Fara í efni
Mannlíf

Úrskurðurinn kom Vegagerðinni á óvart

Vegagerðin er með næstu skref í málefnum Hríseyjarferjunnar til skoðunar eftir að kærunefnd útboðsmála felldi úr gildi þá ákvörðun stofnunarinnar að semja við Eystein Þóri Yngvason fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags um rekstur ferjunnar til þriggja ára, 2023-2025.

„Niðurstaðan kom okkur á óvart, við höfðum skoðað málið mjög vandlega og vorum með lögfræðiálit sem var ekki samhljóma niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í skriflegu svari við fyrirspurn frá Akureyri.net. 

Ferry ehf. og Andey ehf. buðu í reksturinn ásamt Eysteini Þóri, en tilboð þeirra voru mun hærri en tilboð Eysteins Þóris. Tilboð Eysteins Þóris nam um 85% af kostnaðaráætlun, en tilboð Ferry ehf. og Andeyjar ehf. voru bæði umtalsvert yfir kostnaðaráætluninni.

Andey ehf. hefur séð um rekstur ferjunnar í nokkur ár, en fyrri samningur rann út um áramót. Gerður var bráðabirgðasamningur við Andey um að halda áfram rekstri ferjunnar á meðan kæruferlið væri í gangi, fyrst út mars og svo framlengt út árið.

Tímalínan

  • 1. október 2022: Vegagerðin auglýsir eftir tilboðum í rekstur Hríseyjarferjunnar fyrir árin 2023-2025.
  • 1. desember 2022: Tilboð opnuð. Þrjú tilboð bárust. Vegagerðin ákvað að taka tilboði Eysteins Þóris Yngvasonar, fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags. Kostnaðaráætlun var 347,8 milljónir króna.
    Eysteinn Þórir Yngvason: 296,6 milljónir kr.  
    Ferry ehf.: 489 milljónir kr.
    Andey ehf.: 534,3 milljónir kr.
  • 19. desember 2022: Fyrirtækið Ferjuleiðir ehf. stonfað og skráð í fyrirtækjaskrá degi síðar, í fullri eigu Eysteins Þóris Yngvasonar.
  • 20. desember 2022: Andey ehf. kærir ákvörðun Vegagerðarinnar um að velja tilboð Eysteins Þóris til kærunefndar útboðsmála.
  • 21. desember 2022: Ferry ehf. kærir ákvörðun Vegagerðarinnar um að velja tilboð Eysteins Þóris til kærunefndar útboðsmála.
  • 1. janúar 2023: Nýr bráðabirgðasamningur gerður milli Vegagerðarinnar og Andeyjar ehf. til að forða þjónustufalli í Hríseyjarsiglingum, gildir út mars. Fyrri samningur Vegagerðarinnar og Andeyjar gilti til 31. desember 2022.
  • 22. febrúar 2023: Vegagerðin leggur fram kostnaðaráætlun sem gerð var vegna útboðsins, að beiðni kærunefndarinnar. Kostnaðaráætlunin nam 347,8 milljónum króna.
  • 6. mars 2023: Kærunefndin fellst á kröfu kærenda um að stöðva samningsgerð milli Vegagerðarinnar og Eysteins Þóris.
  • 1. apríl 2023: Bráðabirgðasamningur við Andey ehf. framlengdur út árið 2023.
  • 11. september 2023: Kærunefnd útboðsmála fellir úr gildi ákvörðun Vegagerðarinnar um að taka tilboði Eysteins Þóris Yngvasonar.