Fara í efni
Mannlíf

Vínbúð í JMJ, kýr á Amtinu og fróunarklefi

1. apríl er yfirleitt skemmtilegur dagur, þar sem fjölmiðlar og fyrirtæki reyna oft að gleðja lesendur sína og viðskiptavini með einhverju sniðugu aprílgabbi. Nokkur göbb stóðu upp úr á Akureyri, en ekki er enn vitað hvort margir hlupu apríl eða ekki. Samkvæmt ströngustu (óskrifuðu) reglum aprílgabbs, þá á að í rauninni að vera þannig uppsett að fólk færi sig úr stað til þess að það teljist hafa trúað gabbinu. Þaðan kemur í rauninni orðatiltækið 'að hlaupa fyrsta apríl'. 

Einhver göbb uppfylltu kannski ekki alveg þær kröfur, en gott grín er alltaf gott grín. Hér er yfirlit yfir nokkur skemmtileg göbb sem fyrirtæki og fjölmiðlar á Akureyri frömdu í gær.

Jón M. Ragnarsson kaupmaður í JMJ fór skrefi lengra í aprílgabbinu en Akureyri.net fór fram á og „seldi“ gönguhópnum sem kom í verslunina vodkapela! Mynd: Þorgeir Baldursson

Akureyri.net – Vínbúðin opnar útibú í JMJ

Við byrjum að sjálfsögðu á sjálfum okkur eins og við var að búast, en gabbið okkar fólst í því að fá herramenninna í JMJ til þess að taka þátt í því að auglýsa opnun smásöluútibús Vínbúðarinnar í verslun þeirra í JMJ húsinu. 

Kjartan Jósavinsson og Jón M. Ragnarsson í Herradeild JMJ. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Kjartan Jósavinsson og Jón M. Ragnarsson voru aldeilis til í smá flipp með blaðamönnum Akureyri.net. Einhverjir komu í verslunina, meðal annars 20 manna gönguhópur, en það var þó bara til þess að hlæja svolítið með verslunareigendum. Fréttin um gabbið var vísvitandi skrifuð á þann veg að fólk áttaði sig helst á því hvers kyns væri áður en það legði af stað um langan veg í því skyni að gera góð kaup ...

Akureyri.net þakkar þeim félögum í JMJ fyrir að taka þátt í glensinu, einnig þeim mörgu sem höfðu samband og þökkuðu fyrir gott gabb. Það var léttir að fá slík skilaboð og vita að engum varð meint af!

Gönguhópurinn góði sem kom við í JMJ í gærmorgun ásamt feðgunum eldhressu í versluninni, Ragnari Sverrissyni og Jóni M. Ragnarssyni. Mynd: Þorgeir Baldursson


Amtsbókasafnið – Kýrin Kilja

Hugarflug starfsfólksins á Amtinu er svo frjótt, að því er nánast trúandi til alls sem flokkast undir góðar hugmyndir. Það fór þó sennilega ekki framhjá neinum að um gabb væri að ræða þegar nýjasta viðbótin við safnkostinn var auglýst; skelegg kýr sem átti að vera til taks við safnið þar sem gestir gætu handmjólkað hana. Tilboðið var svohljóðandi: Öll sem eiga kort á safninu geta fengið að mjólka hana en aðeins tveir komast að á dag svo nauðsynlegt er að skrá sig. Athugið að við erum ekki með mjaltavélar svo nauðsynlegt er að kunna að handmjólka ef þið skráið ykkur. Við lánum fötur til að mjólka með en komið með flöskur til að flytja mjólkina heim.

 

Myndvinnsluhæfileikar starfsfólksins á Amtinu eru ekki einleiknir. Hér til vinstri er pósturinn með aprílgabbinu á Facebook síðu safnsins. Til hægri má sjá brot af auglýsingu safnsins um Harry Potter daginn fyrir einhverju síðan, en þá var finngálkn á þakinu. Myndir: Facebook síðan Amtsbókasafnsins


Blush – Fróunarklefinn

Blush.is rekur útibú á Glerártorgi, og það er spurning hvort að viðskiptavinir hafi verið að óska eftir afdrepi til þess að fá að prófa vörur. Blush selur hjálpartæki ástarlífsins og fleiri vörur tengdar kynlífi, en það er kannski ekkert óeðlileg krafa að fá að prufukeyra hluti áður en þeir eru keyptir. Í gær auglýsti Blush því 'Fróunarklefann', sem nýjung í verslunum sínum við Dalveg í Kópavogi á Glerártorgi á Akureyri. Þar átti að vera hægt að fá að prófa ýmsar vörur í hljóðeinangruðum klefa. 

 

Póstur Blush á samfélagsmiðlum. Það verður að segjast, að fróunarklefinn er mjög huggulegur. 


Dyngjan listhús – eldgos

Það hófst vissulega alvöru eldgos í gær, á Reykjanesinu, og alls ekkert aprílgabb þar um að ræða. Dyngjan listhús í Eyjafjarðarsveit sagði frá því á samfélagsmiðlinum Facebook að það væri líka hraunstraumur í hlíðinni fyrir ofan listhúsið. 

 

Myndvinnslan hér er líka alveg upp á tíu. Mynd: Dyngjan á Facebook.


Kaffið – Akureyrarkirkja verður máluð græn

Kollegar okkar á Kaffinu, kaffid.is, sögðu frétt af því að það væri búið að samþykkja á bæjarstjórnarfundi að mála Akureyrarkirkju græna. Björn Björnsson, málningarmálastjóri hjá Akureyrarbæ var þar í viðtali, en þó að starfstitlar bæjarstarfsmanna séu margir og fjölbreyttir, er þessi ef til vill skemmtilega skáldaður af blaðamanni. Björn sagði frá því í viðtalinu að fimm þúsund lítrar af grænni málningu væru keyptir og því ekki aftur snúið, sem væri synd þar sem kirkjan yrði sennilega ljót. Lesendur gleyptu ekki við gríninu, en fréttin vakti kátínu, sem er fyrir öllu. 

No description available.