Vöfflur, súkkulaði og sögustund hjá Þór
Annan föstudaginn í röð bjóða Þórsarar gestum og gangandi upp á rjómavöfflur og heitt súkkulaði í Hamri. Þetta hafa þeir gert á aðventunni undanfarin ár. Nú bæta þeir um betur og bjóða upp á sögustund með vöfflunum.
Fram kemur í tilkynningu á heimasíðu Þórs að Páll Jóhannesson, fyrrverandi ritstjóri heimasíðu félagsins og fyrrverandi ritari aðalstjórnar Þórs, hafi mikið grúskað í sögu félagsins. Hann ætlar að nýta þá vinnu og segja nokkrar skemmtilegar sögur úr fortíð félagsins á meðan gestir gæða sér á rjómavöfflum og heitu súkkulaði á morgun.
Formaður Þórs, Nói Björnsson, verður við vöfflujárnið. Þórsarar bjóða gestum og gangandi að líta við í Hamri frá kl. 9:00 til 11:30 á morgun, föstudag, í vöfflur, rjóma, heitt súkkulaði og sögustund með Palla Jóh.