Fara í efni
Menning

Á morgun: „Gullfalleg verk“ frá 15. og 16. öld

Eyþór Ingi Jónsson verður stjórnandi á tónleikunum á morgun. Hann er organisti í Akureyrarkirkju og stjórnandi Hymnodiu.

Kammerkórinn Hymnodia og endurreisnarhópurinn Scandinavian Cornetts and Sackbuts koma fram á tónleikum í Akureyrarkirkju á morgun, sunnudaginn 30. mars klukkan 17.00.

„Á efnisskránni verða gullfalleg kórverk og hljóðfæraverk frá lokum 15. aldar og frá 16. öld. Scandinavian Cornetts and Sackbuts taka þátt í stærri verkefnum, svo sem flutningi á verkum eins og Monteverdi Mariavesper og Orfeo, en koma einnig fram sem sjálfstæð sveit,“ segir í tilkynningu.

„Meðlimir hljómsveitarinnar spila á hljóðfæri endurreisnarinnar, zink (cornett) og endurreisnarbásúnur (sackbut) og eru þau öll sérhæfð í flutningi á endurreisnartónlist og í fremstu röð í leik á þessi stórmerkilegu hljóðfæri. Þau eiga frábæran tónleikaferil með fremstu tónlistarhópum Evrópu.“

Meðlimirnir að þessu sinni eru: Conor Hastings (frá Englandi), Nils Carlsson (Svíþjóð), Marit Lund Bjørnsen (Noregi) og Christoph Schnaithmann (Svíþjóð).

Sérstakur gestur verður Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, sellóleikari.

„Cornett og Sackbut voru lykilhljóðfæri sem voru mikið notuð á endurreisnartímanum og snemma á barokktímanum, sérstaklega í kirkju- og kammermúsík. Þau voru forverar nútíma hljóðfæra eins og trompets og básúnu,“ segir í tilkynningu frá Hymnodiu.

Hljóðfærin

Cornett (Zink á þýsku)

  • Cornett er tréblásturshljóðfæri með munnstykki úr málmi, svipað og í trompet. Það er gert úr viði sem er klæddur með leðri og er með sex fingragöt, svipað og blokkflauta.
  • Cornett er með bjartan, mjúkan og syngjandi hljóm og var notað í bæði trúarlegri og veraldlegri tónlist.  Hljóðfærið var sérstaklega vinsælt á 16. öld og fyrri hluta 17. aldar og var oft notað með söngröddum, því það hafði sérlega mannlegan tónlit.

Sackbut

  • Sackbut er forveri nútíma básúnunnar og er með mjúkan, áberandi en ekki eins skæran tón og nútíma básúna.
  • Sackbut er með útdraganlegan sleða eins og básúnan í dag, en með mjórri og beinni bjöllu. Sackbuts komu í ýmsum stærðum, frá sópran til bassa. Hljóðfærið var mikið notað í kirkjutónlist, konunglegum hirðhljómsveitum og í samspili við cornets.
  • Saman mynduðu cornetts og sackbuts oft sveitir sem léku bæði í trúarlegum athöfnum og hirðtónlist. Þau voru sérstaklega notuð í tónlist eftir tónskáld eins og Gabrieli og Monteverdi.

Tónskáldin

Á efnisskrá tónleikana eru m.a. verk eftir ítölsku tónskáldin Andrea Gabrieli (1532-1585) i Ludovico da Viadana (1564-1627), Marco Antonio Ingegneri (1535-1592), flæmska tónskáldið Josquin des Pres (1450-1521), spænsku tónskáldin Crisóbal de Morales (1500-1553) og Tomás Luis de Victoria (1548-1611) og Bretana Thomas Tallis (1505-1585) og William Byrd (1540-1623)

Stjórnandi á tónleikunum er Eyþór Ingi Jónsson. Miðaverð er 5.000 krónur.