Söguleg sveit loks með plötu, 20 árum of seint!
Akureyrska hljómsveitin Toymachine varð ekki langlíf og er ekki sérlega þekkt, en skipar þrátt fyrir það merkilegan sess í íslenskri tónlistarsögu. Hljómsveitin og umboðsmenn hennar tveir lögðu nefnilega grunninn að Iceland Airwaves hátíðinni, með tónleikum í Sjallanum í mars 1999.
Kvöldið eftirminnilega í Sjallanum, föstudagskvöldið 12. mars, léku auk Toymachine, tvær hljómsveitir úr Reykjavík, Dead Sea Apple og Carpet (sem síðar varð Lights on the Highway), fyrir fulltrúa nokkurra bandarískra útgáfurisa, sem Icelandair og umboðsmenn Toymachine buðu til landsins. Ótrúlegt, en satt.
Strákarnir í Toymachine gerðu prufuupptökur á sínum tíma og til stóð að gefa út plötu, ekkert varð úr en þeir fóru loks í hljóðver í haust, tóku upp sömu lög og í den og platan sú arna kemur út á föstudaginn – 20 árum of seint! Jens Ólafsson, Baldvin Zophoníasson (nú þekktur sem kvikmyndaleikstjórinn Baldvin Z), Atli Hergeirsson og Kristján Örnólfsson leika á plötunni, en auk þeirra var Árni Elliott í sveitinni um tíma.
Í tilefni þess að platan kemur loks út ræddi Akureyri.net við Atla Hergeirsson, bassaleikara Toymachine. Viðtalið birtist í þremur hlutum; í dag segir Atli frá stofnun hljómsveitarinnar og fjörinu framan af. Atli hefur búið fjarri æskuslóðunum á Akureyri síðustu tvo áratugi og starfar nú sem vörumerkjastjóri hjá Rolf Johansen & co í Reykjavík.
Á morgun segir Atli frá kvöldinu sögulega í Sjallanum, fyrstu Airwaves hátíðinni (sem var eitt kvöld í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli), frægri ferð Toymachine til New York í kjölfarið, þar sem strákarnir léku á þekktum klúbbi, og endalokum hljómsveitarinnar. Á föstudag segir hann svo frá tilurð plötunnar sem loksins kemur út þann dag.
_ _ _
„Haustið 1996 sat ég í Gryfjunni í VMA og var að spjalla við nokkra aðra nemendur skólans. Ég átti að vera í dönskutíma hjá hinni hollensku Annette J. De Vink sem ég hreinlega nennti ekki að mæta í,“ segir Atli við Akureyri.net.
Spjallið í Gryfjunni var örlagaríkt. „Ég vissi ekkert hvað ég vildi læra og var eiginlega bara í VMA til að vera í framhaldsskóla. En ég hugsa til baka af þakklæti til þessarar stundar í Gryfjunni því einn þeirra sem ég spjallaði við var strákur sem ég kannaðist aðeins við; hann hafði verið í Oddeyrarskóla líkt og ég en er árinu eldri. Þetta var Baldvin Zóphoníasson. Það barst í tal að hann og Jens Ólafsson, vinur hans innan úr Hrafnagili, þá handboltakappi hjá Þór og söngvari í hljómsveitinni Fudd, væru að stofna hljómsveit. Þeir höfðu fengið til liðs við sig Kristján Elí Örnólfsson, gítarleikara pöbbasveitarinnar Best fyrir, en síðasta púslið vantaði: bassaleikara.“
Féll eins og flís við rass
Atli greindi Baldvin frá því að hann léki á bassa. „Ég var 17 ára og reyndar búinn að selja alla bassana mína fyrir utan einn, Ovation kassabassa, enda nánast búinn að gefa það upp á bátinn að „hljómsveitast“ meira. Ég byrjaði 14 ára að spila; fékk eldrauðan Hohner Rockwood rafbassa og Carlsbro magnara í fermingargjöf frá pabba að eigin ósk og eftir það varð ekki aftur snúið. Var á þessum tíma búinn að spila í hinum og þessum hljómsveitum á meðan ég var í Síðuskóla, eins og Durex Colour, Hver dó?, Hljómsveitinni Gylfa og síðast en ekki síst rappsveitinni sálugu Ibgog.“
Þegar Baldvin spurði Atla hvort hann væri ekki til í að koma á æfingu og prófa að spila með þeim stóðst hann ekki mátið og hætti við að hætta.
„Ég fékk lánaðan skelfilegan, hauslausan CORT bassa til að mæta með á æfinguna. Bassa sem leit frekar út fyrir að vera nýtísku fiðla en bassi! Ég er reyndar ennþá með hann í láni, 24 árum síðar. Þyrfti að fara skila honum... Við æfðum í æfingahúsnæði Fudd við Hvannavelli á Akureyri og allt féll hreinlega eins og flís við rass, eins og einhver sagði. Strákarnir voru komnir með lag af stað sem við kláruðum á þessari fyrstu æfingu, lagið Bitter.
Til að gera langa sögu stutta vorum við komnir í hljóðver um sex mánuðum síðar til að taka upp plötu. Bróðir Baldvins, Svanur Zóphoníasson og skipsfélagi hans og vinur, Guðmundur Cesar Magnússon, voru þarna búnir að fjárfesta í okkur; þeir voru umboðsmenn hljómsveitarinnar og ætlunin var einfaldlega að gera okkur fræga. Það var stórkostlegt afrek að komast í hljóðver á þessum tíma og ekki öllum sem tókst það.“
Þarna hét hljómsveitin Gimp og platan Crippled Plaything kom út sumarið 1997. „Hún fékk ekki góða dóma, skal ég þér segja, og veröld okkar, þessara ungu manna, gjörsamlega hrundi. Mig minnir meira að segja að ég hafi hætt í bandinu um tíma. Platan er nú orðin algjört „költ“ og hana má finna á Spotify. Á framhlið plötunnar má finna mynd af okkur, sem Snorri Ásmundsson listamaður vann, og greinilegt að Snorri var byrjaður að vinna með appelsínugula fílínginn sem hann er þekktur fyrir í dag.“
Sérstakur sess
Atli viðurkennir að platan sjálf hafi ekki verið vel unnin. „Vægast sagt ekki! Maður getur ekki annað en brosað út í annað við að hlusta, en hún geymir samt mörg þokkaleg lög, meðal annars fyrrnefnt Bitter, lag sem hefur fylgt okkur alla tíð, alveg frá fyrstu æfingu. Mér er minnistætt þegar við vorum við upptökur á Crippled Plaything, í hljóðveri í verksmiðjuhverfinu þar sem nú er Glerártorg, barðist faðir minn fyrir lífi sínu og hugur minn var mikið uppi á sjúkrahúsi á meðan við unnum að upptökum. Ég man ekki betur en hann hafi látist sama kvöld og ég hljóðritaði bassann í laginu Sad Song. Rólegt og fallegt lag sem er reyndar langbesta lag plötunnar og það á því sérstakan sess í hjarta mínu.“
Strákarnir komu fram hér og þar í kjölfar þess að platan kom út, „en það er erfitt að fylgja eftir ónýtri plötu. Við tókum upp aðra EP plötu ári síðar, 1998, hjá Kristjáni Edelstein, hún er mun betur unnin og er einnig á Spotify. Á henni er til dæmis lagið Bitter II. Þá vorum við farnir að að leika þyngri tónlist enda farnir að hlusta mikið á Korn, Marilyn Manson, Rammstein og þess háttar hljómsveitir, sem hafði áhrif á tónlistarsköpun okkar.“
Þjálfarinn ekki aðdáandi!
Atli segir bandið hafa verið í tilvistarkreppu þegar þarna var komið sögu. „Það var ekkert að gerast hjá okkur fyrir utan góð gigg í Sjallanum og upphitun fyrir bönd eins og SSSól og Sálina á sveitaböllum í Ýdölum og slíkum stöðum. Við vildum hins vegar miklu meira. Stefnan var auðvitað heimsyfirráð! Við vorum hættir í skóla og rokkið átti okkur alveg. Kristján var reyndar enn að spila fótbolta með meistaraflokki Þórs og oft voru vandræði að raða saman rokkinu, æfingum og leikjum hjá liðinu. Ég man að Kristján Guðmundsson, þáverandi þjálfari liðsins, var ekki okkar fremsti aðdáandi!“
Atli segir að eftir að strákarnir uppgötvuðu hljómsveitirnar Deftones, Incubus og System of a down, hafi ekkert annað komist að en rokkið. „Eitt kvöldið þegar við sátum á Góða Dátanum við bjórdrykkju, á fundi til að ákveða næstu skref, var ákveðið að breyta nafni hljómsveitarinnar í Toymachine. Mig minnir að Baldvin hafi fengið hugmyndina; einn af okkur var með derhúfu eða í peysu merktri Toy Machine fatamerkinu. Við höfðum ákveðið að gera stórar breytingar á bandinu, þyngja okkur og skipta um nafn. Við þurftum að sannfæra umboðsmennina tvo um þessar breytingar, það tókst og við bættum fimmta meðlimnum við.“
Árni Elliott gekk til liðs við hópinn, farið var í hljóðver og tekið upp demo, eins og það er kallað í bransanum – prufuupptaka, fyrsta lagið í nafni Toymachine. Hlutverk Árna var að „skratsa plötur“ eins og mjög tíðkaðist á þessum tíma; snúa plötum fram og til baka í gríð og erg undir nálinni á plötuspilara, til þess að búa til ákveðna stemningu sem studdi við hina hefðbundnu tóna hljóðfæranna. „Við vorum svo hrifnir af útkomunni að við buðum Árna að gerast meðlimur. Svona skipaðir fórum við af stað fullir eldmóðs, tilbúnir í að leggja allan heiminn að fótum okkar,“ segir Atli Hergeirsson.
- Myndin að ofan: Strákarnir í Toymachine í eftirminnilegri ferð til New York haustið 1999. Frá vinstri: Atli Hergeirsson, Baldvin Zophoníasson, Kristján Elí Örnólfsson og Jens Ólafsson.
- Atli heldur úti hlaðvarpi sem hann kallar Leikfangavélin og er til dæmis hægt að finna á Spotify. Hann byrjaði á því að gera 13 þætti um tónlistarfólk úr Eyjafirði og hefur síðan gert fjölmarga aðra þætti.
Á MORGUN – Sögulegir tónleikar í Sjallanum – Fyrsta Airwaves „hátíðin“ – Ævintýri í New York – Endalok hljómsveitarinnar.