bænum var þá þegar starfandi Karlakórinn Geysir og var skipaður kaupfélagsmönnum og jafnframt mönnum á hægri væng stjórnmálanna,“ sagði séra Bolli Gústavsson frá löngu síðar, en faðir hans, Gústav B. Jónasson rafvirki, var einn stofnfélaga Karlakórs Akureyrar.

Karlakór Akureyrar á söngmóti Sambands íslenskra karlakóra í Reykjavík árið 1950. Söngstjórinn, Áskell Jónsson, er fimmti frá vinstri í fremstu röð. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri 

Áskell Snorrason var fyrsti formaður kórsins, gjaldkeri Aðalsteinn Þorsteinsson og ritari Þórir Jónsson. „Þeir félagar, Áskell Snorrason tónskáld og Skagfirðingurinn Þórir Jónsson málarameistari voru eindregnir vinstri sinnar í stjórnmálum og fengu þá köllun að safna saman mönnum á Oddeyrinni á sumarmánuðum árið 1929. Hélt kórinn fyrstu tónleika sína á aðventunni, 14. desember sama ár,“ sagði séra Bolli. Formlegur stofnfundur Karlakórs Akureyrar var haldinn 26. janúar Alþingishátíðarárið 1930. Þann dag, segir í fundargerðarbók, var fundur settur og haldinn „í söngfjelaginu Karlakór Akureyrar, og var mestur hluti fjelagsmanna mættur.“