Fara í efni
Mannlíf

„Við klórum því sem klæjar“ er mottóið

Ein myndanna sem er til sölu í vefversluninni: Haförn kemur með fæði í hreiðrið. Ljósmynd: Einar Guðmann.

Hjónin Gyða Henningsdóttir og Einar Guðmann hafa undanfarin ár haft ljósmyndun, vinnslu mynda og sölu að atvinnu. Þau eiga marga gullmola í safninu sem víða hafa ratað en til að koma verkum sínum enn frekar á framfæri létu þau draum rætast í gær og opnuðu vefverslun, sem þau kalla litla listasafnið sitt. Þar bjóða þau til sölu verk sem þau framleiða sjálf í takmörkuðu upplagi - sérvalin verk fyrir tímalausa og listræna veggi, eins og þau orða það.

„Þegar við setjumst yfir kaffibolla og spjöllum um það hvað við ættum að gera næst til að selja myndirnar okkar förum við oft eftir mottóinu að klóra því sem klæjar! Það er broslegt viðhorf sem er eiginlega markaðssetning á mannamáli. Stofnun GGart.is var spurning um að fylla upp í ákveðið skarð. Fram að þessu höfum við helst þjónustað fyrirtæki og stofnanir í gegnum myndasöfnin á Gudmann.is og Gyda.is,“ segir Einar við Akureyri.net.

Gyða bætir við að á GGArt.is safni þau saman myndum „sem við köllum demantana okkar. Þessar myndir eiga tvennt sameiginlegt en það er að vera prentaðar í mjög takmörkuðu upplagi og henta vel á veggi að okkar mati. Okkur fannst vanta að fólki stæði til boða að geta keypt innrammaðar myndir tilbúnar upp á vegg og einnig myndir í vönduðu kartoni fyrir þá sem vilja sjálfir velja sér ramma. Margir vilja fá myndir afhentar þannig að það vanti bara hamar og nagla til að setja þær upp,“ segir hún.

Með GGart.is segja þau líka loksins hægt að bjóða bækurnar þeirra til sölu á heimsvísu. „Það er endalaust verið að biðja okkur um að senda bækurnar til útlanda og við höfum þurft að vísa á aðra fram að þessu,“ segir Gyða.

Helstu tekjur þeirra undanfarin ár hafa byggst á samstarfi við fyrirtæki og stofnanir úr ýmsum áttum um allt land. „Fyrirtæki þurfa náttúruljósmyndir í allskonar verkefni. Það getur verið allt frá ársskýrslum, risastórum myndum á veggi, hönnun á minjagripum, vörupakkningar, umbúðir, heimasíður eða markaðssetning á samfélagsmiðlum. Sérstaða okkar liggur í að við sérhæfum okkur í íslenskri náttúru og landslagi,“ segir Einar.

Þau segjast vonast til þess að verslunin muni gagnast þeim hópi fólks sem leitar að myndum sem minna á íslenska náttúru og henta til að lífga upp á heimilið eða vinnustaðinn.

Vefverslunin

Myndir Einars og Gyðu prýða veggi víða. Hér eru tveir möguleikar, sem þau sýna í vefversluninni.