Fara í efni
Matur

Yfirtaka Eyjunnar

Í afar fallegu norðlensku kvöldveðri var gengið inn á Eyju vínstofu í Hafnarstræti 90 þar sem rómantíkin ræður smekklega ríkjum í innréttingum og hönnun staðarins. Fyrir 127 árum var þetta tignarlega hús reist fyrir skrifstofur Kaupfélags Eyfirðinga og hefur síðan hýst ýmsa starfsemi eins og t.d. Framsóknarflokkinn og Frúna í Hamborg, sem var ein skemmtilegasta verslun sem komið var inn í hér í bæ að mati matarskríbents. En nú biðu hans og þriggja annarra góðra vina kræsingar við vinveitta yfirtöku, „pop up“, gestamatreiðslumannsins Andreasar Patreks Williams Gunnarssonar.

 

Tískubylgjan

Undanfarin misseri hafa nokkur veitingahús á Akureyri fengið til sín gestakokka sem hafa yfirtekið eldhúsin og kynnt fyrir gestum skemmtilegar nýjungar og tísku í matreiðslu. Já, það eru nefnilega líka tískusveiflur í mat og á veitingahúsum eins og annarsstaðar, þó að sumir vilji aldrei neinu breyta, halda í hefðir og sinn stíl. Hvoru tveggja er afar gott og gilt en alltaf gaman að njóta þegar fagmennskan skín í gegn og alla leið á diskinn með tískubylgju eða ekki.

Aðalleikarar forleiks

Eins og nafn Eyju vínstofu gefur til kynna er drykkjarseðill staðarins afar metnaðarfullur og lögðu útsendarar akureyri.net traust sitt á þjóninn í þeim efnum, sem vildi samt vita hvaða karakter vína væri þeim að skapi. Skemmst er frá því að segja að sú vínpörun og þjónusta sem kom í takt við matseðilinn var frábær, passað uppá hitastig og að skenkt væri í glös þegar við átti.

Stuttu fyrir fyrsta rétt var lungamjúkt nýgrillað brauð og viðbit borið fram, sem féll þó fljótt í skuggann af dásamlegri hörpuskelinni sem var eins og silki, þunnt skorin með stökkum möndlum og hnetukenndu brenndu smjörinu, eða „beurre noisette“, fyrir frönskumælandi sælkera. Hér fékk einstök áferð og bragð skelfisksins að njóta sín til fulls og ekkert sem stal athyglinni af aðalleikara þessa dásamlega forleiks.

Slysið brennd mjólk

Mikil spenna var á meðal sessunauta eftir íssalatinu, sem átti annann leikþátt. Ekki er vanalegt að sjá svo algengt, einfalt og tiltölulega ódýrt hráefni í aðalhlutverki og fyrirfram ljóst að hér væri á ferð djarfur leikur Andreasar í eldhúsinu. Íssalatið eða „Iceberg“ var borið fram með brenndri mjólk, grafinni eggjarauðu og kjúklingabaunamauki eða hummus eins og það er oftast kallað. Eftir nokkra bita og drykklanga þögn við borðið komu fyrstu dómar sem voru allir á einn veg – „Geggjað“! Léttgrillað, stökkt og frískandi kálið, mjúkt og kremað baunamaukið, sætan í brenndu mjólkinni og salt bragð eggjarauðunnar var himneskt hjónaband. Afar skemmtileg samsetning í spennandi leikfléttu leikstjórans við pottana, sem kom og settist við borðenda gagnrýnna gesta og sagði frá því þegar hann brenndi mjólkina óvart og ákvað að nota hana svo í næstu samningum matreiðslumanns og hráefnis. Traust matarskríbentsins til yfirtöku Eyjunnar efldist enn frekar við þennan skemmtilega rétt og tilkomu hans.

„Beurre blanc“

Seinni fiskréttur kvöldsins var skötuselur, vorlaukur, hvítvínssmjörsósa og suður-ameríska kornfræið Quinoa. Samsetning þessa réttar og nákvæmlega rétt eldaður fiskurinn, sem féll í lagskipta stafi við árás amboðanna, var frábært miðatriði í flugeldasýningu Andreasar og Eyju. „Beurre blanc“ (fyrir þá sem vilja slá aftur um sig í franskri matseðlaklassík) – eða hvítvínssmjörsósan og sultaðaður vorlaukurinn voru í mýkri aukahlutverkum ásamt poppuðu quinoafræinu, sem gaf mikilvægan stökkleikann fyrir tiltölulega vel tennta gesti á borði nr. 12 þetta kvöld.

Heimsfriður í Hollywood með grísasíðu

Í gömlu svarthvítu Hollywood myndunum voru aðalleikararnir oft stærri en efni og innhald myndanna, og svo er kannski enn sumsstaðar í hinni stóru Ameríku. Aðalleikari þessa kvölds á Eyju var mættur á svið og tilbúinn til að taka skynhrif áhorfenda enn lengra inn í heim hins fullkomna kvölds, sem er fallegt umhverfi, góðir vinir, góð þjónusta, frábær matur, mörg bros og gleði. Lambahryggjarvöðinn með perusalati, kartöflumús og beikonsósu stóð vel undir ábyrgðinni, örugg, stöðug frammistaða, áferð og flæði í takt við aðra leikendur forleikja var í takt við hápunktinn. Bleik miðja íslenska lambsins, ferskleiki perusalatsins, jarðtengd miðja jarðeplamúsarinnar og heimsfriðurinn sem kom með léttreyktri grísasíðusósunni. Rýnendur töldu að heimsfriði yrði fljótt náð ef Andreas fengi að elda aðeins þennan eina rétt fyrir austan- og vestanhafsbullur við Eyjuna okkar góðu.

Eftirréttirnir mysa, pipar og ólífur

Því miður var að verða ljóst að kvöldið og kennitölur væru farin að toga töluvert í átt að koddanum og Storytel en þó var enn von um ögn af góðgæti fyrir heimferð og Colgatekremið. Í lokaþætti rómantíska gamanleiksins sem Chef Andreas og Eyja settu saman þessa einu helgi voru mysa, pipar, ólífur, marenge og kökumulningur mætt uppá dekk til að sýna sig og sanna og standa uppí í hárinu á þeim sem á undan komu.

Eiginleiki og bragð góðrar jómfrúarólífuolíu er oft vanmetin og því afar skemmtilegt að sjá gullfallegan mysu-, pipar- og ólífuísinn á toppi skjannahvíta marengsins. Niðurrifin kakan allt um kring gaf sætuna, stökkleikann og einbeittan viljann til að ná hverju einasta korni og dropa sem eftir var í þessum síðasta þætti leikstjórans sem var kominn þvert yfir Eyjuna okkar góðu til að sýna Akureyringum og öðrum gestum hvað í honum býr.

Í Akureyrarblaðinu Degi var oft talað um að væri að ræða „utanbæjarmenn“ þegar eitthvað fór miður í bænum og ekki laust við nokkurt yfirlæti í skríbentum forðum daga í garð aðkomufólks.

Akureyri verður ríkari og ríkari með hverjum gestinum sem þorir yfir Öxnadalsheiðina og eða lendir á leirunum með flygildunum sem fer alltaf fjölgandi.

Tökum óþekktum atriðum í lífinu fagnandi, verum forvitin, þorum að smakka og stökkva í faðm utanbæjarfólksins sem vill auðga sjávarþorpið okkar litla við heimskautsbaug.

Takk kærlega fyrir komuna til Akureyrar Andreas, takk Eyja!