Menning
Æfðu SOS sinfóníuna og þá 5. Beethovens
29.05.2022 kl. 12:00
Arngrímur morsar á æfingunni í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Vortónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands verða síðdegis í dag í Hofi. Á dagskrá eru frumflutningur SOS sinfóníu Jóns Hlöðvers Áskelssonar og hin margfræga 5. sinfónía Beethovens. Akureyri.net leit við á æfingu í gær þegar hljómsveitin æfði verk Jóns Hlöðvers þar sem einleikarinn Arngrímur B. Jóhannsson, flugkappi og loftskeytamaður, sat við morstækið. Hann morsar sem sagt hluta verksins, mynd af hönd hans er varpað á stóran skjá á sviðinu og einnig textanum sem hann morsar.
Tónleikarnir hefjast klukkan 16.00 og klukkutíma fyrr mun tónlistarmaðurinn og félagsfræðingurinn Kjartan Ólafsson halda kynningu á verkunum tveimur á veitingastaðnum Garún í Hofi. Boðið verður upp á léttar veitingar og þangað eru öll velkomin.