Fara í efni
Mannlíf

Varð strax ástfangin af íshokkí – og Íslandi

Sarah Smiley í Skautahöllinni á Akureyri. Upphaflega ætlaði hún bara að skjótast til Íslands og spila hokkí. Átján árum síðar er hún hér enn. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Sumir bera nafn með rentu, eins og það kallast. Sarah Smiley er ein af þeim, en jákvæðni hennar, elja og brosmildi bergmála um Skautahöllina á Akureyri, þar sem hún er þjálfari, fyrrum leikmaður og órjúfanlegur partur af hokkífjölskyldu SA, eins og hún kallar þau. „Mér leið strax eins og ég væri komin í stóra fjölskyldu, þegar ég kom hingað fyrst fyrir átján árum. Og líður þannig enn, en fjölskyldan er alltaf að stækka, sem er frábært.“

Sarah kynntist manninum sínum, Ingvari Þór, hjá SA, en hann er fæddur í Reykjavík og spilaði með meistaraflokki karla. „Í dag eigum við þrjú börn, og þó að fjölskyldur okkar beggja séu annarsstaðar, mín í Kanada og hans í Reykjavík, erum við heima,“ segir Sarah með bros á vör, en hún tók á móti blaðamanni Akureyri.net á skrifstofu sinni í Skautahöllinni.

Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Söruh.

Á MORGUN – „TÖLUM STUNDUM UM ANNAÐ EN ÍSHOKKÍ!“

Sarah Irene Shantz Smiley er frá Kanada, þar sem hún ólst upp í miðbæ stórborgarinnar Toronto. Hún átti heima þar með foreldrum sínum og bróðurnum Chris. Íshokkí hefur verið risastór partur af lífi Söruh frá unga aldri, en það var ekki auðvelt að komast af stað. „Það var ekki sama hefð fyrir því í Kanada á þessum tíma, eins og við erum vön hérna á Akureyri í dag, að flestir krakkar fái að prófa íþróttir og æfa,“ segir Sarah, en hún fékk að æfa dans, sem hún hafði mjög gaman af. Það blundaði þó í henni íþróttakona, sem braust fram þegar hún fékk að spila með strákunum í götunni einn daginn. „Það voru einhverjir strákar þarna í hverfinu sem voru alltaf að leika sér úti í hokkí og mig langaði svo til þess að þeir myndu bjóða mér með. Einn daginn, loksins, fékk ég að vera með og ég var svo glöð! Eftir það varð ég harðákveðin í því að fara að æfa.“

Ég fann það bara sjálf, að ég vildi æfa íshokkí, og tilkynnti foreldrum mínum það

Foreldrar Söruh heita Alison Smiley og Bob Shantz og eru hætt að vinna í dag, en eru ennþá að grúska í sínum hugðarefnum sem tengjast vinnunni. „Mamma starfaði sem ráðgjafi og vistfræðingur, en hún stofnaði fyrirtæki sem var í greiningum varðandi umferðarmannvirki og áhrif þeirra á slys, til dæmis. Hún er svakalega klár, er búin að selja fyrirtækið sitt en er að skrifa bók núna,“ segir Sarah. „Pabbi var prestur, en hann er ennþá að sinna sálgæslu þó hann sé hættur að þjóna. Hann er lútherstrúar þannig að það var mjög skemmtilegt fyrir hann að koma hingað og heimsækja kirkjurnar hérna og hitta fólkið.“

 

Tímabilið 1995/96. Sarah er hérna eina stelpan í hokkíliði í Toronto. Mynd úr einkasafni

Stelpuhokkí allt annað í Kanada en áður

„Ég fann það bara sjálf, að ég vildi æfa íshokkí, og tilkynnti foreldrum mínum það,“ segir Sarah, en íshokkí er þjóðaríþrótt Kanadamanna. „Pabbi hafði aðeins spilað sem krakki og hafði gaman af íshokkí, en annars var fjölskyldan ekki í hokkí. Sarah segir að stelpuhokkí hafi verið mjög lítið í Kanada þegar hún var að byrja, ekki nema um 2000 iðkendur á landsvísu. Í dag eru u.þ.b. 100.000 konur að æfa, þannig að staðan er allt önnur í dag.

Ég var orðin 11 ára, sem er svolítið seint í Kanada, en ég varð strax ástfangin af íþróttinni

Það var skautahöll nálægt og Sarah labbaði þangað á æfingar. „Ég var orðin 11 ára, sem er svolítið seint í Kanada, en ég varð strax ástfangin af íþróttinni,“ segir Sarah. „Ég æfði mig heima og fór á öll námskeið sem buðust.“ Sarah æfði með strákum, þar sem engar aðrar stelpur voru að æfa.“ Vegna þess að það var skortur á stelpum, bauðst þjálfarastarf hjá félaginu og Sarah fór mjög ung að þjálfa. Það sést glöggt í dag, að þar fann hún gullæðina sína, en í dag er hún yfirþjálfari yngri flokka hjá Skautafélagi Akureyrar og hefur þjálfað ótal flokka á öllum aldri síðan hún tók sín fyrstu skref í þjálfun. En aftur að því, hvernig leið Söruh lá norður yfir Atlantshafið til frambúðar.

 

Sarah Smiley. T.v. 1995, 13 ára að spila í Kanada, eina stelpan í strákaliðinu. T.h. 2020, lykilleikmaður íslenska landsliðsins á HM í Skautahöllinni á Akureyri, 37 ára.

Háskólahokkí og atvinnumennska í Kanada

„Ég varð betri leikmaður, við það að þjálfa,“ segir Sarah. „Ég æfði bara með strákum þangað til ég varð 14 ára og þá frétti ég af því að það væru stelpur að æfa einhversstaðar nálægt. Ég spilaði með þeim þangað til að ég fór í háskóla, en í Kanada eru háskólaíþróttirnar mjög stórar, eins og í Bandaríkjunum. Ef maður vildi halda áfram að spila hokkí, þá var málið að fara í háskólahokkíið.“ Sarah fór í University of Windsor, sem er í fjögurra tíma akstursfjarlægð frá Toronto. Þar lærði hún Human kinetics, sem er sambærilegt við Íþróttafræði í háskólum á Íslandi.

Gæfuspor að fá höfnun í meistaranám

Þegar Sarah útskrifaðist, bauðst henni að fara í Montreal að spila í efstu hokkídeild kvenna í Kanada, með bestu leikmönnunum. „Það var ótrúleg upplifun, og ótrúlega skemmtilegt,“ segir Sarah. „Ég var alveg óviss með framtíðina, ég var búin að sækja um meistaranám og þegar ég komst ekki inn í það þótti mér það vont, en ég veit í dag að það var gæfuspor.“ Fljótlega eftir vonbrigðin við að komast ekki í áframhaldandi nám, fékk Sarah örlagarík skilaboð. 

„Það hafði verið kanadískur þjálfari hérna á Akureyri, sem var fluttur burt aftur,“ segir Sarah. „Guðrún Blöndal, sem var þá að spila með meistaraflokki kvenna hjá SA, hafði samband við hann og spurði hvort hann þekkti einhverja leikmenn sem myndu kannski vilja koma til Akureyrar að spila hokkí. Hann sendi tölvupóst á þá sem hann þekkti, og þau sendu áfram á næsta, og næsta. Þangað til beiðnin lenti hjá mér. Ég hugsaði strax að þetta væri spennandi og svaraði.“ Sarah hafði því samband við Skautafélag Akureyrar, en sagði að hún væri orðin svo áhugasöm um þjálfun, að hún myndi vilja þjálfa eitthvað með, ef hún kæmi sem leikmaður. Því var tekið fegins hendi og Sarah pakkaði í töskurnar. 

 

Liðsmynd frá 2006 af Montreal Axion, sem Sarah spilaði með í efstu deild kvenna í Kanada. Hér er liðið fulltrúi héraðsins Quebec á kanadísku héraðsmóti. Mynd úr einkasafni. 

Fjarlægðin við fjölskylduna erfiðari í seinni tíð

Sarah hafði verið að heiman í nokkur ár, vegna háskólagöngu og atvinnumennsku, en foreldrar hennar fundu töluvert meira fyrir því, þegar hún vildi fara alla leið til Íslands. „Þeim fannst þetta erfitt, þó það ætti bara að vera tímabundið,“ rifjar Sarah upp. „Ég man, að pabbi minn fór að gráta. Ég hafði aldrei séð hann gera það áður.“ Sarah bendir á að vegna þess, hvað Kanada er stórt land, þá hefði hún alveg getað flutt innanlands en samt þurft fimm klukkustunda flug til þess að hitta fjölskylduna. „Kannski myndum við bara hittast sjaldnar ef ég hefði gert það,“ segir hún. „Þau komu fyrsta árið mitt í heimsókn og hafa komið á hverju ári síðan. Nema í Covid, það var frekar erfitt. Ég er reyndar farin að finna fyrir því núna, að ég sé langt í burtu. Þau eru að eldast.“

„Ég hef fengið svo mikinn stuðning frá foreldrum mínum í þessu öllu saman,“ segir Sarah. „Þau vita að ég elska líf mitt á Íslandi. Ég elska starfið, fjölskylduna mína og allt.“ Eiginmaður Söruh, Ingvar Þór Jónsson, er kennari í Menntaskólanum og fær því gott sumarfrí, hokkíið fer í frí á sumrin líka, þannig að fjölskyldan hefur heimsótt Kanada á sumrin í mörg ár. „Við förum yfirleitt í 3-4 vikur og stelpurnar mínar þekkja Kanada sem sitt annað heimili.“

 

Þetta var fyrri hluti viðtalsins við Söruh Smiley. Á morgun birtum við seinni hlutann, þar sem rætt er frekar um fjölskylduna, landsliðsverkefni og þjálfun og uppbyggingu íshokkídeildar SA.

Á MORGUN – „TÖLUM STUNDUM UM ANNAÐ EN ÍSHOKKÍ!“

Sarah segir að það sem gefi henni mest í þjálfarastarfinu, sé að taka á móti yngstu iðkendunum, fylgja þeim og sjá þau blómstra. Mynd: RH