Fara í efni
Menning

Ævintýragarður Hreins opinn alla daga

Hreinn Halldórsson hefur skapað ævintýrapersónur í garðinum að Oddeyrargötu 17 í hálfan annan áratug. Hér er hann í garðinum síðasta sumar. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Alþýðulistamaðurinn Hreinn Halldórsson hefur opnað Ævintýragarð sinn við Oddeyrargötu 17 á Akureyri fyrir gestum og gangandi, þriðja sumarið í röð. Þar sýnir Hreinn ýmsar ævintýrapersónur sem hann hefur smíðað úr margvíslegu hráefni.

Hreinn segist „hreinræktaður alþýðulistamaður“ – hann hefur aldrei farið í listaskóla né setið nokkurt námskeið í sköpun eða list. „Verkin mín eru því sprottin upp úr engu öðru en sköpunarþörf og eru því án áhrifa frá utanaðkomandi straumum og stefnum og standa utan hins viðurkennda listheims.“

„Það er draumur hvers manns að skapa og miðla með öðrum. Með það í huga hef ég á síðustu árum skapað hin ýmsu verk sem ég staðset svo í garðinum við heimili mitt,“ segir listamaðurinn.

Hreinn kveðst hafa fundið fyrir áhuga ferðamanna og ekki síður Íslendinga á að skoða verkin og það varð til þess að hann opnaði fyrir aðgang almennings að garði sínum.

„Opnunin á garðinum síðast liðin tvö sumur gekk vel og var umgengni gesta til fyrirmyndar. Ég hef því ákveðið að endurtaka þessa opnun og verður garðurinn, sem ég kalla Ævintýragarðinn, opinn alla daga í sumar frá klukkan 10:00-20:00. Aðgangur er ókeypis eins og ávallt hefur verið og myndatökur leyfðar. Við flest verkin en stuttur texti bæði á íslensku og ensku með nafni verksins og úr hvaða ævintýri það er tekið.“

Alþýðulistamaðurinn við Oddeyrargötu segir garðinn einkagallerí sitt, lifandi undir berum himni. „Þar er lofthæðin endalaus og lýsingin síbreytileg. Ég get fullyrt að það eru ekki mörg gallerí á Íslandi þar sem búast má við rigningu eða jafnvel snjókomu og roki þegar gengið er um galleríið og verkin skoðuð. Oftast er þó glampandi sól, logn og þægilegur útihiti eins og Akureyri er þekkt fyrir!“