Fara í efni
Mannlíf

Viltu eignast Land Rover á þúsundkall?

Land Rover félag Norðurlands gefur þennan 61 árs gamla bíl í happdrætti á sumarhátíð Íslandrover sem fram fer nú um helgina.

Íslandrover, félag Land Rover eigenda á Íslandi, fagnar 20 ára afmæli sínu á árlegri sumarhátíð um helgina að Árbliki í Dölum. Jafnframt eru 75 ár síðan fyrsti Land Rover bíllinn var kynntur til sögunnar. Það er því sannarlega ástæða til þess að fagna en líklega fagnar sá mest sem eignast 61 árs gamall Land Rover á 1000 kall á laugardagskvöldið!

„Þessi bíll er heillegri en margur bíllinn sem er á götunum í Reykjavík. Hann er nánast ekkert ryðgaður og hvalbakurinn er eins og nýr. Ef þú skoðar bílana í saltinu í Reykjavík þá er þessi bíll algjört gull,“ segir Óttar Ingason en hann og sonur hans, Hrannar Ingi Óttarsson, ásamt fleirum í Land Rover félagi Norðurlands áttu hugmyndina að því að bjóða áhugasömum að eignast Land Rover Series 2A ´62, dísel, á sumarhátíð Íslandrover sem hefst í dag og lýkur á sunnudaginn. 

Akureyrsku Land Rover feðgarnir Óttar og Hrannar Ingi við tvo af sínum Land Roverum, Series 1. Sá til hægri er 1955 módel en sá til vinstri 1954.

„Hann keyrir og bremsar. Nýr eigandi þarf að fara aðeins yfir hann og koma honum í gegnum skoðun. Fólk greiðir 1.000 krónur til þess að fá nafnið sitt í pottinn og svo verður bara dregið um það hver fær bílinn á laugardagskvöldið. Fólk getur keypt eins marga miða og það vill til að auka möguleika sína á því að eignast bílinn. Eina skilyrðið er að þú verður að vera á staðnum eða með fulltrúa á staðnum því eftir að það hefur verið dregið í happdrættinu þá verða gerð eigandaskipti og viðkomandi verður að taka við bílnum samstundis,“ segir Óttar.

Rétt er að geta þess að einungis er hægt að kaupa miða á staðnum.

Dreginn frá Þórshöfn

Áður en félagið Íslandrover var stofnað höfðu Land Rover eigendur á Norðurlandi verið með sinn eigin félagsskap í nokkur ár, Land Rover félag Norðurlands. Sá félagsskapur lifir enn góðu lífi og hafa þeir feðgar alltaf verið mjög öflugir í félaginu. Sjálfir eiga þeir samtals 15 Land Rovera en þeir hafa lagt sig fram við að bjarga gömlum Land Rover bílum sem hafa verið að grotna niður víða um landið. „Land Rover félag Norðurlands leggur þennan bíl til á sumarhátíðina bara til gamans en það eru fleiri veglegir vinningar í happdrættinu. Árið 2020 var líka gamall bíll í verðlaun sem sló algjörlega í gegn svo nú var ákveðið að endurtaka leikinn,“ segir Óttar en þeir feðgar hafa greinilega gaman af stússinu í kringum þetta.

Verk í vinnslu. Svona leit bíllinn út þegar verið var að hressa upp á hann. Bílinn er vel gangfær í dag, bremsar vel og er með ljós.

Spurður út í sögu bílsins þá segja þeir að hann komi frá Þórshöfn og þegar hann var sóttur þangað var hann rétt gangfær. Þeir feðgar hafa síðan þá lagt töluverða vinnu í bílinn og náðu t.d. í nýtt hvalbak á hann til Stokkseyrar. „Sá sem átti bílinn var kallaður Siggi Stautur, vörubílstjóri til margra ára, blessuð sé minning hans. Hann var búinn að brasa margt á þessum bíl og hann var orðinn svolítið illa farinn. Þannig að við löguðum hann aðeins, skiptum um hvalbak, settum betri bretti og fórum aðeins yfir bremsurnar. Þetta er því skemmtilegt verkefni fyrir einhvern með mikinn áhuga á Land Rover,“ segir Óttar.

Bjarga gömlum Land Roverum

Mikill áhugi hefur verið fyrir bílnum enda sjaldan sem svona gamlir og gangfærir Land Rover bílar séu falir, hvað þá fyrir 1.000 kall, sem Óttar segir að séu algjör kostakjör. „Bílinn er kominn á mótstað og það er nú þegar mikill áhugi fyrir honum hjá heimamönnum. Bændur og búalið eru mikið að skoða hann og spá og spekúlera. Það er búið að bjóða okkur dilka, kartöflur og alls konar verðmæti upp í hann. Þá hafði staðarhaldarinn mikinn áhuga á honum enda er hann mikið aðdráttarafl hjá túristunum.“

Sjálfir segjast þeir feðgar hvergi nærri vera hættir björgunarstörfum á gömlum Land Roverum. Þó að þetta eintak fari frá þeim þá reikna þeir með því að aðrir ellismellir úr Land Rover fjölskyldunni rati í hendurnar á þeim, eintök sem skilið eiga nýtt líf.

Langar þig í Land Rover á 1000 krónur? Tækifærið býðst um helgina á sumarhátíð Íslandrover að Árbliki í Dalasýslu. Land Rover feðgarnir Hrannar Ingi og Óttar náðu í bílinn til Þórshafnar og hafa lappað aðeins upp á hann. Nýr eigandi fer vonandi með verkefnið alla leið.