Fara í efni
Mannlíf

„Var flottara hjá mér en ég bjóst við!“

Natan Dagur í þættinum sem TV 2 sendi út í kvöld. Ljósmynd: The Voice.

Natan Dagur Benediktsson komst í kvöld áfram í 3. umferð norsku The Voice sjónvarpssöngkeppninnar á TV2. Hann söng þá dúett með Alexa Valentina; þau fluttu lagið Take Me To Church, sem írski söngvarinn og gítarleikarinn Hozier samdi og söng inn á plötu fyrir nokkrum árum; sungu ákveðna kafla lagsins hvort í sínu lagi en viðlagið sungu þau saman.

„Þetta gekk mjög vel. Ég náði að flytja lagið eins vel og ég ætlaði – raunar var það flottara hjá mér en ég bjóst við!“ sagði Nathan Dagur, himinlifandi í samtali við Akureyri.net, um eigin frammistöðu í kvöld. „Ég klikkaði smávegis á tímasetningunni á einum stað, en efast um að nokkur taki eftir því,“ sagði hann.

Þjálfari þeirra, söngkonan og lagahöfundurinn Ina Wroldsen, hrósaði báðum fyrir flutninginn, en valdi Natan til að halda áfam. „Við vorum 48 sem komumst í aðra umferð, núna er helmingurinn valinn þannig að 24 eru eftir, en svo er geta þjálfararnir stolið einhverjum átta sem eru ekki valdir, þannig að það eru 32 sem komast áfram,“ segir Natan.

Öruggari núna

Natan, sem varð 22 ára í síðustu viku, sló rækilega í gegn í fyrstu umferðinni og grætti m.a. einn dómarann vegna þess hve vel hann flutti lagið Bruises. Hann segir viðbrögð dómaranna ekki hafa verið eins sterk að þessu sinni, en var þó mjög sáttur, eins og áður kom fram.

Athygli vakti þegar Natan söng í fyrstu umferðinni að það var í fyrsta skipti sem hann söng opinberlega á ævinni! Hann var dálítið taugaóstyrkur, eins og nærri má geta. Sagðist reyndar, í samtali við Akureyri.net þá, ekki hafa munað neitt eftir að hann kom af sviðinu. „Ég man þó vel að ég þornaði í munninum og að hægra hnéð á mér skalf!“ sagði hann þá.

Nú leið honum betur – enda að koma opinberlega fram í annað skipti á ævinni! „Ég fann fyrir meira öryggi núna að standa á sviðinu og fara í gegnum sama stressið; ég þoldi það aðeins betur núna,“ sagði Natan.

Flutningur Natans á Bruises í fyrstu umferð keppninnar þótti frábær og er mörgum minnisstæður. Upptakan er að sjálfsögðu aðgengileg á Youtube og þar hefur verið horft á hana rúmlega milljón sinnum. Þá hefur verið hlustað 400.000 sinnum á lagið á Spotify. Fagfólk hjá The Voice telur frammistöðu Natans eina af þeim 10 bestu í keppninni á heimsvísu á þessu ári að sögn.

Í þriðju umferð keppir Natan við einhvern annan úr liði Inu Wroldsen. Þá flytur hvor söngvari eitt lag og sá sem hefur betur í því einvígi kemst áfram í 16 manna úrslit, þann hluta keppninnar þar sem söngvararnir koma fram í beinni útsendingu.

Smelltu hér til að heyra flutning Natans Dags og Alexa Valentina sem sýndur var í kvöld

Smelltu hér til að hlusta á Natan syngja þegar hann sló í gegn í fyrstu umferð The Voice

Natan Dagur og Alexa Valentina í þættinum sem TV2 senti út í kvöld. Ljósmynd: The Voice.