Áhrifamikil sýning Karls í Listasafninu
Sýning á verkum Karls Guðmundssonar myndlistarmanns var opnuð í Listasafninu á Akureyri á laugardaginn, ein þriggja sýninga þann dag. Lífslínur er fyrsta einkasýning hans í safninu en hann hefur sýnt víða síðustu tvo áratugi.
Karl, sem er mál- og hreyfihamlaður, hóf nám í Myndlistaskólanum á Akureyri fimm ára, fyrir þremur áratugum, undir handleiðslu Rósu Kristínar Júlíusdóttur og útskrifaðist af myndlistabraut Verkmenntaskólans á Akureyri 2007. Þau hafa unnið saman síðan. Í upphafi unnu Karl og Rósa saman sem kennari og nemandi, en nú sem samstarfsfélagar í listinni. Nokkur verkanna á sýningunni vann Karl með Örnu Valsdóttur, myndlistarmanni, meðal annars magnað videoverk.
Ástæða er til að hvetja alla til að sjá sýningu Karls í Ketilhúsinu, hún er afar áhrifamikil, litrík og falleg.