11 glæný tónverk barna og ungmenna frumflutt
Tónleikar Upptaktsins á Norðurlandi eystra, tónsköpunarverðlauna barna og ungmenna, fóru fram í gær, sunnudag, í Menningarhúsinu Hofi og þóttu afar velheppnaðir tónleikar, að því er segir í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar.
Þar fluttu atvinnuhljóðfæraleikarar ellefu glæný tónverk eftir ungmenni á aldrinum 10-16 ára. Á tónleikunum fengu tónlistarstefnur að njóta sín, og áheyrendur fengu að heyra allt frá reggí yfir í háklassískan menúett. Þar má nefna rokk, popp, jazz, tölvuleikjatónlist „og tónlist sem myndi sóma sér vel í hvaða kvikmynd sem er.“
Hátt í 100 manns fögnuðu ungu tónskáldunum tíu með glimrandi lófataki í lok tónleikanna.
„Meðan bylur réði ríkjum utanhúss bræddi sköpunargleðin og hlýjan í verkum ungmennannna tíu hjörtu þeirra sem á hlýddu og víða sá ég tár glitra á hvarmi,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarhússins Hofs og verkefnisstýra Upptaktsins. „Við erum ríkt samfélag að eiga svo hæfileikarík og skapandi ungmenni í tónlist! Ég er líka afar stolt af því að Menningarfélag Akureyrar hafi skapað vettvang til að ýta undir sköpunarkraft ungmenna sem hafa áhuga á tónlist og ég bið þau einlæglega að halda áfram að semja og hvet þau sem langar til að prófa að semja verk að kýla á það. Allt getur gerst. Ég hlakka mikið til að sjá nýjar hugmyndir kvikna og streyma inn að ári í Upptaktinn 2025!“ segir Kristín Sóley jafnframt.
Útsetning verkanna var í höndum Kristjáns Edelsteins og Gretu Salóme, sem einnig var tónlistarstjóri Upptaktsins.
Ungtónskáldin og verk þeirra:
- Anna Lovísa Arnarsdóttir – Eyrun mín sjá liti
- Eiður Reykjalín Hjelm – Frühlig im Wald (Vor í skóginum).
- Hákon Geir Snorrason – Svigrúm
- Heimir Bjarni Steinþórsson – Metal Dandelion
- Jóhann Valur Björnsson – Unfathomable
- Jóhann Valur Björnsson – Blossom
- Jóhanna Kristín Júliusdóttir – Fjölskyldur
- Svanborg Alma Ívarsdóttir – Draumur túnfisksins
- Þórhallur Darri – Show me your heart
- Þórhildur Eva Helgadóttir – Froskadansinn
- Tobías Þórarinn Matharel – Trompetlag
Tónleikarnir voru teknir upp bæði í hljóð og mynd til skrásetningar og fyrir ungmennin til eignar.
Lög þeirra munu birtast á vef RÚV innan skamms og verða í kjölfarið einnig aðgengileg á Youtuberás Upptaktsins á Norðurlandi eystra.