Fara í efni
Mannlíf

Ýta undir komur umhverfisvænni skipa

Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

SKEMMTIFERÐASKIP - II

Samtökin Cruise Iceland eru hagsmunasamtök íslenskra hafna, ferðaþjónustuaðila, umboðsmanna skipafélaganna og annarra sem hafa hagsmuni af komum skemmtiferðaskipa til Íslands. Í kynningarefni frá samtökunum kemur fram að framtíðarsýnin sé að Ísland verði áfram eftirsóknarverður og umhverfisvænn áfangastaður skemmtiferðaskipa í sátt við íslenska hagsmunaaðila, eins og það er orðað. Þar segir einnig: „Fjárhagslegt hvatakerfi er til staðar sem ýtir undir komur umhverfisvænni og sjálfbærari skipa (EPI-Environmental Port Index sem er vottað af Det Norske Veritas) þar sem höfnin í Stafangri var höfð til hliðsjónar.“

Stefnuáherslur Cruise Iceland eru að:

  • Stuðla að styrkingu innviða svo þeir séu í stakk búnir til að taka á móti farþegum og skipum á sjálfbæran hátt.
  • Tryggja að Ísland verði áfram eftirsóknarverður áfangastaður skemmtiferðaskipa.
  • Bæta upplýsingagjöf til innlendra og erlendra hagsmunaaðila.
  • Stuðla að því að gera Ísland að umhverfisvænum áfangastað.

Áhugaverð skoðunarferð um Sky Princess

Nokkrum hópi fólks, fulltrúum fjölmiðla, Akureyrarbæjar og fleirum, var boðið í skoðunarferð um risaskipið Sky Princess snemma í júní. Um borð voru 3.560 farþegar og 1.346 í áhöfn. Eins og allir íbúar Seltjarnarness væru komnir til Akureyrar, en að vísu fara aldrei öll þau sem eru um borð í land á hverjum stað.

Þetta var forvitnileg og upplýsandi heimsókn og ekki svo einfalt að meðtaka allt sem fyrir augu og eyru bar á nokkrum klukkutímum. Það er í raun með ólíkindum að fara um þetta ferlíki sem Sky Princess er, átta sig á stærðinni og umfanginu, aðstöðunni, fjöldanum og öllu sem er í boði um borð.


Úr skoðunarferð um borð í Sky Princess. Rich Pruitt, aðstoðarforstjóri Environmental Operations, Carnival Cruise Line, fræðir gesti um það sem fyrir augu ber undir þiljum. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Umhverfismálin voru þar í brennidepli og hugleikin þeim sem kynntu starfsemina um borð. Meðal annars var lögð mikil áhersla á að sýna og útskýra alla þá tækni og tæki, vinnuna og fyrirhöfnina sem útgerðin og áhöfnin leggja í annars vegar að draga úr úrgangi og hins vegar úrvinnslu og endurvinnslu þess úrgangs og umbúða sem falla til. Inn í það spila aðferðir, efnisval og innkaup með það fyrir augum að minnka þörfina á endurvinnslu úrgangs og förgun umbúða.

Það sama á við um útblásturinn frá skipinu. Mikil áhersla lögð á hreinsun með þeirri tækni og þeim ráðum sem tiltæk eru.

Hugað að hverju smáatriði

Hvað umhverfismálin varðar er hugað að hverju einasta smáatriði, allt frá útblæstri frá vélum skipsins yfir í val á smæstu hlutum sem notaðir eru á veitingastöðum þess. Hugað að öllu þar á milli. Það skiptir nefnilega máli hvort tæplega fimm þúsund manna samfélag notar sykur í litlum bréf- eða plastumbúðum eða hvort það eru einfaldlega baukar og sykurkör á veitingastöðunum og í káetunum, og sykurinn þá keyptur inn í risapakkningum í stað nokkurra gramma í hverju bréfi, svo dæmi sé tekið. Svipað á við um fleiri vörutegundir.


Niðurbrot matarúrgangs með nýjustu tækni. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Um borð er gríðarlega umfangsmikið kerfi endurvinnslu og flokkunar sem er eiginlega of flókið ferli í flestum tilvikum til að hægt sé að útskýra það til fulls eftir stutta heimsókn. Unnið er úr öllum matarúrgangi með sérstakri tækni, allt affallsvatn er hreinsað með hátæknilegum aðferðum áður en það er losað. Útblástur frá vélum skipsins er hreinsaður og þannig lágmarkað það sem fer út í andrúmsloftið.

Fróðleiksmolar frá Princess-útgerðinni

Að mörgu er að hyggja í umhverfismálum risastórra skemmtiferðaskipa með þúsundir um borð. Hér eru nokkur dæmi frá Princess-útgerðinni um það hvernig hugað er að hinum ýmsu hliðum þessara mála.

  • Skip Princess-útgerðarinnar eru fær um að framleiða sitt eigið vatn, tæplega 1,8 milljónir lítra á dag og geta með sjálfbærum hætti framleitt allt að 90% af því ferskvatni sem notað er um borð.
  • Fljótandi jarðgas (LNG) mun knýja vélar nýrra skipa sem hefja eiga siglingar 2024 og 2025. Þrír tankar þeirra skipa munu rúma um 4,4 milljónir lítra af gasinu sem dugar til tíu daga siglingar.
  • Skipið Discovery Princess endurvinnur nær sjö tonn af gleri, 1,5 tonn af pappakössum, fjögur tonn af plasti og 580 lítra af matreiðsluolíu í viku hverri.
  • Skip Princess-útgerðarinnar voru fyrst til að nýta raforkuhleðslustöðvar í Juneau fyrir 20 árum og hafa síðan þá bætt við sjálfbærri tækni í Seattle, Vancouver, San Fransiskó, Los Angeles, San Diego, New York og Halifax.
  • Móðurfyrirtæki Princess, Carnival Corporation, stærsta fyrirtæki heims í útgerð skemmtiferðaskipa, er eina fyrirtækið í heiminum sem framleiðir minna af gróðurhúsalofttegundum en árið 2011, og hefur dregið úr CO2 útblæstri um 15% frá 2019.
  • Í hverju skipi Princess-útgerðarinnar er búnaður sem tengist umhverfismálum að verðmæti um 25 milljónir dala, eða um 3,3 milljarðar króna.
  • Með átaksverkefni á undanförnum árum hefur verið dregið úr plastnotkun um 50% og umfang matarúrgangs hefur dregist saman um 30% með notkun sérstakrar niðurbrotstækni.
  • Til að draga úr orkuþörf þegar skipin eru á siglingu er hugað sérstaklega að lögun skipanna, en einnig er notuð sérstök málning og að auki er þunnu lagi af loftbólum rennt meðfram skipsskrokknum á siglingu og þannig dregið úr mótstöðu.
  • Sérstök háþróuð tækni (AAQS) nýtir saltvatn til að „skrúbba“ 99% af súlfúr úr útblæstri skipanna.

Raftenging líklega í boði fyrir minni skip 2024

Í bókun bæjarráðs Akureyrar, sem sagt var frá í upphafi þessarar umfjöllunar hér á Akureyri.net, er bent á nauðsyn þess að á næstu árum verði áfram unnið að uppbyggingu innviða fyrir raftengingu skipa til að skemmtiferðaskip, sem og önnur skip, sem viðkomu hafi í höfnum geti tengst rafmagni í landi. 

Þetta verkefni mjakast áfram og eins og staðan er í dag er mjög líklegt að hægt verði að tengja minni skemmtiferðaskip við rafmagn á Akureyri sumarið 2024, að því er fram kemur í minnisblaði Péturs Ólafssonar hafnarstjóra. Útgerðir skipanna eru í þeim efnum á undan íslenskum höfnum því staðan er einfaldlega sú að alltof fáar hafnir bjóða upp á landtengingu á meðan fjöldi skipa getur tekið við tengingu. „Ljóst er að skipafélögin vilja þetta öll, en það er flókið og dýrt að koma upp landtengingum,“ ritar Pétur í áðurnefndu minnisblaði. Hann bendir einnig á að vandinn sé að hluta bundinn við að um mismunandi kerfi sé að ræða, en undanfarin fjögur ár hafi verið unnið mikið í undirbúningi og uppsetningu slíks búnaðar.