Fara í efni
Mannlíf

Vilja byggja 15 metra turn í Kjarnaskógi

Útsýnisturn í Kjarnaskógi gæti orðið skemmtileg viðbót við skóginn að sögn Ingólfs Jóhannsonar, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Eyfirðinga. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Hugmyndir eru uppi um að byggingu á 15 metra háum útsýnisturni í Kjarnaskógi. Turninn gæti orðið mikið aðdráttarafl fyrir Akureyri og skemmtileg viðbót í skóginn.

Eins og Akureyri.net greindi nýlega frá – sjá hér eru ýmsar betrum bætur í gangi í Kjarnaskógi. Þar er m.a. verið að leggja lokahönd á ungbarnaleiksvæði við Kjarnavöll og verið að forma sleðabrekku þar rétt hjá. 

Fleiri hugmyndir eru á borði Skógræktarfélags Eyfirðinga sem gætu orðið að veruleika á næstu árum, m.a. hugmynd að 15 metra háum útsýnisturni. „Draumurinn er sá að þegar framkvæmdir á Kjarnavelli klárast að þar verði byggður 15 metra hár turn sem gnæfir yfir skóginn. Í dag er hugmyndin sú að tengja turninn við Þórunni Hyrnu en þá gætu gestir horft yfir skóginn úr turninum og niður á hólmana þar sem að blessað barnið fæddist og þannig myndi turninn tengjast sögu Eyjafjarðar og landnáminu,“ segir Ingólfur.

Mannvirki með aðdráttarafl

„Þetta mannvirki myndi þjóna sem leiktæki neðan til en væri annars mannvirki sem væri einstakt hér í skóginum,“ segir Ingólfur sem sér fyrir sér að turninn yrði aðdráttarafl fyrir gesti á svæðinu og í flokki með Brúnni yfir ekkert og kirkjutröppunum. Að sögn Ingólfs er hugmyndin búin að gerjast í nokkurn tíma en hann sér fyrir sér að hægt sé að kaupa turninn frá vottuðum framleiðendum erlendis frá sem sérhæfa sig í slíkum mannvirkum. Síðan mætti útfæra turninn og skreyta t.d. með aðstoð íslenskra listamanna. „Þetta er enn allt á hugmyndastigi og útfærslan þróast kannski í aðrar áttir sem reynast betri en það væri mjög gaman ef Kjarnaskógur ætti svona mannvirki.“

Hvítserkur, þessi fallegi brimsorfni klettur við vestanverðan botn Húnafjarðar, er 15 metra hár. Turninn sem Ingólfur hyggst byggja í Kjarnaskógi yrði jafn hár. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson