Mannlíf
Viðtökurnar komu þægilega á óvart
17.02.2025 kl. 19:00

Pálína Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Grófarinnar og iðjuþjálfi, er hér með nokkrar lausar skrúfur. Grófin geðrækt kynnti verkefnið „Lausa skrúfan“ um helgina. Mynd: Þorgeir Baldursson
Grófin geðrækt kynnti verkefni Lausa skrúfan á Glerártorgi um liðna helgi. Þar gafst gestum og gangandi kostur á að ræða við Grófarfélaga um geðheilbrigði auk þess sem markmiðið var að safna fjárframlögum til þessa mikilvæga verkefnis.
Febrúar er mánuður Lausu skrúfunnar og verður hún áfram til sölu út mánuðinn í BYKO, Ferro Zink og Pennanum á Akureyri. Mögulega einnig á Glerártorgi. Eins eru ýmsar styrktarleiðir á www.lausaskrufan.is þar sem má leggja málefninu lið og hægt að velja um þrjár leiðir til þess.
Margir gáfu sér tíma til að spjalla og fræðast
Pálína S. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Grófarinnar og iðjuþjálfi, kveðst afar ánægð með byrjunina á sölu Lausu skrúfunnar og ekki síst hve margir gáfu sér tíma til að spjalla við þau og forvitnast um verkefnið, tilgang þess og fyrir hvað kassinn með lausu skrúfunni stendur og í því sé mikil hvatning.

Pálína S. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Grófarinnar geðræktar og iðjuþjálfi, er ánægð með viðtökurnar sem Lausa skrúfan hefur fengið og viðtökur fólks við kynningu á verkefninu á Glerártorgi um helgina. Mynd: Þorgeir Baldursson.Mynd: Þorgeir Baldursson.
„Fólk veitti líka athygli armbandinu sem hannað var til að minna á mikilvægi þess að að losa sig við innri fordómana ekki síður en þá ytri svo fólk þori að leita stuðnings,“ segir Pálina. „Á bakhlið armbandsins stendur: geðveikt í morskóða og vísar til þess að við viljum gjarnan fela það þegar andleg veikindi banka upp á. Það kom þægilega á óvart hve margir vildu leggja þessu nýja verkefni lið og fannst gott að það væri verið að gera þessum málum hærra undir höfði í samfélaginu. Það er mikill velvilji gagnvart okkur og fólk er þakklátt fyrir að það sé hægt að fá stuðning án þess að þurfa einhvern aðgöngumiða.“

Frá kynningunni á Lausu skrúfunni um helgina. Frá vinstri: Pálína S. Halldórsdóttir, Helgi Már Guðmundsson, Vallý Rán Georgsdóttir, Vilborg Valgeirsdóttir, Sonja Rún Sigríðardóttir, Friðrik Einarsson og Svava Björg Einarsdóttir. Mynd: Þorgeir Baldursson.
Lausa skrúfan er:
- Vitundarvakning um mikilvægi þess að hugsa vel um sína andlegu heilsu og berjast gegn sínum innri fordómum ekki síður en ytri.
- Vegvísir fyrir fólk norðan heiða - jafnt fyrir þau sem eru að leita sér hjálpar við andlegri vanlíðan og þau sem vilja stunda geðrækt meðal jafningja.
- Fjáröflun fyrir Grófina Geðrækt, sem er eina opna geðræktin á Norðurlandi
Þrjár leiðir til að styrkja
Pálína segir söfnunarátakið fyrir Grófina vera þríþætt. Fyrstu styrkirnir fengust í október í fyrra, en á vefnum lausaskrufan.is má finna styrktarleiðirnar þrjár. Mögulegt er að gerast bakhjarl með mánaðarlegu framlagi, en einnig hægt að greiða stakt framlag og svo er það salan á lausu skrúfunum í pakkanum sem sjá má á meðfylgjandi myndum. Fyrirtæki og stærri aðilar geta þannig styrkt þetta þarfa verkefni án þess að kaupa skrúfurnar, eða þá að kaupa skrúfurnar handa starfsfólki sínu, „ sem er auðvitað gjöf sem gefur,“ eins og Pálína orðar það.

Pálína S. Halldórsdóttir, Helgi Már Guðmundsson og Sigurður Gísli Gunnlaugsson á Glerártorgi um helgina. Mynd: Þorgeir Baldursson.
Vel gekk að selja skrúfurnar um helgina, en samtökin hafa einnig fengið staka styrki á þeim tíma sem liðinn er frá því að söfnunin hófst, auk nokkurra bakhjarla. Þörfin sem myndaðist til að auka fjármagn til Grófarinnar kemur til af því að samtökin þurftu að flytja tímabundið í húsnæði sem er fjórfalt dýrara en þar sem starfsemin var fyrir og kostar um tíu milljónir á ári. Þar verða samtökin í eitt eða eitt og hálft ár og að frádreginni hækkun á þjónustusamningi við ríkið má segja að vanti um 4-7 milljónir króna inn í reksturinn, eftir því hve lengi þau þurfa að vera á núverandi stað í Hafnarstræti 97, sem þó er frábær staðsetning.
„Það tekur tíma þar til vörumerki eins og Lausa skrúfan er orðin þekkt í samfélaginu en vitundarvakningin og hvar stuðning er að finna er auðvitað númer 1, 2 og 3,“ segir Pálína S. Halldórsdóttir.