Afgangs draumar í Einkasafni Aðalsteins
Aðalsteinn Þórsson opnar myndlistarsýningu í Einkasafninu í Eyjafjarðarsveit á morgun, föstudag 12. ágúst klukkan 17.00.
Aðalsteinn er eigandi Einkasafnsins og safnstjóri og hefur búið til innsetningu „eða jafnvel útstillingu á plast munum úr safneigninni umhverfis Einkasafnið og inni. Jafnframt er telft fram fleiri efnum lífrænum og ólífrænum til einstakrar fagurfræðilegrar upplifunnar,“ segir í tilkynningu.
„Í verkefni mínu Einkasafninu geng ég út frá því að afgangar neyslu minnar séu menningarverðmæti, á svipaðan hátt og litið er á hafðbundna sköpun, afganga hugans sem menningarverðmæti. Ég leitast við að halda til haga öllu því sem af gengur af minni daglegu neyslu.“ Þetta segir Aðalsteinn vera megin inntak Einkasafnsins, verkefnis sem hann hefur unnið að síðan um aldamótin síðustu. „Safns sem á heima í gróðursælu gildragi í Eyjafjarðarsveit. Einkasafnið leitast við að gera sýnilega stærð einstaklingsins í umhverfinu, efla umhverfisvitund og vinna að sjálfbærni.“
- Sýningin verður opin næstu tvær helgar, 13. og 14. ágúst, og 20. og 21. ágúst, frá klukkan 14 - 17.
- Einkasafnið stendur við syðri enda þjóðvegar 822 Kristnesvegar uþb. 10 km sunnan Akureyrar.
_ _ _
Aðalsteinn Þórsson er fæddur 1964 á Kristnesi í Eyjafirði. Haustið 1989 hóf hann fullt nám í Myndlistaskólanum á Akureyri. Síðan hefur hann starfað að listsköpun. Aðalsteinn fór í framhaldsnám í Finnlandi og seinna í Hollandi þar sem hann lauk MFA námi frá Dutch Artinstitute, ArtEz, þá Aki2 í borginni Enchede. Í Hollandi bjó Aðalsteinn og starfaði til ársins 2016, lengst af búsettur í Rotterdam. „Framan af vann hann með ólíka miðla og efni. Hann varð hallur undir hugmyndalist en sýndi um leið mikið efnisnæmi. Söfnunin sem seinna varð að Einkasafninu lét fyrst á sér kræla í kringum aldamótin 2000,“ segir í tilkynningunni.
Aðalsteinn er formaður Gilfélagsins, félags um uppbyggingu menningarstarfsemi í Listagilinu á Akureyri og er í stjórn Myndlistarfélagsins á Akureyri.
Þetta er þriðja sumarið í röð sem Einkasafnið-umhverfislistaverk býður upp á sýningarröð listafólks sem hefur verið boðið til dvalar í safninu og sýnt afrakstur vinnu sinnar í safnhúsinu og umhverfis það. „Listafólkið hefur unnið út frá þeim áhrifum sem það hefur orðið fyrir meðan á dvölini stendur. Aðalsteinn er áttundi þessara sumarlistamanna sem sýnir í safninu. Á undan honum hafa listamennirnir: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Arna G. Valsdóttir, Dagrún Matthíasdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Joris Rademaker, Kristín Reynisdóttir og Pétur Magnússon dvalið og sýnt í safninu. Einkasafnið er sýningastaður í gróðurvin í lækjardragi með skoppandi læk, 10 km sunnan Akureyrar. Þar er boðið upp á einveru og takmarkuð þægindi í litlu húsi.“