Fara í efni
Mannlíf

Vigdís, Nína Dögg og kjóll Steingerðar

Þættirnir um Vigdísi Finnbogadóttur á RÚV hafa fengið mikið lof. Hér er Vigdís í kjólnum góða á heimili sínu morguninn eftir að hún var kjörin forseti Íslands árið 1980. Myndin er af vefnum vigdis.is. Innfellda myndin er skjáskot af RÚV - Nína Dögg Filippusdóttur í lokaþættinum.

Í lokaþætti leiknu sjónvarpsþáttaraðarinnar Vigdís sem sýndur var á RÚV í gær, kemur ein þekktasta prjónaflík landsins við sögu, ullarkjóllinn sem Vigdís Finnbogadóttir klæddist þegar úrslit í forsetakosningunum árið 1980 lágu fyrir. Kjóllinn var gerður af  norðlenskri prjónakonu og smellpassaði hann á leikkonuna Nínu Dögg Filippusdóttur, sem fer með hlutverk Vigdísar eldri.

Það var Steingerður Hólmgeirsdóttir á Akureyri sem prjónaði kjólinn og sendi Vigdísi nafnlaust að gjöf meðan á kosningabaráttunni stóð. Sendingunni fylgdu þau skilaboð að Vigdís mætti ekki klæðast kjólnum nema sigur væri vís.

„Þetta var upprunalegi kjóllinn sem Nína Dögg klæddist, það er alveg á tæru, mamma gerði svolítið sérstakan snúning og þetta var hennar snúningur,“ segir Valgerður Guðlaugsdóttir dóttir Steingerðar við Akureyri.net.

 

Vigdís (Nína Dögg) handleikur prjónakjólinn sem hún fékk sendan frá norðlenskri konu sem lét nafn síns ekki getið. Skjáskot af RÚV

Sérstök flík sem vakið hefur athygli

Valgerður segist hafa þekkt kjólinn um leið og hann birtist á sjónvarpsskjánum í lokaþættinum og Rakel Garðarsdóttir, frá Vesturporti sem er framleiðandi þáttanna, staðfestir að kjóllinn sem Nína Dögg klæddist í þættinum sé sannarlega sá sami og Vigdís bar þegar hún veifaði til mannfjöldans af svölum heimilis síns við Aragötu eftir að hafa náð kjöri. Kjóllinn, sem er enn í eigu Vigdísar, er geymdur í glerkassa í menningarmiðstöðinni Loftskeytastöðinni í Reykjavík en var fenginn að láni fyrir tökurnar á þáttunum. Kjóllinn, sem er reyndar þrjár flíkur; pils, vesti og peysa, smellpassaði að sögn Rakelar á Nínu Dögg sem hafi verið mjög ánægjulegt.

„Það var virkilega gaman að sjá Nínu Dögg í kjólnum og líka gaman að sjá aftur myndir af Vigdísi í honum á svölunum. Hann er sérstakur og hefur vakið mikla athygli. Ég er virkilega stolt af þessu í dag, þó að mér og systur minni Þorgerði hafi fundist þetta frekar hallærislegt uppátæki á sínum tíma hjá móður okkar,“ segir Valgerður Guðlaugsdóttir. 

Hönnunarsafn Íslands setti upp sýninguna  „Ertu tilbúin frú forseti?“ árið 2014 þar sem sjónum var beint að fatnaði frú Vigdísar. Sýning var einnig sett upp á Minjasafninu á Akureyri árið 2015. Ullarkjóllinn var að sjálfsögðu á sýningunni. 

Heilluð af Vigdísi

Í lokaþættinum af áðurnefndum sjónvarpsþáttum, kemur fram að kona að norðan hafi sent Vigdísi kjólinn til að þakka henni fyrir að hafa rutt brautina fyrir ættleiðingum einhleypra. Í nafnlausu bréfi sem fylgir kjólnum er látið líta út fyrir að konan hafi loks eignast fjölskyldu vegna baráttu Vigdísar. Valgerður upplýsir að í raunveruleikanum hafi það alls ekki verið þannig. Móðir hennar var hvorki einhleyp né hafi hún ættleitt. Hins vegar er rétt að hún sendi Vigdísi kjólinn án þess að láta nafns síns getið og það var ekki fyrr en haldin var sýning á fatnaði Vigdísar á vegum Hönnunarsafn Íslands að nafn Steingerðar kom fram, en þá var Steingerður látin (f. 1920, d. 2005). „Þetta var bara mynstur sem hún setti saman sjálf, það er ekki til nein uppskrift að þessu. Og eftir því sem ég best veit þá er þetta eini kjóllinn sem hún prjónaði, hún var meira í peysunum,“ segir Valgerður.

- En hvers vegna heldurðu að móðir þín hafi tekið sig til og sent Vigdísi þennan kjól?

„Hún var náttúrlega mikil kvenréttindakona, var alveg heilluð af Vigdísi og henni fannst merkilegt að kona hefði náð svona langt. Og af því hún var alltaf að prjóna þá hefur henni bara dottið þetta í hug og það kom ekkert í ljós fyrr en hún var nánast búin með kjólinn hver átti að fá hann“, segir Valgerður sem var reyndar notuð sem módel fyrir kjólinn. „Okkur systrum fannst þetta ekkert smart. Okkur fannst það frekar hallærislegt að vera að senda ókunngri konu þetta. Við vorum á þeim aldri að okkur fannst þetta ekki flott en svo er maður ægilega stoltur í dag af þessu. Og það er eiginlega bara kraftaverk að Vigdís hafi ákveðið að klæðast kjólnum, en ég er ekki viss um að hún hafi klæðst honum nema við þetta eina tilefni.“

Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverki Vigdísar í kjólnum góða sem prjónaður var af Steingerði Hólmgeirsdóttur á Akureyri. Skjáskot af RÚV

Vigdís á svölunum heima á Aragötu daginn eftir kosningarnar. Mynd af vigdis.is.

SÖGULEGAR KOSNINGAR

Forsetakosningarnar á Íslandi sunnudaginn 29. júní 1980 voru sögulegar því Vigdís Finnbogadóttir var þá fyrst kvenna í heiminum kjörin þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum. Vigdís var hyllt af þúsundum daginn eftir, þegar hún ávarpaði mannfjöldann af svölum heimilis síns við Aragötu í Reykjavík, klædd prjónakjólnum góða sem Steingerður sendi henni.

Forsíða Þjóðviljans eftir kosningarnar sögulegu. 

Forsíða Tímans þriðjudaginn 1. júlí 1989 en myndir af Vigdísi í prjónakjólnum birtust í fjölmiðlum út um allan heim.

Úrklippa úr Morgunblaðinu þriðjudaginn 1. júlí.