Umferð hleypt á – hönnuð fyrir gangandi

Þegar leið á tíunda áratug 20. aldarinnar höfðu kaupmenn og aðrir áhyggjur af framtíð verslunar í miðbænum, ekki síst vegna þess að þegar leið nærri aldamótunum var ný verslunarmiðstöð í gömlu verksmiðjuhúsunum á Gleráreyrum, Glerártorg, komin í deigluna.
Hér birtist þriðji og síðasti hluti af lauslegri upprifjun á sögu göngugötunnar, Hafnarstrætis frá Kaupvangsstræti að Ráðhústorgi.
Í GÆR – „ÖKUMENN MISNOTA VÖRULOSUNARRÉTTINN“
Í FYRRADAG – HUNDRAÐ ÞÚSUND STEINAR – MISMUNANDI GRÁIR
2000 – Gatan, gilið og torgið endurhönnuð
Kaupmenn og aðrir höfðu áhyggjur af framtíð verslunar í miðbænum, ekki síst vegna þess að ný verslunarmiðstöð í gömlu verksmiðjuhúsunum á Gleráreyrum, Glerártorg, var í deiglunni. Samkeppnin var að aukast og kaupmenn í miðbænum höfðu áhyggjur. Þrýstingur kaupmanna og annarra hélt áfram og fór svo að lokum að umferð var hleypt á götuna þó hún hafi með framkvæmdunum 1982-1983 hvorki verið hönnuð né byggð til að þola reglulega umferð vélknúinna ökutækja.
- Í september árið 2000 samþykkti bæjarstjórn tillögur að nýrri hönnun fyrir götuna, Skátagilið og Ráðhústorgið. Ákveðið var að endurnýja þessi þrjú svæði og byrjað á götunni. Áætlaður kostnaður var um 100 milljónir króna, þar af 50 milljónir við breytingu götunnar. Framkvæmdir hófust í upphafi nýrrar aldar, í janúar 2001, og má segja að ökutækin hafi í verki fengið forgang þó í orði hafi það verið svo að gangandi og hjólandi hefðu forgang, en umferð vélknúinna ökutækja leyfð.
Úrklippa úr Morgunblaðinu 30. september 2000, bls. 22.
Með breytingunum sem ákveðnar voru í september 2000 má segja að gatan hafi tekið á sig þá mynd sem Akureyringar og gestir þeirra þekkja í dag, að mestu leyti.
2009 – Akbrautin malbikuð
- Þegar gatan var opnuð fyrir vélknúnum ökutækjum 2001 var ekið á hellunum sem lagðar voru 1982-1983 þrátt fyrir að gatan hafi hvorki verið hönnuð né byggð með það í huga. Þannig gekk það þó ekki lengi því eins og fram kemur í minnisblaði sem unnið var fyrir umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar núna í upphafi árs 2025 var hellulögnin fjarlægð og malbikað í staðinn árið 2009 enda voru hellurnar orðnar ónýtar og höfðu skemmt snjóbræðslukerfið.
Malbikið frá 2009 hefur látið mjög á sjá. Myndir úr minnisblaði sem unnið var fyrir umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar.
2023 – Lokuð á sunnudögum
- Sumarið 2023 var gatan lokuð fyrir ökutækjum á sunnudögum kl. 11-19 frá júní fram í ágúst. Þegar sú ákvörðun var tekin var jafnframt tekin ákvörðun um fulla sumarlokun 2024, en þó með aðgengi fyrir vöruflutninga til rekstraraðila og fyrir P-merkta bíla.
- „Gamla orðið sem varð til þegar til stóð að göngugatan stæði undir nafni er enn notað þó það sé í sjálfu sér algjört öfugmæli,“ skrifaði Jón Ingi Cæsarsson, fyrrverandi formaður skipulagsnefndar Akureyrar, í grein sem birtist á Akureyri.net undir yfirskriftinni Göngugatan – af hverju er þetta svona erfitt?
2024 – Sumarlokun með takmörkuðu aðgengi
- Lokuð frá 3. júní til 31. ágúst 2024 - en með því þó að aðgengi P-merktra bifreiða og viðbragðsaðila um götuna væri tryggt, sem og fyrir aðföng rekstraraðila á svæðinu.
- Í október sagði akureyri.net frá því þegar glerhált var í götunni þar sem snjóbræðslukerfið var bilað.
- Að loknu sumri var gerð könnun á viðhorfi rekstraraðila í miðbænum til sumarlokunar götunnar og voru niðurstöðurnar kynntar á fundi skipulagsráðs í desember. Ef til vill var áhugaverðasta niðurstaða könnunarinnar sú hve fáir svöruðu henni. Könnunin var send til 52ja rekstraraðila í miðbænum og svöruðu aðeins 15 þeirra. Akureyri.net sagði frá niðurstöðunum í frétt í desember 2024.
2025 – Ónothæf sem akstursgata
- Fjallað var um Göngugötuna á fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs 18. febrúar og lagt fram minnisblað um ástand hennar, eins og Akureyri.net fjallaði um í máli og myndum. Gatan sögð vart þola áframhaldandi bílaumferð án umfangsmikilla viðgerða. Frumáætlun um kostnað er upp á 250 milljónir, en framkvæmdin er ekki á fjárhagsáætlun bæjarins 2025-2028.
- Segja má að nú sé komið að skuldadögum. Eftir að ekið hefur verið um götu með yfirborði sem hannað var fyrir gangandi vegfarendur í rúma tvo áratugi, með neyðarlagfæringum á yfirborði akstursbrautarinnar um miðbik tímabilsins, súpa bæjarbúar og bæjaryfirvöld nú seyðið af ákvörðunum sem teknar voru í lok 20. aldarinnar.
Myndir úr minnisblaði sem unnið var fyrir umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar 2025.
Framtíðin – endurnýjuð sem göngugata eða eitthvað allt annað?
- Á þessari stundu er ekki gott að segja til um það hvaða stefna verður mörkuð varðandi mögulega endurhönnun, endurbyggingu og nýtingu þessa umtalaða og umdeilda spotta Hafnarstrætis og Ráðhústorgsins, en hvað sem ákveðið verður að gera er nokkuð ljóst að kostnaðurinn mun hlaupa á hundruðum milljóna króna. Enda ekki ljóst heldur hvenær eitthvað verður gert því eins og fram kom í fundargerð umhverfis- og mannvirkjaráðs fyrr í mánuðinum er ekki gert ráð fyrir fjármagni í þetta verkefni í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árin 2025-2028. Viðgerð er nauðsynleg, bara spurning um hvenær, ekki hvort. Ef til vill þurfa íbúar þó að bíða í þrjú ár enn, jafnvel lengur, nema mögulegt verði að koma þeirri framkvæmd inn á fjárhagsáætlun bæjarins fyrr. Hún er að minnsta kosti ekki sem stendur á fjárhagsáætlun næstu fjögurra ára.
- Hvað vilja lesendur, íbúar Akureyrar, gestir? Eingöngu göngugötu? Vistgötu með takmarkaðri umferð? Göngugötu á ákveðnum tímum ársins með banni við umferð en opna á öðrum tímum? Yfirbyggða göngugötu? Eitthvað allt annað?