Vinsælar gönguferðir frá skipi um bæinn
Farþegum af skemmtiferðaskipum sem leggja að bryggju á Akureyri stendur skemmtileg nýjung til boða í sumar; gönguferð með leiðsögumanni frá skipshlið, meðal annars um elsta bæjarhlutann, Innbæinn.
Sex Akureyringar stofnuðu fyrirtækið Walk and Visit og bjóða upp á gönguferðirnar, stundum með innliti á heimili og kaffisopa. „Við erum öll lærðir leiðsögumenn og vorum rétt að fara af stað þegar Covid lagði allt í dvala,“ segir Sigrún Stefánsdóttir, fjölmiðlakona og fyrrverandi dósent við Háskólann á Akureyri, við Akureyri.net.
Þráðurinn var tekinn upp að nýju í sumar og Sigrún er afar ánægð með viðtökurnar enda hefur uppátækið slegið í gegn. Farþegar skipanna sýndu gönguferðunum strax mikinn áhuga og vel er bókað út sumarið.
„Við teljum að þetta sé góð viðbót við það sem er verið að bjóða ferðamönnum upp á sem heimsækja Akureyri. Margir sem koma með skemmtiferðaskipunum fara beint í rútu til Mývatnssveitar og sjá varla nokkuð af bænum. Með þessari þjónustu geta gestirnir fræðst um bæinn og sögu hans og skoðað sig um undir faglegri leiðsögn. Við förum gjarnan inn í Innbæ og líka í Lystigarðinn og sérsniðum líka ferðir eftir því sem við á hverju sinni,“ segir Sigrún.
„Þetta er umhverfisvæn þjónusta á tveimur jafnfljótum og bæði holl fyrir okkur sem leiðsegjum og fyrir ferðamennina sem ferðast á skemmtiferðaskipum í kringum landið með hlaðið veisluborð á hverjum degi!“
Katla Þöll Þórleifsdóttir gaf ferðamönnunum kleinur sem vöktu miklu lukku. Sámur, hundur Kötlu, vakti líka athygli.