Fara í efni
Mannlíf

Upplýsingar hafa borist um 152 myndir af 171

Lesendur hafa augljóslega mjög gaman af gömlu myndinni frá Minjasafninu á Akureyri. Ein slík hefur verið birt á Akureyri.net á hverjum föstudegi síðan um miðjan nóvember árið 2020, þegar vefurinn var endurvakinn og jafnan berast margar ábendingar um hverja mynd.  Til þess er leikurinn einmitt gerður, að fá lesendur til að bera kennsl á fólk og staði.

Síðasta föstudag birtist 171. myndin og tekist hefur að afla upplýsinga um yfirgnæfandi meirihluta þeirra – alls 152. Póstar berast yfirleitt fljótlega til Minjasafnsins og ritstjórnar Akureyri.net en líflegar vangaveltur skapast líka á Facebook þar sem frétt um myndina er deilt með meðlimum hópsins Gamlar ljósmyndir og einnig birt á Facebook síðu Akureyri.net. Lesendur eru oftast fljótir að taka við sér en svo skemmtilega vill til að undanfarið hafa borist nokkrar ábendingar um myndir sem birtust fyrir margt löngu.

Myndin að ofan var sú 15. í röðinni – birtist 19. febrúar árið 2021 – og nokkrir bentu fljótlega á að hún væri tekin við Saurbæ í Eyjafirði. Á dögunum barst síðan sú ábending að litli drengurinn á myndinni væri Benedikt Gunnarsson, sonur séra Gunnars Benediktssonar og fyrri eiginkonu hans, Sigríðar Gróu Þorsteinsdóttur. Ómetanlegt er að fá óyggjandi upplýsingar um svona nokkuð og aldrei of seint. Lesendur eru því hvattir til þess að skoða myndirnar og senda upplýsingar sem þeir kunna að búa yfir.

GAMLA MYNDIN