Fara í efni
Mannlíf

Valborg saumar út kennileiti Akureyrar

Til minningar um Akureyri. Hjá versluninni Skart og verðlaun er hægt að kaupa ýmsa skartgripi en líka skemmtilegar útsaumsmyndir af kennileitum á Akureyri.

Útsaumsmyndir af kennileitum á Akureyri hafa vakið athygli í skartgripaverslun í miðbæ Akureyrar. Það er Valborg Rósudóttir, starfsmaður hjá Skart og verðlaun, sem saumar myndirnar, en mikil vinna liggur á bak við hverja mynd

Þetta eru gömul mynstur sem ég hef fundið og keypt af öðrum handverkskonum. Akureyrarkirkja er til sem mynstur, líka Laxdalshúsið og Gamli spítalinn en þetta eru mynstur eftir Þórunni Franz. Það er fullt til. Þessar myndir liggja kannski í klukkustreng heima hjá fólki en ég sauma þær stakar sem litlar sætar myndir, segir Valborg.

Valborg starfar í versluninni Skart og verðlaun á Akureyri en saumar út eftir gömlum mynstrum í frístundum. Myndirnar hennar hafa nú ratað í verslunina og passa vel við fallegt handverk Ólafar Þóru gullsmiðs. 

Handgerður minjagripur frá Akureyri

Vin­sæld­ir út­saums ganga í hringi en Valborg segist hafa haft áhuga á útsaumi síðan hún var krakki, en hún er líka mikil prjónakona. Þetta er mjög skemmtilegt og mun einfaldara en fólk oft heldur. Ég segi oft að þetta sé mitt jóga og minn sálfræðitími, segir Valborg og hlær. Í sumar prófaði hún að stilla einni útsaumsmynd eftir sig út í gluggann hjá Skart og verðlaun við Ráðhústorgið. Sú mynd var af fjallkonu og seldist til erlendra ferðamanna sem tóku hana heim til Ítalíu. Þar sem fjallkonan vakti lukku sem skemmtilegur handgerður minjagripur frá Akureyri hélt Valborg áfram með útsaum á öðrum þjóðlegum myndum. Í glugganum hjá Skart og verðlaun er núna að finna útsaumaða mynd af Akureyrarkirkju og aðra af Laxdalshúsi. Aðspurð hvort fleiri kennileiti á Akureyri séu í vinnslu segir Valborg að það geti vel verið, en akkúrat í augnablikinu er hún reyndar upptekin við útsaum á jólasokkum handa ættingjum.

Jólavertíðin undirbúin hjá Skart og verðlaun við Ráðhústorgið. Gullsmiðurinn Ólöf Þóra hefur setið sveitt við smíðarnar.  

Margir mikið að skreyta sig

Útsaumsmyndirnar, sem eru saumaðar í fíngert hörefni, passa annars vel við aðalhandverk verslunarinnar, sérsmíðaða skartgripi eftir gullsmiðinn Ólöfu Þóru. Þær stöllur hafa verið að undirbúa jólavertíðina í versluninni og hefur Ólöf Þóra setið við smíðarnar. „Skart er yfirhöfuð mikið í tísku um þessar mundir, margir eru mikið að skreyta sig og eru jafnvel með mörg göt í eyrunum. Hringir og steinar eru vinsælt skart í eyrun, segir Valborg og bætir við að það eigi við um bæði kynin. Strákarnir eru mikið í stórum grófum keðjum og silfurhálsmenum. Þá eru armbönd líka mjög vinsæl hjá strákunum. „Perlunar eru líka að verða vinsælar aftur, líka hjá strákunum. Þeir hafa verið að fá sér alveg heilar perlufestar. Eins tennisarmbönd með fíngerðum steinum, þau hafa líka verið eftirsótt.

Skart er mikið í tísku um þessar mundir hjá báðum kynjum. Grófar keðjur og armbönd eru vinsæl hjá karlkyninu. Þá eru perlurnar að koma sterkar inn. 


Skart og  verðlaun sérhæfir sig í sölu og smíði á skarti og verðlaunum. Skemmtilegt tvist á starfssemina eru útsaumsmyndir eftir einn starfsmann verslunarinnar, sem eru þar líka til sölu.