Fara í efni
Mannlíf

Verðum verkstjórar eigin hugmynda

„Nýleg tækni hefur umbylt því hvernig við vinnum og hugsum. Þessi nýjung sem nú þegar er aðgengileg flestum Íslendingum hefur breytt grundvallarþáttum í öllu frá daglegum störfum til flókinnar ákvarðanatöku. En hvað þýðir þessi breyting fyrir framtíð okkar?“

Þannig hefst nýjasti pistill Magnúsar Smára Smárasonar fyrir Akureyri.net. Hann hefur í pistlum undanfarna mánuði fjallað um gervigreind með mjög eftirtektarverðum hætti og segir einnig: „Auðvitað vakna siðferðilegar spurningar. Hversu mikið ættum við að reiða okkur á þessa tækni? Hvar drögum við mörkin? Þessar spurningar krefjast stöðugrar umræðu og endurskoðunar eftir því sem tæknin þróast.“

Þegar betur er að gáð er Magnús Smári reyndar ekki að fjalla um það sem virðist blasa við heldur kallast hann skemmtilega á við annan pistlahöfund Akureyri.net, Stefán Þór Sæmundsson, í kjölfar pistilsins Hvað er svona merkilegt við það? 

„Þó að sumir telji að gervigreind muni leysa mannlega höfunda af hólmi. Þá er ég sannfærður um að spekúlantar og eins og Aðalsteinn Öfgar eigi alls ekki að pakka niður. Þvert á móti tel ég mikilvægi þeirra sem þora að taka þátt í samfélagsumræðunni meira en nokkru sinni fyrr,“ segir Magnús Smári.