Aðalheiður rabbar um verk Jóns Laxdal
Nokkur myndlistaverk Jóns heitins Laxdal eru hluti af heildarsýningu á aðalhæð Flóru menningarhúss í Sigurhæðum og á morgun, föstudag, rabbar Sölvi Halldórsson við Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, ekkju Jóns, um verk listamannsins og gengið verður um sýninguna. Rabbið hefst klukkan 16.00 og stendur í hálfa klukkustund. Öll eru velkomin.
Jón Laxdal Halldórsson (f. 19. júlí 1950 – d. 12. nóvember 2021) var myndlistamaður og skáld og bjó lengst af á Akureyri og í Freyjulundi í Hörgársveit. Jón kom eftir krókaleiðum inn í myndlistina, eins og segir í tilkynningu, nam ungur heimspeki við HÍ og lét einnig að sér kveða í skáldskap með útgáfu nokkurra ljóðabóka. „Jón var lengi virkur í menningarlífinu á Akureyri. Var bæjarlistamaður Akureyrar 1993-1994, átti hlut að rekstri Rauða hússins og var í hópi þeirra sem hófu Listagilið á Akureyri til vegs og virðingar.“
Á Sigurhæðum eru nú til sýnis klippimyndir Jóns og og skúlptúrar.