Aaron Mitchell opnar sýningu í kvöld
Kanadíski myndlistarmaðurinn Aaron Mitchell hefur dvalið í gestavinnustofu Listasafnsins undanfarnar vikur. Hann opnar sýningu í gestavinnustofunni í kvöld kl. 20.00, þar sem gestum verður boðið að skoða innsetningu og ræða við listamanninn um listina og verkefnið, en 19 ár eru síðan hann sýndi síðast verk á Akureyri. Sýningin stendur til miðvikudagsins 30. mars.
Aaron Mitchell er myndlistarmaður og kennari við Ontario College of Art and Design háskólann í Toronto í Kanada sem og við Háskólann á Akureyri í hug- og félagsvísindum. Hann hefur undanfarið verið í listamannadvöl hjá Listasafninu á Akureyri þar sem hann hefur unnið í verkefni sem ber titilinn Modern Mythology Project, að því er segir í tilkynningu frá safninu. Þar segir að verkefnið sé framþróun og könnun á framkvæmd listrannsókna (Art Based Research – ABR) og nálgunum í listkennslu bæði á Íslandi og í Kanada. Auk þess að vera listamaður lauk Aaron kennsluréttindanámi frá Listaháskóla Íslands 2005.
„Á vinnustofusýningunni í Listasafninu er listin nýtt til að horfa aftur í tímann gegnum ættfræði, landfræði og jarðfræði. Ritúöl, goðafræði, hefðir, þjóðfræði, sagnir og serimóníur renna saman við stjörnufræði, umhverfisfræði og fræði alheimsins,“ segir Mitchell í tilkynningu.