Fara í efni
Mannlíf

Útskriftarnemar MA afsokkuðu blaðamann

Unga fólkið gerist varla virðulegra en þetta.

Tíðindamaður Akureyri.net átti fyrir tilviljun leið um miðbæinn síðdegis og keyrði fram á hóp af ungu fólki sem klæddist að því er virðist Barcelona-búningum frá toppi til táar. Það tók hann þó smá stund að kveikja á því hvað var í gangi. Það var ekki fyrr en komið var niður Gilið og fleiri skrautklæddir hópar urðu á vegi hans sem ljósið kviknaði: Dimmissjón í MA!

Síminn fór að sjálfsögðu á loft seint og um síðir og útskriftarnemar Menntaskólans leyfðu myndatökur góðfúslega. Einhvers konar ratleikur eða keppni virtist vera í gangi því við myndatöku á einum hópnum kom allt í einu spurning: Megum við kaupa af þér annan sokkinn? - Já, auðvitað. Símanúmerið tekið niður og skömmu seinna voru lagðar 200 krónur inn á reikning blaðamanns. Kemur sér vel í þessari stétt. Annar hópur áttaði sig á að í sokkapari eru tveir sokkar og föluðust eftir hinum, en í það skiptið var hvorki greitt í reiðufé né tekið niður símanúmer til að millifæra þannig að sá hópur getur líklega af tæknilegum ástæðum ekki haldið því fram að hafa „keypt“ sokk. Myndir eru til staðfestingar af afhendingu beggja sokkanna.

Þetta er ungt og leikur sér!


Móheiður Ólafsdóttir vissi deili á blaðamanni og þorði því að spyrja - vantaði að kaupa sokk í einhverjum leik sem útskriftarnemar voru í þegar þeir settu svip á bæinn í Dimmissjón MA í dag.


Læknaþing á Akureyri? Ekki alveg, en mögulega læknar eða hjúkrunarfólk framtíðarinnar í þessum hópi.


Þessi fengu sokk hjá blaðamanni, en tæknilega séð keyptu þau hann ekki. 

Rólegur kúreki! Eða: Það er snákur í stígvélinu! Ekki gott að segja.