Fara í efni
Menning

Aftur farinn að mála það sem ég sé með augunum

Myndir: Skapti Hallgrímsson

Sjö áratugir eru ekki langur hluti af eilífðinni; eilíbbðinni, eins og Kristinn G. Jóhannsson listmálari segir svo fallega. Sjö áratugir teljast hins vegar langur tími í mörgu öðru samhengi. Til dæmis sýningarhaldi eins og sama listamannsins.

Kristinn sýndi fyrst 17 ára, í október 1954, og opnar í dag kl. 14.00 sýninguna Að liðnum sjötíu árum í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins í Gilinu. Skyldi einhver hérlendis eiga lengri sýningarferil en 70 ár?

Brekkurnar í Innbænum, sem lengi hafa verið Kristni hugleiknar, prýða nú veggi Mjólkurbúðarinnar. Þær biðu ferðbúnar á vinnustofu listamannsins í elsta bæjarhlutanum þegar blaðamaður varði þar morgunstund, fallegar myndir, litríkar og glaðlegar. Brekkurnar birtast nú í öðru ljósi en oft áður, því húsin fá að vera með.

Hughrif

– Áður gekk ég til litgrasa og laufskrúðs, segir Kristinn. Verkin mótuðust af hughrifum, voru ekki það sem ég sá heldur það sem sótt var í hugarfylgsnin. Nú er ég aftur kominn á það stig að mála það sem ég sé með augunum eins og hin börnin. Þetta er til dæmis málverk um Bjölluna hans Jóa, segir hann og það fer ekki á milli mála þótt bílnúmerið A7 sé ekki sýnilegt.

Kristinn gefur út litla bók, hann kallar það kver, í tilefni sýningarinnar. Þarna er líka skráin sem prentuð var fyrir fyrstu sýningu listamannsins 1954.

– Þessi heitir Hús án áfengis, segir málarinn svo og bendir á aðra. Það er Friðbjarnarhús, þar sem fyrsta stúkan var stofnuð. Sú mynd er á kápu lítillar bókar, kvers eins og Kristinn kallar það, sem hann gefur út í tilefni sýningarinnar.

– Við erum heppin að hafa getað varðveitt þennan elsta bæjarkjarna. Akureyringar voru svo duglegir að kveikja í húsunum í bænum að það er til dæmis alveg merkilegt að Laxdalshús skuli vera á lífi. Það var í einum brunanum miðjum.

Göngutúrar

– Ég er búinn að gera margar atlögur að þessum brekkum, en eftir að ég fór að labba hér á milli húsa og horfa á þau á hverjum einasta degi sótti það á mig að ég skyldi gera enn eina árásina á Innbæinn. Að tímabært væri að fella mannanna verk inn í litskrúðið. Þá fór ég að teikna arkitektúrinn í húsunum, sem er býsna merkilegur því hér innst í bænum standa til dæmis hlið við hlið hús sem Sveinbjörn í Ofnasmiðjunni teiknaði og reisti og við hliðina stendur timburhús sem Tryggvi Gunnarsson byggði, Gránufélags-Tryggvi.

Hvers vegna þessir göngutúrar um Innbærinn?

– Það er tilviljun. Ég varð allt í einu húsnæðislaus, hafði lengi ágætis vinnustofu í Glerárgötu en þar urðu breytingar svo ég fór að vafra um bæinn og var svo heppinn að detta niður á þetta hér.

– Eftir að hafa lifað eftir stundaskrá sem kennari í 40 ár hélt ég rútínunni þegar ég fór á eftirlaun. Passaði mig á að fara í vinnuna á sama tíma og áður og nú hef ég tíma til að fara í göngutúr um sjöleytið alla morgna áður en ég sest hér að. Það má heita að sýningin sé afraksturinn af því að ég fer að líta upp en horfa ekki bara niður á tærnar á mér.

Göngutúrarnir skipta máli, segir hann. Bæði urðu þeir að málverkum og Kristinn telur að sér líði betur en ella.

– Sennilega eiga þeir á einhvern hátt þátt í því að ég er ennþá hérna megin en ekki hinum megin. Ég held að einfaldar lausnir, til dæmis að ganga, séu besta heilsubótin en ekki pillur eða námskeið eða eitthvað sem maður á að tileinka sér. Þetta er auðvitað ábyrgðarlaust hjal með öllu því mér hefur aldrei dottið í hug að segja öðrum fyrir verkum um hvernig þeir eigi að haga sér, allra síst í líkamsrækt. Þetta er það djarfasta sem hægt er að hafa eftir mér.

Svo er spurning, bætir hann við, hvort það er útaf fyrir sig markmið að verða mjög gamall.

– Samt finnst mér það gaman af því að ég hef enn stjórn á hausnum á mér. Hendurnar gera ennþá það sem hausinn skipar fyrir, og fæturnir bera mig þessa göngutúra sem hressa bæði andann og líkamann.

Aldur

Kristinn sýndi fyrst 17 ára eins og fram kom í upphafi. Hann var þá nemandi við Menntaskólann.

– Þessu fylgdi ýmislegt hagræði. Til mín kom til dæmis Þórarinn blessaður skólameistari á sýningunni og gaukaði því að mér að ég mætti mæta ólesinn þessar tvær vikur sem sýningin stæði. Hann var menningarmaður, Parísarlærður, og vildi sýna því skilning að ég vildi gera eitthvað annað en að lesa bara undir næsta dag. Ég mætti í skólann en ef menn ætluðu að ónáða mig með því að taka mig upp gat ég svarað því til að fyrst svona stæði á fyrir mér eins og þeir vissu mætti ég koma í tíma án þess að vita nokkuð, með leyfi skólameistara.

– Svo lauk sýningunni og þá blasti framtíðin við. Og heimanámið.

Margar sýningar eru að baki þessa sjö áratugi. Fyrir tveimur árum var Kristinn í Listasafninu á Akureyri og fannst þá helst til mikið einblínt á aldur listamannsins.

– Menn virtust hafa mjög lítinn áhuga á því sem var á veggjunum en allir voru undrandi á furðuverkinu, að það skyldi vera svona gamalt. Mér var eiginlega farið að þykja nóg um.

– Hann er á níræðisaldri og enn að mála og sýna, sögðu menn. Það kom málinu ekkert við hvernig ég leit út eða bar mig. Ég ætlaðist til þess að menn horfðu á veggina og skrifuðu um það frekar en mig. En maður fær ekki allt.

Aldurinn skiptir engu máli, segir Kristinn.

– Kannski í 100 metra hlaupi, en ekki þessu.

Gesturinn lofar að nefna ekki aldurinn, en svíkur það óbeint í sömu setningu. 70 ár er assg ... langur tími.

– Já, bæði var ég fljótur til, eða kannski var það fordild eða grobb í fyrstu, að koma sér einhvern veginn á framfæri, og síðan auðnast mér að vera svona lengi á lífi og geta haldið áfram að vinna. Þegar þetta fer saman má búast við öllu ...

  • Á MORGUN GIFS FER ILLA MEÐ FERMINGARFÖT